Fréttapistill vikunnar 28. feb. - 5. mars
Starfshópur fjalli um starfsemi og skjólstæðinga LSH í Kópavogi og Arnarholti
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett á fót starfshóp til að fara yfir og fjalla um þá starfsemi og þá skjólstæðinga, sem nú vistast í húsnæði Landspítala - háskólasjúkrahúss á lóð þess í Kópavogi og í Arnarholti. Hópnum er ætlað að skoða sérstaklega tengsl og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu við þessa einstaklinga og hvernig þessari þjónustu verði best fyrir komið. Einnig skal hópurinn athuga mögulega framtíðaruppbyggingu á þessum stöðum og horfa þá til hugsanlegrar þjónustu á sviði heilbrigðismála og félagsmála. Formaður starfshópsins er Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Aðrir starfsmenn eru Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri, félagsmálaráðuneyti. Hallgrímur Guðmundsson, stjórnsýslufræðingur, fjármálaráðuneyti og Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarforstjóri, Landspítala ? háskólasjúkrahúsi.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um launaþróun á heilbrigðisstofnunum
Ríkisendurskoðun hefur gefið út skýrsluna ,,Launaþróun starsfmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000 ? 2002?. Í skýrslunni er reynt að varpa ljósi á ástæður umtalsverðri hækkun launakostnaðar á nokkrum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni á tímabilinu 2000 ? 2002. Fram kemur að launakostnaður á þessum stofnunum hafi vaxið um 30,2% á tímabilinu, en fjármálaráðuneytið hafði metið kostnaðaráhrif kjarasamninga við starfsmenn stofnananna til 18 ? 21% launahækkunar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að 30,2% hækkun launakostnaðar sé u.þ.b. tvöfalt meiri hækkun en launavísitala sama tímabils segir til um. Ríkisendurskoðun telur þrjár skýringar helstar: Í fyrsta lagi miklar umsamdar launahækkanir til sumra starfshópa, í öðru lagi launaskrið og í þriðja lagi aukið vinnuafl. Á heimasíðu Ríkisendurskoðunar má lesa skýrsluna í heild.
Ríkisendurskoðun...
Stjórnunarupplýsingar LSH fyrir janúar 2004
Aldursdreifing starfsmanna á Landspítala ? háskólasjúkrahúsi, innleiðing DRG framleiðslumælingarkerfisins og upplýsingar um kostnað vegna námsferð starfsfólks árið 2003 er meðal þess sem fjallað er um í stjórnunarupplýsingum LSH fyrir janúar sl. Fram kemur að rúm 47% starfsmanna sjúkrahússins eru yngri en 44 ára og rúm 22% eru eldri en 55 ára. Fjölmennasti hópurinn er á aldrinum 45 ? 54 ára, þ.e. 30% starfsmanna. Árið 2003 var um 218 milljónum króna varið í námsferðir starfsfólks. Tæpar 123 m.kr. voru vegna námsferða lækna en um 95 milljónir króna vegna námsferða annarra. Í stjórnunarupplýsingunum eru einnig birtur samanburður á ýmsum upplýsingum um starfsemi sjúkrahússins á árunum 1999 ? 2003. Fram kemur að stöðugildum hefur fækkað um 4,1% á þessum árum, komum á dag- og göngudeildir spítalans hefur fjölgað um 4,4% og á bráðamóttökur um 8,2%. Legum á sólarhringsdeildum hefur fækkað um 12,1% og legudögum um 15,6% og meðallegutími hefur styst um 2,2%. Er þetta í samræmi við stefnu spítalans segir í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga, Önnu Lilju Gunnarsdóttur.
Nánar...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
5. mars 2004