Undirritun loftferðasamnings
Mánudaginn 9. ágúst 2004 var undirritaður í Reykjavík loftferðasamningur milli Íslands og kínverska sjálfstjórnarsvæðisins Hong Kong.
Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, ásamt Stephen Ip, ráðherra efnahags- og atvinnumála í Hong Kong.
Loftferðasamningur við Hong Kong er mjög eftirsóknarverður þar sem sjálfstjórnarsvæðið er næstmikilvægasta miðstöð loftflutninga í Asíu. Nýr flugvöllur, Chek Lap Kok, var tekinn í notkun þar árið 1998 og hefur nú 4 ár í röð hlotið viðurkenningu sem besti flugvöllur heims. Nálægt 3/4 hlutar af allri frakt sem fer um flugvöllinn falla til í nærliggjandi héruðum meginlands Kína þar sem framleiddur er u.þ.b. þriðjungur alls útflutnings Kína.
Hinn nýi loftferðasamningur heimilar flugfélögum beggja aðila m.a. að stunda reglubundið áætlunarflug með farþega, farangur, frakt og póst milli landanna, en heimilar einnig viðkomu og að flogið sé áfram til ótilgreindra áfangastaða, þótt í takmörkuðu mæli sé. Loftferðasamningurinn skapar því grundvöll fyrir áætlunarflug með ferðafólk milli landanna, auk þess sem hann heimilar fraktflutninga, en hvergi er eins mikill vöxtur í fraktflutningum og í Asíu.
Undirbúningur að samningsgerðinni við Hong Kong hófst seint á árinu 2002 þegar sendinefnd undir forystu Sverris Hauks Gunnlaugssonar þáv. ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis, fór til nokkurra Asíulanda þeirra erinda að sækja um aukin flugréttindi. Samningsgerðinni við Hong Kong lauk síðan í október sl. er Ólafur Egilsson sendiherra átti ásamt samninganefnd viðræður þar eystra og áritaði samningstextann af Íslands hálfu. Auk embættismanna utanríkisþjónustunnar hafa tekið þátt í viðræðunum fulltrúar samgönguráðuneytisins og Flugmálastjórnar, jafnframt því sem samráð hafa verið höfð við íslensku flugfélögin.
Undirritun samningsins við Hong Kong er liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að greiða götu íslenskra flugfélaga víðsvegar um heim en útrás þeirra er mikilvægur vaxtarbroddur efnahags- og viðskiptalífs.
Loftferðasamningur við alþýðulýðveldið Kína var undirritaður í apríl sl. og samningur við kínverska sérstjórnarsvæðið Makaó í júlí sl.