Þjónustusamningur um verndaða vinnu og starfsþjálfun
Félagsmálaráðuneytið og SÍBS gengu í gær frá fimm ára þjónustusamningi um verndaða vinnu og starfsþjálfun á Múlalundi.
Meginmarkmið samningsins er að veita fötluðum tímabundin störf sem miða að því að auka möguleika þeirra til að starfa á almennum vinnumarkaði og hins vegar að veita fötluðum starfsþjálfun og endurhæfingu til lengri tíma.
Undirskrift þessa samnings er liður í því að treysta rekstur Múlalundar til næstu framtíðar. Það er mat félagsmálaráðuneytisins að Múlalundur gegni mikilvægu hlutverki í þjónustu við fatlaða sem þurfa á endurhæfingu og starfsþjálfun að halda. Félagsmálaráðuneytið vill einnig stuðla að því að starfsemin haldi áfram að þróast og verði hluti af heildstæðri þjónustu við þá sem á þurfa á henni að halda á höfuðborgarsvæðinu.