Hanna Birna Kristjánsdóttir setti af stað fyrstu sprenginguna í Norðfjarðargöngum
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sprengdi í dag fyrstu formlegu sprenginguna í Norðfjarðargöngum en undirbúningsframkvæmdir hófust síðla sumars. Hanna Birna er þar með fyrsta konan sem setur af stað sprengingu fyrir jarðgöngum.
Í kaffisamsæti eftir sprenginguna flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir ávarp ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra, nokkrum þingmönnum kjördæmisins og fleirum. Hanna Birna óskaði íbúum Fjarðabyggðar til hamingju með áfangann og sagði göngin munu þýða gjörbreytingu í samgöngumálum sveitarfélagsins og víðar. Ráðherra nefndi að fyrir lægju margar óskir og væntingar um verkefni á sviði samgöngumála um land allt og nú væru til skoðunar hugmyndir um samvinnu við einkaaðila um fjármögnum tiltekinna samgönguframkvæma. Þessar hugmyndir væru til skoðunar í samvinnu við vegamálastjóra.
Skrifað var undir verksamning við lægstbjóðendur, Metrostav og Suðurverk, 14. júní en þrír buðu í verkið. Áætlaður heildarkostnaður er um 12 milljarðar króna á verðlagi í febrúar 2013 og er þar einnig meðtalinn kostnaður við rannsóknir, hönnun og eftirlit. Gert er ráð fyrir að búið verði að bora í gegn um mitt ár 2015 og tekur þá við vinna við lokastyrkingar, klæðingar, vegagerð og raflagnir auk smíði vegskála.
Sprengt verður í fyrstu Eskifjarðarmegin og er áætlað að gangagerðin Norðfjarðarmegin hefjist í byrjun næsta árs. Verklok eru áætluð árið 2017. Fyrirhugaður gangamunni að sunnan verður rétt innan við gamla Eskifjarðarbæinn, munni verður þar í um 15 m hæð yfir sjó. Munni Norðfjarðarmegin verður í 125 m hæð yfir sjó í landi Tandrastaða. Göngin verða 7,5 km löng og með vegskálum beggja megin er lengdin 7,9 km. Nokkur vegagerð tengist einnig göngunum; um það bil tveggja km vegur í Eskifirði og um 5,3 km í Norðfirði. Smíði brúar á Norðfjarðará er nýlokið og snemma árs 2015 er ráðgert að bjóða út smíði Eskifjarðarbrúar.