Undirritun þjónustusamnings
Félagsmálaráðuneytið, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík og Styrktarfélag vangefinna gengu í dag frá þjónustusamningi um rekstur þjónustu við fatlaða á höfuðborgarsvæðinu.
Styrktarfélag vangefinna tekur að sér að veita fötluðum á höfuðborgarsvæðinu þjónustu í búsetu, dagþjónustu og í verndaðri vinnu.
Markmið samningsins er að veita fólki sem er fatlað þjónustu þannig að því sé gert kleift að lifa eins eðlilegu og sjálfstæðu lífi eins og hægt er. Í þessu felst m.a. að þeir sem njóta þjónustu Styrktarfélagsins við búsetu eigi kost á að búa þannig að sem best henti hverjum og einum miðað við óskir, aðstæður og þörf fyrir þjónustu. Einnig að starfsgeta þeirra sem dvelja eða vinna á þjónustustofnunum félagsins skuli efld eins og unnt er svo þeir geti starfað á almennum vinnumarkaði eða vernduðum vinnustöðum.
Samkvæmt samningnum mun Styrktarfélagið taka að sér að veita 112 einstaklingum dagþjónustu og 27 verndaða vinnu. Styrktarfélagið mun veita 46 íbúum í sambýlum þjónustu og 22 í sjálfstæðri búsetu.
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík annast eftirlit með framkvæmd samningsins og samskipti við Styrktarfélagið fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins.
Félagsmálaráðuneytið fagnar undirskrift þessa samnings og óskar Svæðisskrifstofu Reykjavíkur og Styrktarfélagi vangefinna allra heilla í samstarfi um framkvæmd samningsins.