Nr. 46/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 28. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 46/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU20110025
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. nóvember 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Fílabeinsstrandarinnar (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. október 2020, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk annarra grundvallarreglna stjórnsýsluréttar. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. janúar 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 9. mars, 15. og 16. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 23. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 10. nóvember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 1. desember 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 14. janúar 2021 ásamt talsmanni sínum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna áreitis yfirvalda í kjölfar andláts eiginmanns hennar.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hún m.a. greint frá ástæðum þess að hún hafi neyðst til að flýja frá heimaríki sínu. Eiginmaður kæranda hafi frá árinu 2007 starfað fyrir þáverandi forseta landsins, Laurent Gbagbo, og seinna meir fyrir núverandi forseta landsins, Alassane Ouattara. Eiginmaður hennar hafi verið handtekinn fyrir að hafa tekið þátt í verkfallsaðgerðum meðlima öryggissveita og verið látinn sitja í herfangelsi í einn mánuð og í kjölfarið verið gert að láta af störfum. Eftir um átta mánuði eða þann 15. júní 2019 hafi menn í herklæðum komið að heimili þeirra og krafist þess að eiginmaður kæranda kæmi með þeim í yfirheyrslu. Hann hafi neitað þar sem hann hafi ekki fengið formlega boðun um slíkt. Kváðu umræddir aðilar að fyrirskipanir þeirra kæmu frá forseta landsins og hann yrði að hlýða. Hann hafi streist á móti og hafi aðilarnir þá beitt hann líkamlegu ofbeldi sem hafi leitt til dauða hans. Kærandi hafi tekið atburðarrásina upp á myndband og hún og lögmaður hennar komið upptökunni til fjölmiðla til birtingar þar sem yfirvöld hafi ekki staðið við orð sín um að rannsaka málið frekar. Í kjölfar þess að myndbandsupptakan birtist í fjölmiðlum, þ. á m. dagblaðinu Le Temps, hafi kærandi verið á lögreglustöð. Þar hafi hún verið spurð út í myndbandið og verið í haldi lögreglunnar í fjóra daga þar sem hún hafi m.a. þurft að sæta pyntingum allt þar til hafi farið að blæða úr móðurlífi hennar. Þá hafi kærandi fengið að hafa samband við lögmann sinn sem hafi fengið hana leysta úr haldi. Í framhaldinu hafi kærandi haldið sig heima eða þar til lögmaður hennar hafi tilkynnt henni að hún hafi verið boðuð fyrir dóm. Hann hafi mætt fyrir hennar hönd fyrir dóm og í kjölfarið ráðlagt kæranda að yfirgefa heimaríki sitt en annars væri hún í hættu á að vera sett í fangelsi eða jafnvel að vera tekin af lífi. Lögmaður hennar hafi komið kæranda í samband við vin sinn frá Gana sem hafi aðstoðað kæranda að flýja heimaríki í lok október 2019. Kærandi sé nú eftirlýst í heimaríki.
Hvað varðar aðstæður í heimaríki vísar kærandi í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 3. júní 2020. Þar hafi m.a. verið greint frá pólitískum óstöðugleika og blóðugum átökum í landinu í kjölfar forsetakosninga árin 2000 og 2010. Á meðal helstu mannréttindabrota sem framin séu í landinu séu handahófskennd morð af hálfu lögreglu, handahófskennt varðhald af hálfu öryggissveita, slæmar fangelsisaðstæður, fangelsanir á pólitískum grundvelli, skortur á sjálfstæði dómstóla og takmarkanir á tjáningar-, fjölmiðla- og netfrelsi. Kynbundið ofbeldi sé vandamál í ríkinu en í því sambandi séu nauðganir, heimilisofbeldi og kynfæralimlestingar kvenna útbreitt vandamál auk þess sem konur standi höllum fæti, m.a. þegar komi að hjónaböndum, skilnuðum, forræðismálum og menntun í landinu. Þá séu einstaklingar sem hafi tengsl við fyrrum ríkisstjórn Gbagbo reglulega handteknir eða settir í varðhald.
Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, og þ.a.l. ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda, hafi grundvallast á misskilningi vegna viðvarandi túlkunarvandræða, mistaka stofnunarinnar við vinnslu gagna, alvarlegra brota á rannsóknarreglu og mistaka lögmanns kæranda í heimaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið byggt á því að kærandi hafi ekki lagt fram frumrit persónuskilríkja við meðferð málsins. Kærandi hafi þó í raun lagt fram frumrit auðkenniskorts við undirritun viðtals hjá stofnuninni þann 25. maí 2020. Fulltrúi Útlendingastofnunar hafi ætlað að bóka framlagninguna en það hafi farist fyrir auk þess sem gagnið hafi glatast í fórum stofnunarinnar. Þá hafi ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram og kveðið vera myndir af skemmdum á húsnæði hennar eftir eldsvoða verið til þess fallnar að valda tortryggni Útlendingastofnunar í garð kæranda eftir að í ljós hafi komið að umræddar myndir væru ekki af húsi kæranda. Kærandi kvað lögmann sinn hafa sent sér umræddar myndir og því lagt þær fram í góðri trú. Fer kærandi fram á að litið verði framhjá umræddum ljósmyndum við trúverðugleikamat á frásögn hennar. Kærandi gerði athugasemd við að í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið fjallað um stöðu kvenna í heimaríki þrátt fyrir að byggt hafi verið á umræddri málsástæðu í greinargerð hennar til stofnunarinnar. Hafi verið um alvarlegt brot á rannsóknarskyldu stofnunarinnar að ræða. Þá gerir kærandi athugasemd við að hún hafi ekki verið metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tl. 3. gr. laga um útlendinga, þrátt fyrir frásögn hennar af atburðum í heimaríki og framlagðs vottorðs sálfræðings sem hafi metið kæranda með skýr einkenni áfallastreituröskunar.
Varakröfu sína byggir kærandi á því að hún sé flóttamaður í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á alþjóðlegri vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laganna. Kærandi byggir á því að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. um ástæðuríkan ótta við ofsóknir bæði vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana og þar sem hún sé kona tilheyri hún tilteknum þjóðfélagshópi í heimaríki. Vísar kærandi til þess að eiginmaður hennar hafi starfað fyrir fyrrum forseta landsins og að yfirvöld hafi sakað hann um að skipuleggja uppreisn gegn núverandi forseta. Þá hafi kærandi verið sökuð um að dreifa óhróðri og lygum um núverandi forseta landsins. Sé kærandi því í hættulegri stöðu sem stjórnarandstæðingur í heimaríki. Vegna stöðu kvenna í heimaríki sé einnig ljóst að konur þar í landi eigi á töluverðri hættu að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og upplifa margskonar mismunun í samfélaginu og eigi kærandi því á hættu ofsóknir vegna kyns síns. Kærandi óttist því ofsóknir yfirvalda auk þess sem leggja beri til grundvallar að yfirvöld í heimaríki hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd gegn þeim ofsóknum sem hún eigi á hættu að verða fyrir af hálfu annarra en stjórnvalda.
Kærandi byggir þrautavarakröfu sína á því að vegna stjórnmálaskoðana sem yfirvöld ætli henni og stöðu hennar sem konu í heimaríki eigi hún á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Vegna þess eigi hún rétt á viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Þrautavaravarakröfu sína um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, byggir kærandi á því að almennar aðstæður í heimaríki hafi verið bágbornar en yfirvöld hafi m.a. gerst sek um mannréttindabrot. Félagsleg aðstaða kæranda í heimaríki sé einnig bágborinn en hún sé einstæð móðir sem eigi ekkert bakland þar í landi. Þá liggi fyrir að andlegt heilsufar kæranda sé ábótavant en samkvæmt skýrslu sálfræðings sýni kærandi merki alvarlegrar áfallastreituröskunar. Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða uppfyllt.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til þess að sanna á sér deili. Af gögnum málsins og rannsókn kærunefndar verður þó ekki annað séð en að kærandi hafi í raun framvísað auðkennisskírteini frá Fílabeinsströndinni hjá Útlendingastofnun. Til staðfestingar á því fékk kærunefnd umrætt skírteini sent frá Útlendingastofnun. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ríkisborgari Fílabeinsstrandarinnar.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Fílabeinsströndinni m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2017/18 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- BTI 2020 Country Report – Côte d'Ivoire (Bertelsmann Stiftung, 2020);
- Côte d'Ivoire - COI Compilation (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), 31. ágúst 2017);
- Freedom in the World 2020 – Côte d'Ivoire (Freedom House, 4. mars 2020);
- Freedom in the World 2018 – Côte d'Ivoire (Freedom House, 28. mars 2018);
- Côte d'Ivoire 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Côte d'Ivoire 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2018);
- Côte d'Ivoire 2020 Crime and Safety Report (Overseas Security Advisory Council, 13. mars 2020);
- Côte d'Ivoire 2019 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
- Ivory Coast President Alassane Ouattara wins re-election to third term (https://www.france24.com/en/africa/20201103-ivory-coast-president-ouattara-wins-re-election-to-third-term, 3. nóvember 2020);
- Ivory Coast election: Alassane Ouattara wins amid boycott (https://www.bbc.com/news/world-africa-54778200, 3. nóvember 2020);
- The treatment of Ivorian Popular Front (FPI)/Gbagbo supporters in Côte d'Ivoire by both state and non-state actors; incidents of arrests and/or violence against FPI/Gbagbo supporters in Côte d'Ivoire; the willingness and ability of the State to protect FPI/Gbagbo supporters in Côte d'Ivoire (Country of Origin Research and Information (CORI), 17. ágúst 2016);
- Human Rights in Africa: Review of 2019 - Cote d'Ivoire (Amnesty International, 8. apríl 2020);
- Special report of the Secretary-General on the United Nations Operation in Côte d'Ivoire (UN Security Council, 31. mars 2016);
- Concluding observation on the fourth periodic report of Côte d'Ivoire (Committee on the Elimination of Discrimination against Women, 30. júlí 2019);
- Côte d'Ivoire: The Ivorian Popular Front (Front populaire ivoirien, FPI), including the treatment of its members (July 2014-July 2015) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 24. júlí 2015);
- Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 20. janúar 2021);
- How Côte d'Ivoire is improving access and quality of health care (https://oxfordbusinessgroup.com/overview/doctor%E2%80%99s-orders-higher-levels-investment-improve-access-and-quality-care, sótt 25. janúar 2020);
- The impact of Côte d'Ivoire's universal health coverage (https://oxfordbusinessgroup.com/analysis/expanded-access-universal-coverage-rolled-out-alongside-facility-upgrades, sótt 25. janúar 2020);
- Social Security Programs Throughout the World: Africa, 2019 – Côte d'Ivoire (U.S. Social Security Administration, september 2019) og
- The World Factbook – Côte d'Ivoire (CIA, 18. janúar 2021).
Samkvæmt upplýsingum frá World Factbook er Fílabeinsströndin lýðræðisríki með rúmlega 28 milljónir íbúa. Fílabeinsströndin öðlaðist sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hið sama ár. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 og mannréttindasáttmála Afríku árið 1992. Sama ár fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þá fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1995 ásamt því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum.
Frá því Fílabeinsströndin öðlaðist sjálfstæði hafi ríkið verið eitt af mest velmegandi löndum í Vestur-Afríku. Það hafi þó ekki komið í veg fyrir pólitíska ókyrrð í landinu sem hafi verið talsverð frá síðustu aldamótum. Árið 1999 var ríkisstjórn landsins í fyrsta skipti steypt af stóli með valdaráni sem framið var af her landsins. Við völdum tók Robert Guei en stjórnartíð hans entist í skamman tíma þar sem hann tapaði í kosningum seint árið 2000 fyrir Laurent Gbagbo. Árið 2002 hafi misheppnuð tilraun til valdaráns leitt til uppreisnar og að lokum til borgarastyrjaldar í landinu. Árið 2007 hafi náðst sættir á milli ríkisstjórnar og uppreisnarsinna. Í kosningum árið hafi 2010 Laurent Gbagbo lotið í lægra haldi fyrir Alassane Dramane Ouattara en neitaði að láta völd sín af hendi. Hafi það leitt til fimm mánaða ofbeldisfullra átaka þar til Laurent Gbagbo hafi verið neyddur frá völdum af stuðningsmönnum Outtara með aðstoð Sameinuðu þjóðanna og franskra hersveita. Fram kemur í skýrslu Freedom House frá 2020 að Alassane Dramane Ouattara hafi verið við völd síðan eftir að hafa verið endurkjörinn árið 2015 í kosningum sem hafi verið taldar trúverðugar, gegnsæjar og frjálsar af eftirlitsaðilum auk þess sem þær hafi farið friðsamlega fram, annað en fyrri forsetakosningar í landinu sl. tvo áratugi. Frá því að Ouattara var kjörinn forseti Fílabeinsstrandarinnar hafi landið náð töluverðum framförum á ýmsum sviðum auk þess sem dregið hafi úr pólitískri ókyrrð og átökum í landinu allt frá því að átökunum í kjölfar forsetakosninganna árið 2010 lauk. Outtara hafi hafið þriðja kjörtímabilið sitt í desember 2020 í kjölfar umdeildra kosninga í október það ár sem stjórnarandstaðan hafi sniðgengið. Að minnsta kosti 85 manns hafi látist og hundruðir særst vegna mótmæla sem brutust út í kjölfar kosninganna. Stjórnarskrá Fílabeinstrandarinnar takmarki setu forseta á stóli við tvö kjörtímabil en forsetinn og stuðningsmenn hans telji að samþykkt nýrrar stjórnarskrár árið 2016 hafi gert honum kleift að endurnýja umboð sitt.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að alvarlegustu mannréttindabrotin í Fílabeinsströndinni séu m.a. handahófskennd manndráp af hendi lögreglu, fangelsisvistanir einstaklinga í pólitískum tilgangi, skortur á sjálfstæði dómstóla, takmarkanir gegn tjáningarfrelsi og frjálsri fjölmiðlaumfjöllun, hindranir gagnvart félaga- og fundafrelsi, ofbeldi gagnvart konum og stúlkum, ofbeldi gegn meðlimum LGBT+ samfélagsins og barnaþrælkun.
