Þjóðarleikvangur fyrir frjálsar íþróttir: Starfshópur tekur til starfa
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það gleður mig einstaklega mikið að setja þennan hóp af stað. Það eru svo margar íþróttagreinar í boði á Íslandi og við verðum að tryggja aðstöðu og aðgang að fjölbreytileika. Núna er rétti tíminn til að ráðast í verkefni af þessum toga, ekki síst í ljósi stefnu stjórnvalda að halda uppi eftirspurn í hagkerfinu. Framkvæmdir eins og þessar eru besta leiðin. Við viljum og verðum að halda Íslandi virku!“
Freyr Ólafsson, formaður hópsins og formaður Frjálsíþróttasambands Íslands:
„Frjálsíþróttahreyfingin er mjög sátt við þau skref sem stigin eru af ráðherra með skipan starfshópsins. Það hefur verið gott samtal á milli okkar í langan tíma og nú er verið að formfesta hlutina með starfshópnum. Reykjavíkurborg og borgarstjóri hafa einnig stutt þau markmið að nýtt frjálsíþróttasvæði rísi í Laugardal. Með góðu samhentu átaki getum við náð fram ekki eingöngu æfinga- og keppnisvelli á alþjóðavísu, heldur einnig fylgt eftir markmiðum um aukna lýðheilsu og heilbrigði almennings, þá sérlega barna- og unglinga. Frjálsíþróttasamband Íslands mun ekki láta sitt eftir liggja að fylgja eftir upplýsingum og viðmiðunum til að auðvelda starfshópnum störf sín, við erum öll tilbúin í rásblokkirnar í þessum efnum!“
Starfshópurinn mun ljúka störfum eigi síðar en 1. maí nk. en hann skipa auk Freys Ólafssonar:
Kristjana Ósk Birgisdóttir og Ómar Einarsson, tilnefnd af Reykjavíkurborg,
Þórey Edda Elísdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands,
Marta Guðrún Skúladóttir og Örvar Ólafsson, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti.