Nýtt sambýli í Reykjavík
Í gær þann 31. október opnaði Páll Pétursson félagsmálaráðherra við hátíðlega athöfn nýtt sambýli fyrir fatlaða að Hólmasundi 2 í Reykjavík.
Sambýlið er byggt af Hússjóði Öryrkjabandalagsins samkvæmt sérstöku samkomulagi við félagsmálaráðuneytið. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík leigir húsnæðið af Öryrkjabandalaginu.
Í sambýlinu eru sex íbúðir með eldhúsi, snyrtingu og stofu auk þess er sameiginlegt rými þar sem er eldhús, borðstofa, setustofa, þvottahús og geymsla og aðstaða fyrir starfsfólk. Heildarstærð hússins er 418 fermetrar.