Í sömu skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að ríkislögreglan (e. The National Police) og herlögreglan (e. National Gendarmerie) séu ábyrgar fyrir löggæslu í landinu. Herlögregla og herdómstóll sjái um rannsókn og saksókn vegna meintra brota af hálfu öryggissveita. Stjórnarskrá landsins leggi bann við handahófskenndum handtökum og varðhaldi en þó hafi verið greint frá slíkum tilvikum, þ. á m. tilvikum þar sem einstaklingar hafi verið í varðhaldi í langan tíma í senn. Í ágúst 2018 hafi forseti landsins veitt 800 föngum sem hafi tengst átökum í kjölfar forsetakosninga árið 2010 sakaruppgjöf. Ráðstöfun forsetans hafi verið gagnrýnd af mannréttindasamtökum m.a. þar sem einstaklingum sem tengist mögulega stríðsglæpum hafi verið veitt sakaruppgjöf sem komi í veg fyrir að fórnarlömb umræddra glæpa geti leitað réttlætis. Stjórnvöld landsins neituðu fyrir það að í landinu væru pólitískir fangar en ýmis mannréttindasamtök greindu frá því að um 200 stuðningsmenn og meðlimir stjórnmálaflokks fyrrum forseta landsins, þ.e. Laurent Gbagbo, væru í haldi m.a. á grundvelli efnahagslegra glæpa, vopnaðra rána og þjófnaðar. Í skýrslu Amnesty International frá árinu 2018 eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að hafa í haldi rúmlega 200 manns sem séu í reynd pólitískir fangar þrátt fyrir að ríkisstjórn Fílabeinstrandarinnar neiti því að hafa nokkurn pólitískan andstæðing í varðhaldi. Séu það einkum einstaklingar sem sóttir hafi verið til saka vegna meintra brota tengdum framangreindum átökum í landinu á árunum 2010 til 2011. Hafi sérstaklega verið gagnrýnt að umræddir einstaklingar hafi ekki verið í hópi þeirra sem veitt var sakaruppgjöf í ágúst 2018. Í árskýrslu Human Rights Watch fyrir árið 2019 kemur fram að pólitísk spenna og óstöðugleiki sé í landinu. Alþjóðlegi glæpadómstóllinn (e. International Criminal Court) hafi í janúar 2019 sýknað fyrrverandi forseta landsins, Laurent Gbagbo og Charles Blé Goudé, sem festi refsileysi enn frekar í sessi fyrir glæpi sem framdir hafi verið eftir kosningarnar 2010-2011 þar sem þúsundir létust. Þó komi fram að miklar umbætur í lögum hafa leitt til lögverndunar mannréttinda. Ríkisstjórnin hafi samþykkt lög sem skilgreini pyntingar sem sjálfstæðan glæp. Handtaka stjórnarandstæðinga fyrir að skipuleggja mótmæli gegn stjórnvöldum hafi þó vakið áhyggjur fyrir forsetakosningar 2020.
Fram kemur í fyrrnefndri skýrslu Freedom House frá 2020 að dómstólar landsins séu ekki sjálfstæðir og að dómarar verði fyrir miklum utanaðkomandi áhrifum og þiggi mútur. Samkvæmt stjórnarskrá landsins eigi borgarar landsins jafnan rétt til að leita réttar síns fyrir yfirvöldum en algengt sé að það sé ekki virt í framkvæmd. Yfirvöld eigi að auki í erfiðleikum með að útvega efnaminni einstaklingum lögfræðilega aðstoð til þess að gæta réttar þeirra gagnvart yfirvöldum. Þá hafi löggæslustarfsmenn gerst sekir um mútuþægni og séu sjaldan dregnir til ábyrgðar vegna misferlis í starfi.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að stjórnarskrá landsins leggi einnig bann við brotum gegn friðhelgi einkalífs. Til þess að framkvæma leit á heimilum fólks þurfi leitarheimild. Þó hafi verið tilvik þar sem stjórnvöld og lögregla hafi ekki virt umrædd ákvæði og lögreglan m.a. látið duga að bera fyrir sig almenna leitarheimild án nafns og heimilisfangs viðkomandi til að framkvæma húsleit. Stjórnarskrá landsins kveði á um tjáningarfrelsi og frjálsa fjölmiðlaumfjöllun ásamt því sem lög landsins leggi bann við varðhaldi og fangelsun blaðamanna á grundvelli umfjöllunar þeirra. Í lögum sé þó að finna háar sektarheimildir fyrir þá sem hafi gerst sekir um afbrot með fjölmiðlaumfjöllun. Samkvæmt skýrslu í ágúst 2019 hafi 14 aðgerðasinnar verið handteknir í umleitan stjórnvalda til þess að þagga niður í einstaklingum sem séu andsnúnir þeim. Almennum borgurum sé þó almennt frjálst að taka þátt í pólitískum samræðum og rökræðum án þess að þurfa óttast áreiti eða varðhald.
Í stjórnarskrá landsins sé kveðið á um jafnan rétt kvenna og karla. Enn fremur skuldbindi hún stjórnvöld landsins til þess að grípa til viðeigandi úrræða til þess að stuðla að framþróun kvenna í landinu og gera konur meðvitaðri um eigin réttindi. Þrátt fyrir það halli á konur í stjórnmálalegri þátttöku en í lok ársins 2019 hafi aðeins 8 af 49 meðlimum ríkisstjórnarinnar verið konur. Í lögum landsins er lagt bann við nauðgun, kynferðislegri áreitni og kynfæralimlestingum kvenna. Stjórnvöld hafi gripið til ýmissa úrræða til þess að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og refsileysi þess í kjölfar átakanna í landinu árin 2010 - 2011. Til að mynda hafi stjórnvöld í júlí 2017 innleitt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi af hálfu öryggissveita landsins og efnt til vitundarvakningar og þjálfunar fyrir her og lögreglu landsins til þess að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Þá hafi refsirammi fyrir kynfæralimlestingar verið hækkaður með nýjum hegningarlögum frá 26. júní 2019. Þrátt fyrir framangreint sé kynferðislegt ofbeldi og kynfæralimslestingar kvenna þó enn útbreitt vandamál innan landsins auk þess sem konur upplifi misrétti, m.a. í tengslum við hjónabönd, skilnaði, forræðismál, menntun og á atvinnumarkaði.
Í greinum frá 2020 segir að þrátt fyrir sterkan efnahag standi landið aftar en önnur minni þróaðri ríki þegar kemur að ýmsum heilbrigðisviðmiðunum. Vegna pólitísks óstöðugleika og átaka í landinu yfir árabil hafi heilbrigðisgeirinn verið undirfjármagnaður. Eftir að átökum hafi lokið og ákveðinn stöðugleiki náðst í landinu hafi stjórnvöld hins vegar gripið til samstilltra aðgerða undanfarin ár til þess að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu, endurbæta og byggja upp betri aðstöðu og bæta kerfið svo að það samrýmist alþjóðlegum stöðlum. Í því sambandi hafi fjárframlög frá ríkinu til heilbrigðisgeirans aukist töluvert undanfarin ár. Í landinu séu fimm háskólasjúkrahús, fimm sérhæfðar heilbrigðisstofnanir og fjórar opinberar heilbrigðisstofnanir sem þjóni hver sínum tilgangi. Þá séu í landinu 2027 heilsugæslustöðvar og 84 almenn sjúkrahús. Margir ríkisborgarar Fílabeinsstrandarinnar hafi aðeins haft takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar í landi vegna þess kostnaðar sem greiða þurfi fyrir umrædda þjónustu. Vegna þess hafi yfirvöld ákveðið að innleiða nýtt sjúkratryggingakerfi sem standi öllum til boða með það að markmiði að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Innleiðingin hafi hafist árið 2017 og stefnt sé að því að 38% af ríkisborgurum heyri undir kerfið árið 2023. Kerfið sé tvíþætt og bjóði annars vegar upp á möguleika á að greiða mánaðarlegt gjald fyrir ákveðna heilbrigðisþjónustu og hins vegar upp á möguleika sem ekki þurfi að greiða fyrir, fyrir þá sem eigi í fjárhagserfiðleikum. Auk þess eigi ríkisborgarar Fílabeinsstrandarinnar kost á því að njóta heilbrigðisþjónustu innan einkageirans hafi þeir tök á því að greiða fyrir slíka þjónustu.
Í skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins, Freedom House og Amnesty International fyrir árið 2017 er greint frá því að í janúar og maí umrætt ár hafi hópur hermanna stofnað til uppreisnar þar sem þeir hafi talið sig eiga rétt á bónusgreiðslum frá stjórnvöldum landsins. Um hafi verið að ræða fyrrum uppreisnarsinna sem margir hverjir hafi aðstoðað núverandi forseta landsins Ouattara við að komast til valda, frá borgarastyrjöldinni sem hófst árið 2002 og átökunum sem geisuðu í kjölfar forsetakosninganna árið 2010. Hópurinn hafi verið tekinn inn í her landsins (e. Armed Forces of Cote d'Ivoire (FACI)) árið 2011 og samanstandi einn þriðji hersins af honum. Hópurinn hafi beitt vegalokunum í uppreisninni og m.a. lokað fyrir aðgengi að Bouake, næst stærstu borg landsins. Þrátt fyrir að uppreisnin hafi endað með friðsamlegum hætti, þar sem ríkisstjórnin hafi orðið við kröfum þeirra, hafi fjórir látið lífið í átökum uppreisnarsinna og almennra borgara auk þess sem ástandið hafi ógnað stöðugleika í landinu. Háttsettir leiðtogar innan FACI, þ. á m. varnarmálaráðherra, hafi misst stöðu sína en enginn almennur hermaður hafi verið látinn bera ábyrgð á atburðum tengdum uppreisninni.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína á því að hún óttist ofsóknir í heimaríki sem megi rekja til verkfalls sem eiginmaður hennar hafi tekið þátt í í tengslum við störf hans fyrir öryggissveitir og forseta landsins. Líkt og að ofan greinir hafi eiginmaður hennar verið drepinn vegna þátttöku hans í umræddu verkfalli. Kærandi hafi náð atburðarrásinni á myndbandsupptöku í símanum sínum og sent hana til fjölmiðla til birtingar. Vegna þessa hafi kærandi mátt sæta áreiti af hálfu stjórnvalda og lögreglu í heimaríki en hún hafi m.a. verið hneppt í varðhald þar sem hún hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi og pynduð. Verði henni gert að snúa aftur eigi hún á hættu að vera sett í fangelsi eða tekin af lífi.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins, upplýsingum um heimaríki kæranda og viðtali hennar hjá kærunefnd útlendingamála.
Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 14. janúar 2021. Var framburður kæranda í meginatriðum í samræmi við fyrri frásögn hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að frásögn kæranda hafi verið ótrúverðug með öllu. Kærandi hafi m.a. annars lagt fram gögn sem séu í ósamræmi við frásögn hennar, þ.e. myndir sem hún hafi sagt vera af húsi hennar í heimaríki eftir að kveikt hafi verið í því og afrit af dómkvaðningu útgefinni af yfirvöldum í heimaríki. Þegar leitað var af myndunum af húsi hennar með Google Image Search og reverse image search verið beitt hafi leitin leitt í ljós að umræddar myndir hafi áður birst á vefnum og alls ótengdar kæranda og hennar húsi. Þá hafi í umræddri dómkvaðningu verið vísað til lagaákvæðis sem kveði á um 5 – 15 ára fangelsisrefsingu við því að lítilsvirða fyrirmæli yfirvalda. Við athugun stofnunarinnar á þarlendum refsilögum hafi hins vegar komið í ljós að umrætt ákvæði kveði annars vegar á um þriggja mánaða til tveggja ára fangelsisrefsingu vegna ósæmilegs athæfis einstaklings á opinberum vettvangi og hins vegar um sex mánaða til tveggja ára fangelsisrefsingu vegna kynferðislegs athæfis milli tveggja einstaklinga af sama kyni á opinberum vettvangi. Þá komi nafn kæranda hvergi fram í dómkvaðningunni. Kærandi hafi að auki ekki getað lagt fram gögn um störf eiginmanns hennar fyrir öryggissveitir í heimaríki þrátt fyrir að hafa starfað þar frá árinu 2007. Þá hafi kærandi heldur ekki lagt fram myndir eða myndbandsupptöku af þeim átökum sem hún kvað eiginmann sinn hafa látið lífið í og hafi frásögn hennar hvað þetta atriði varðar tekið breytingum við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun.
Líkt og að framan greinir hefur kærandi borið fyrir sig ofsóknir á grundvelli þess að eiginmaður hennar hafi verið myrtur og þegar hún hafi reynt að leita aðstoðar lögreglu vegna morðsins hafi hún orðið fyrir ofbeldi og hótunum af hálfu yfirvalda. Kærandi lagði fram mynd af manni í herklæðum sem hún kvað vera eiginmann sinn en engar myndir eða önnur gögn hafa verið lögð fram til staðfestingar á því að umræddur einstaklingur sé eiginmaður kæranda. Í kjölfar viðtals hennar hjá kærunefnd var kærandi beðin um að leggja fram myndir af henni og eiginmanni hennar saman. Í svari talsmanns var greint frá því að kærandi hafi ekki og muni ekki geta útvegað myndir af þeim saman. Telur kærunefnd það ótrúverðugt að kærandi, sem að eigin sögn er í samskiptum við mág sinn í heimaríki og vinkonu sína, hafi ekki getað lagt fram neinar myndir af henni og eiginmanni hennar saman og sé því til þess fallið að draga úr trúverðugleika frásagnar kæranda.
Þá er það að mati kærunefndar ótrúverðugt að einstaklingur sem hafi starfað óslitið í um 11 ár fyrir forseta landsins og þar af um átta ár fyrir núverandi forseta landsins hafi orðið fyrir sérstöku áreiti af hálfu yfirvalda í heimaríki vegna þátttöku hans í friðsömum verkfallsaðgerðum heillar herdeildar. Í framangreindum skýrslum kemur fram að nokkur stöðugleiki hafi náðst í landinu undanfarin ár undir stjórn nýs forseta landsins. Gögnin bera ekki með sér að aðgerðir sambærilegar þeim sem kærandi hefur greint frá í frásögn sinni séu algengar í heimaríki hennar í dag. Aðspurð í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála um hvort aðrir aðilar úr hersveit eiginmanns kæranda sem hafi tekið þátt í verkfallinu hafi orðið fyrir sambærilegu áreiti kvaðst kærandi ekki hafa upplýsingar um slíkt þar sem hún hafi ekki kynnt sér það. Þá er ekkert í frásögn kæranda sem gæti útskýrt það hvers vegna eiginmaður hennar hafi orðið fyrir því áreiti sem hún greindi frá.
Að mati kærunefndar er frásögn kæranda um það að eiginmaður hennar hafi orðið fyrir árás á á heimili þeirra ótrúverðug. Í því sambandi lítur kærunefnd m.a. til þess að kærandi hefur greint frá því að á meðan á árás gegn eiginmanni hennar stóð yfir hafi kærandi tekið nær alla atburðarrásina upp á myndbandsupptöku með símanum sínum. Að mati kærunefndar telst það ótrúverðugt að kærandi hafi verið heimilt, af hópi einstaklinga sem ráðist hafi inn á heimili hennar og beitt eiginmann hennar slíku ofbeldi að hann hafi látist, að taka atburðarrásina upp með myndbandsupptöku óáreitt í fjórar til sex mínútur og í kjölfarið verið leyft að halda símanum sínum. Að auki hefur kærandi hvorki lagt fram umrædda myndbandsupptöku eða myndir af atvikinu sem hún kvaðst m.a. hafa sent lögmanni sínum og fengið birtar í dagblaði í heimaríki. Enn fremur hefur kærandi ekki lagt fram afrit umræddrar blaðagreinar sem hún kvað hafa birst í dagblaðinu Le Temps og þá hefur rannsókn kærunefndar ekki leitt í ljós tilvist umræddrar blaðagreinar. Skýringar kæranda hvað það varðar eru að mati kærunefndar ótrúverðugar. Kærandi var hvött til þess hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að leggja umrædd gögn fram en hefur ekki gert það. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd að aðrir aðilar hafi einnig tekið myndir af eiginmanni hennar að árásinni lokinni, þ. á m. nágrannar og mágur hennar. Má því ætla að myndir af vettvanginum sem rennt gætu stoðum undir frásögn kæranda hafi verið á margra hendi. Einnig greindi kærandi frá því að hún væri í samskiptum við lögmann sinn á samskiptamiðlum, þó engin gögn hafi verið lögð fram til að sýna fram á samskiptin, en líkt og að ofan greinir kvaðst hún hafa sent honum gögnin. Með hliðsjón af framangreindu er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að afla og leggja umrædd gögn fram til stuðnings frásögn hennar.
Í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála greindi kærandi frá því að maðurinn sem hafi fylgt henni hingað til lands hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi hér á landi á meðan hann hafi dvalið hér, eða í viku eftir komu þeirra. Greindi kærandi frá því að hún hafi sagt sálfræðingi frá þessu. Í kjölfar viðtalsins var kærandi beðin um að leggja fram gögn til þess að sýna fram á að hún hafi greint sálfræðingi frá því kynferðislega ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir. Í svari talsmanns kæranda með tölvubréfi, dags. 21. janúar 2021, kom fram að umrædd frásögn kæranda hafi ekki verið skráð með beinum hætti í bækur lækna eða sálfræðinga. Voru því engin gögn lögð fram hvað þetta atriði varðar. Vísaði talsmaður til þess að framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd hafi verið ákaflega trúverðugur. Í viðtalinu greindi kærandi einnig frá því að hún hafi notið aðstoðar félagsþjónustu hér á landi frá því að maðurinn sem hafi fylgt henni hingað til lands hafi snúið aftur og þar til hún hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Samkvæmt frásögn kæranda og gögnum málsins hafi umrætt tímabil varað í rúmlega mánuð. Í kjölfar viðtalsins var kærandi beðin um að leggja fram staðfestingu á því að hún hafi hlotið fyrrnefnda aðstoð. Í framangreindu svari talsmanns kæranda greindi hann frá því að kærandi kveðist ekki hafa fengið slíka aðstoð og að mögulega hafi verið um misskilning í viðtalinu að ræða.
Þá vísar kærunefnd til þess sem kom fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi lagt fram myndir af tveimur mismunandi húsum sem eldur hafi komið upp í og kærandi kvað vera sitt eigið hús. Aðspurð í viðtali hjá kærunefnd um að umræddar myndir hafi í raun ekki verið af hennar eigin húsi kvað kærandi húsin vera lík og illa farin af völdum elds og þess vegna hafi hún ekki séð muninn. Kærunefnd telur útskýringu kæranda á þessu atriði ótrúverðuga og að framlagning umræddra gagna sé til þess fallin að draga úr trúverðugleika á frásögn hennar. Að mati kærunefndar dregur ofangreint ósamræmi í frásögn kæranda og skortur á gögnum til stuðnings fullyrðingum hennar úr trúverðugleika á frásögn hennar. Verður því frásögn kæranda um ástæður flótta hennar frá heimaríki ekki lögð til grundvallar niðurstöðu.
Vegna athugasemda í greinargerð kæranda til kærunefndar um þá hættu sem kæranda stafi af vegna ofsókna á grundvelli kyns í heimaríki þá tekur kærunefnd fram að kærandi hefur hvorki í frásögn sinni eða með framlagningu gagna, greint frá eða lagt grunn að því að hún hafi upplifað áreiti í heimaríki á grundvelli kyns. Kærandi hafi sótt sér menntun í heimaríki og stundað sjálfstæðan rekstur án vandkvæða þar til hún hafi yfirgefið heimaríki vegna ástæðna sem hafi ekki verið að rekja til kyns hennar.
Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður kæranda samkvæmt framangreindu ekki til þess að hún eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda á grundvelli stjórnmálaskoðana og/eða aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi ber fyrir sig bágbornar aðstæður í heimaríki en stjórnvöld þar í landi hafi m.a. gerst sek um mannréttindabrot á síðustu árum auk þess sem spilling þrífist innan stjórnkerfisins. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrota í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til trúverðugleikamats kærunefndar og umfjöllunar um aðstæður í heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þá vísar kærandi til félagslegrar stöðu sinnar í heimaríki en hún sé einstæð móðir og að foreldrar hennar séu bæði látin. Í frásögn sinni greindi kærandi frá því að hún hafi sótt sér menntun að eigin vali í heimaríki. Jafnframt hafi hún staðið í sjálfstæðum rekstri samhliða námi og að hún hafi séð fyrir fjölskyldunni á meðan eiginmaður hennar hafi verið í leyfi frá störfum í marga mánuði. Af frásögn kæranda og skýrslum um aðstæður í heimaríki verður ekki ráðið að hún hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki svo skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í greinargerð sinni greindi kærandi frá því að andlegu heilsufari hennar sé ábótavant og vísar hún til skýrslu sálfræðings þar sem komi fram að hún sýni merki alvarlegrar áfallastreituröskunar. Af gögnum verður ekki séð að kærandi þarfnist meðferðar sem sé talin svo sérhæfð að hún geti einungis hlotið hana hérlendis né að hún sé í meðferð hér á landi sem að ekki megi rjúfa. Þá benda heimildir um heimaríki kæranda til þess að kærandi muni hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimaríki.
Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir við hina kærðu ákvörðun
Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Lúta athugasemdirnar fyrst og fremst að trúverðugleikamati stofnunarinnar á frásögn kæranda. Tekur kærunefnd fram að nefndin bauð kæranda að koma til viðtals hjá kærunefnd og gera grein fyrir máli sínu sem kærandi þáði. Hefur kærunefnd því lagt sjálfstætt mat á trúverðugleika frásagnar kæranda í máli hennar og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Fær kærunefnd því ekki séð að trúverðugleikamati stofnunarinnar hafi verið ábótavant.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 23. nóvember 2019 og sótti um alþjóðlega vernd 6. janúar 2020. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kærenda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir