Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um Náttúrufræðistofnun
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um nýja Náttúrufræðistofnun. Frumvarpið felur í sér að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fái heitið Náttúrufræðistofnun.
Frumvarpið er liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að ásamt undirstofnunum frá miðju ári 2022. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að í stað átta af stofnunum ráðuneytisins verði til þrjár öflugri og stærri stofnanir.
Samkvæmt frumvarpi um Náttúrufræðistofnun er gert ráð fyrir að ný stofnun fari með þau hlutverk og verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafa í dag. Er frumvarpinu ætlað að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands. Eins er því ætlað að tryggja markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum. Einnig er lögð áhersla á öflugar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir sem verði m.a. unnar á grundvelli samráðs milli stofnana.
„Þetta er fyrsta frumvarpið af fjórum þar sem lögð er til sameining stofnana. Nýjar stofnanir verða stærri, kröftugri og hagkvæmari einingar með áherslu á að fara vel með almannafé í rekstri, bæta þjónustu við almenning og að fjölga störfum á landsbyggðinni. Stofnunin mun hafa skýra og greinargóða yfirsýn yfir náttúru Íslands á hverjum tíma, búa yfir áreiðanlegum gögnum og vera öflug í miðlun upplýsinga og fræðslu. Hún þarf að geta með öflugri hætti stuðlað að bættu öryggi íbúa og innviða,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er hann mælti fyrir frumvarpinu.
Að baki frumvarpinu liggur frumathugun sem gerð var í samvinnu við forstöðumenn og aðra starfsmenn stofnananna. Hugmyndir um sameiningu Náttúrufræðistofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn eiga sér þó lengri aðdraganda, en árið 2015 lagði stýrihópur á vegum ráðuneytisins til sameiningu stofnananna en af því varð ekki á þeim tíma.
Vettvangur fyrir kraftmeira fagstarf
Auk frumvarps sem ráðherra mælti fyrir í gær er unnið að lagafrumvörpum vegna Náttúruverndar- og minjastofnunar (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun Íslands) og Umhverfis- og orkustofnunar (Orkustofnun og Umhverfisstofnun (umhverfis- og loftslagsmál)).
Í vinnu við stofnanabreytingar hefur verið lögð áhersla á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf með það að markmiði að til verði stærri stofnanir sem efla þekkingar- og lærdómssamfélag. Einnig er lögð áhersla á samnýtingu á þekkingu, innviðum og gögnum og að vinnustaðirnir verði faglega spennandi og áhugaverðir.
Starfsmenn hinnar nýju stofnunar munu verða um 80 talsins með starfsstöðvar í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Djúpavogi og við Mývatn. Sérstök áhersla er lögð á að staðið verði vörð um mikilvæga þekkingu og sérhæfingu starfsmanna stofnananna og að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun. Einnig er rík áhersla á að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið.