Hoppa yfir valmynd
21. mars 2013 Utanríkisráðuneytið

Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016

Þróunarsamvinnuáætlun 2013-2016
Í morgun var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016, en Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mælti fyrir tillögunni hinn 26. febrúar sl. Áætlunin er lögð fram í samræmi við lög 121/2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands þar sem segir að annað hvert ár skuli utanríkisráðherra leggja fram þingsályktun um áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu til fjögurra ára í senn, og að samtímis gefi hann Alþingi skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar. Þetta er í annað sinn sem utanríkisráðherra leggur fram slíka áætlun, en það var í fyrsta sinn gert í febrúar 2011 þegar lögð var fram tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014. Þeirri áætlun hefur nú verið framfylgt sl. tvö ár og hefur gengið vel að hrinda henni í framkvæmd.

Þróunarsamvinnuáætlun, eins og hún er nefnd í daglegu tali, skapar  heildræna umgjörð um alþjóðlega þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda. Hún felur í sér skýra forgangsröðun þar sem settar eru fram forsendur og markmið, og hvernig unnið skuli að þeim, hvort sem um er að ræða tvíhliða þróunarsamvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, stuðning við fjölþjóðlegar stofnanir og verkefni á þeirra vegum, verkefni á vegum félagasamtaka eða starf í þágu friðar undir merkjum Íslensku friðargæslunnar. Í áætluninni er enn fremur að finna yfirlit yfir framlög til þróunarsamvinnu, en gert er ráð fyrir verulegri hækkun á framlögum til þróunarsamvinnu 2013–2016 í samræmi við það markmið íslenskra stjórnvalda um að veita sem nemur 0,7 % af VÞT til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu árið 2019.

Eins og fram kemur í athugasemdum við þingsályktunartillöguna er áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 í meginatriðum eins og fyrri áætlun fyrir árin 2011–2014. "Áhersluatriði eru þau sömu, þ.m.t. áherslusvið, málaflokkar, þverlæg málefni, neyðar- og mannúðaraðstoð, lönd og landsvæði, stofnanir og alþjóðlegt samstarf og viðmið. Eðli málsins samkvæmt hafa aðgerðir þó verið uppfærðar auk þess sem skerpt hefur verið á orðalagi á stöku stað og nauðsynlegar breytingar gerðar í takt við breytingar á alþjóðavettvangi.  Eitt nýtt viðfangsefni er í áætluninni, það er að gerð verði greining á samsetningu samstarfslanda Íslands. Breytilegar aðstæður kalla á reglubundið mat á því hvar íslensk aðstoð kemur að sem mestum notum, þannig að sem best samsvörun sé milli þarfa í samstarfslöndum og styrkleika og stefnumörkunar Íslands. Þessi greining kann að leiða til tillagna um breytingar við næstu endurskoðun þróunarsamvinnuáætlunar." 

Áherslulönd í þróunarsamvinnu Íslands eru fimm: Malaví, Mósambík, Úganda, Palestína og Afganistan, og lögð er áhersla á stuðning við fjórar lykilstofnanir í fjölþjóðlegu samstarfi; UNICEF, UN Women, Alþjóðabankann og Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Málefnasviðin sem lögð er áhersla á eru heilbrigði, menntun, fiski- og orkumál, auk starfs í þágu friðar. Jafnréttis- og umhverfismál eru þverlæg málefni og neyðar- og mannúðaraðstoð skipar lykilhlutverk.

Þingsályktunartillöguna og feril málsins má finna á vef Alþingis 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta