Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 7. janúar 2022

Heil og sæl og gleðilegt nýtt ár!

Annað árið í röð var jólahátíð okkar flestra með nokkuð óhefðbundnu sniði af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar og var ráðherra á meðal þeirra fjölmörgu Íslendinga sem vörðu jólunum í einangrun. En líkt og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, greindi sjálf frá á Facebook-síðu sinni á milli hátíða greindist hún, og aðrir fjölskyldumeðlimir, með COVID-19 fyrir jól. Þau voru sem betur fer öll einkennalaus og fullfrísk.

„Skjátími hefur verið langt umfram almennar reglur á heimilinu. Vinnufundir vegna Covid eru fjarfundir og sem betur fer fengu allir nýjar bækur í jólagjöf og möndlugjöfin var Partý Skellur svo það er hlegið yfir því – og kettinum Ronju sem flækir sig í kastölunum sem við byggjum,“ sagði ráðherra meðal annars um þennan óvenjulega tíma.

En það er ýmislegt að gera í einangrun, eins og ráðherra komst sjálf að orði, eins og taka upp og senda yfirlýsingu á ráðstefnu í New York um endurskoðun á samningum um bann við dreifingu á kjarnavopnum.

Í dag fór fram sérstakur aukafundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins vegna stöðu öryggismála í Evrópu og hernaðaruppbyggingar Rússlands. Á fundinum, sem haldinn var um öruggan fjarfundabúnað, var rædd sú alvarlega staða sem upp er komin vegna aðgerðaRússlands á þessu svæði þar sem hættan á hernaðarátökum hefur farið vaxandi. Á fundinum lögðu ráðherrar áherslu á að frekari brot myndu hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Rússland. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í fundinum í dag í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar.

Staða mannréttinda í þessum heimshluta hefur verið helsta umræðuefnið á alþjóðavettvangi undanfarin misseri. Á milli hátíða lýsti Þórdís Kolbrún til að mynda yfir verulegum áhyggjum yfir ákvörðun rússneskra dómstóla um að loka skuli rússnesku mannréttindasamtökunum Memorial. Hún skorar á rússnesk stjórnvöld að tryggja umhverfi frjálsra félagasamtaka í landinu.

Sama dag sagðist ráðherra uggandi yfir fréttum þess efnis að fréttamiðlinum Stand News í Hong Kong hefði verið lokað og blaðamenn handteknir. „Stjórnvöld í Hong Kong eiga að standa vörð um tjáningarfrelsið – ekki skerða það,“ sagði Þórdís Kolbrún í færslu á Twitter.

Í lok árs ákvað Þórdís Kolbrún að úthluta 200 milljónum króna til mannúðaraðstoðar í Afganistan, Eþíópíu og Jemen. „Áætlað er að um 274 milljónir manna þurfi á aðstoð að halda á næsta ári, tæplega fjörtíu milljónum fleiri en á árinu sem er að kveðja. Skýrist það meðal annars af aukinni fátækt, stríðsátökum, áhrifum loftslagsbreytinga og Covid-19 heimsfaraldrinum,“ sagði Þórdís Kolbrún um málið á Facebook-síðu sinni. „Fyrir hönd skattgreiðenda er þessu fjármagni nú ráðstafað þar sem neyðin er mest.“

Skiptum nú yfir í aðeins jákvæðari sálma því í vikunni bárust þær ánægjulegu fréttir að ungir Íslendingar geta nú sótt um dvalarleyfi vegna vinnudvalar í Bretlandi. Ísland er fyrsta og eina ríkið á öllu EES-svæðinu sem hefur gert samkomulag þess efnis við Bretland. Að sama skapi geta breskir ríkisborgara nú sótt um slík dvalarleyfi á Íslandi.

„Þetta eru mikilvæg tímamót, sérstaklega fyrir ungt fólk, og til marks um áframhaldandi góð og náin samskipti Íslands og Bretlands“ sagði Þórdís Kolbrún.

Í Heimsljósi er þess minnst að um þessar mundir eru um fimmtíu ár síðan opinber alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands hófst með formlegum hætti. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu. Í fyrsta kaflanum er fjallað um þingsályktunartillögu frá árinu 1964 og Ólaf Björnsson þingmann og hagfræðiprófessor sem var frumkvöðull tillagna um þátttöku Íslands á þessu sviði.

En lítum næst yfir til sendiskrifstofa okkar. Tíminn á milli jóla og nýárs er iðulega rólegur tími í utanríkisþjónustunni, en eitt og annað hefur þó verið til umfjöllunar.

Í New York urðu þau tíðindi um áramótin að Noregur tók við formennsku í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, óskaði starfssystur sinni til hamingju og góðs gengis. 

Sendiráð Íslands í Tókýó vakti á sínum samfélagsmiðlum athygli á viðtali japönsku sjónvarpsstöðvarinnar NHK við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hún ræddi um árangur Íslands í jafnréttismálum.

Sendiráðin okkar gegna öll mikilvægu hlutverki á sviði menningar. Þau miðla og fræða um íslenskan menningararf og samtímamenningu, skipuleggja viðburði og styðja við viðskiptatækifæri listafólks, svo eitthvað sé nefnt.

Þannig vakti sendiráð Íslands í París athygli á því á Facebook-síðu sinni að íslenski rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson væri þessa dagana staddur í Frakklandi að kynna bók sína „Fjarvera þín er myrkur“ sem er nýkomin út í franskri þýðingu.

Þá hefur verið mikið um að vera í menningarlífinu hjá sendiráði Íslands í Moskvu. Verk Ragnars Kjartanssonar „Santa Barbara – lifandi skúlptúr“ heldur áfram að fá góðar umsagnir, nú síðast í umfjöllun The Moscow Times. Þá hélt Víkingur Heiðar Ólafsson einleikstónleika í Moskvu á milli hátíða. „Tónleikagestir fögnuðu listamanninum ákaflega og er óhætt að segja að Víkingur hafi leikið sig inn í hjörtu Moskvubúa á þessum fyrstu tónleikum hans í borginni,“ eins og segir í umfjöllun sendiráðsins um tónleikana.

Að lokum bendum við á fréttaannál utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021, en árið var ansi viðburðaríkt í stafsemi utanríkisþjónustunnar.

Fleira var það ekki í bili.

Góða helgi!

Upplýsingadeild.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta