Hoppa yfir valmynd
9. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 87/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 87/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100086

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. október 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kenía (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. ágúst 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. ágúst 2018, 27. september 2018 og 20. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. nóvember 2019. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. febrúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Viðbótargögn og viðbótarathugasemdir bárust kærunefnd hinn 27. nóvember 2019, 30. janúar 2020, 6. febrúar 2020 og 18. febrúar 2020. Kærunefnd barst viðbótargreinargerð kæranda þann 11. febrúar 2020.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann álíti sig sómalískan þar sem móðir hans hafi verið af […] ættbálkinum í Sómalíu. Þá hafi hann sjálfur fæðst í Sómalíu, n.t.t. í Belet Hawa. Hann hafi hins vegar tvöfalt ríkisfang þar sem faðir hans, sem sé af hinum sómalíska Ogaden ættbálki, sé með kenískt ríkisfang og þannig hafi kærandi fengið kenískt vegabréf og nýtt sér það til að komast til Evrópu. Í Mandera í Kenía, þar sem kærandi kveðst hafa alist upp, hafi hann þó upplifað sig í minnihluta og fundið fyrir mikilli mismunun vegna hins sómalíska uppruna síns. Kærandi hafi unnið fyrir hjálparsamtökin Save the Children í Kenía og barist þar gegn því að aðrir ungir karlmenn myndu ganga í hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab. Þá hafi hann einnig reynt að hafa áhrif á vini sína og kunningja. Þannig hafi hann lent upp á kant við hryðjuverkasamtökin og fengið ítrekaðar hótanir frá þeim. Eftir dráp samtakanna á […], frænda […], hafi hann misst alla trú á kenískum stjórnvöldum og talið fullvíst að þau myndu ekki vernda hann gegn ofsóknum samtakanna. Kærandi hafi þá haldið áfram málflutningi sínum um það ófremdarástand sem ríki í Mandera eftir flótta sinn. Á þeim tíma sem kærandi hafi dvalið í Svíþjóð hafi hann ákveðið að sættast við hina raunverulegu kynhneigð sína og hafi hann sótt skemmtistaði samkynhneigðra þar í landi. Hins vegar hafi hann ekki getað lifað opinberlega sem samkynhneigður maður í Svíþjóð vegna frænku sinnar, sem hafi m.a. þekkt lögfræðing hans, og því hafi hann áfram þóst vera gagnkynhneigður. Á Íslandi hafi kærandi m.a. leitað til samtakanna ´78. Þá sé kærandi jafnframt trúlaus.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Sómalíu, m.a. um útskúfun minnihlutaættbálka, þ. á m. ættbálk móður kæranda, […]. Þá séu samfarir sem og aðrar lostafullar athafnir fólks af sama kyni ólöglegar og refsiverðar en mælt sé fyrir um allt að þriggja ára fangelsisvist í landslögum ríkisins. Í þeim hlutum landsins þar sem Al-Shabaab hafi yfirráð sé refsing vegna samkynhneigðar dauði. Gríðarlegir fordómar séu í garð samkynhneigðra í Sómalíu og því komi samkynhneigðir hvorki út úr skápnum né taki þátt í nokkurs konar réttindabaráttu. Í greinargerð kæranda er jafnframt fjallað um aðstæður í Kenía, m.a. um mannshvörf, morð, pyntingar og önnur alvarleg mannréttindabrot, refsileysi vegna ofbeldis og nauðgana í garð kvenna og spillingu á öllum stigum stjórnkerfis Kenía. Þá sé viðvarandi hryðjuverkaógn í landinu vegna samtakanna Al-Shabaab. Staða samkynhneigðra í Kenía sé bág en kynmök fólks af sama kyni sé ólögleg og geti varðað allt að 21 ára fangelsisvist. Ofbeldi gagnvart samkynhneigðum sé almennt útbreitt í Kenía og lögregluyfirvöld beiti samkynhneigða iðulega ofbeldi, hótunum og þvinguðum endaþarmsskoðunum til að sanna kynhneigð viðkomandi. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé með tvöfalt ríkisfang og sé hann að sækja um alþjóðlega vernd á sama grunni vegna aðstæðna sinna bæði í Sómalíu og Kenía. Kærandi teljist til ofsóttra minnihlutahópa í báðum löndum vegna ættbálks móður hans í Sómalíu og vegna sómalísks uppruna hans í Kenía. Kærandi telji ofsóknir á hendur samkynhneigðum í Sómalíu og Kenía einar og sér ná því alvarleikastigi að veita ætti kæranda alþjóðlega vernd hér á landi. Einnig nái þær ofsóknir sem kærandi yrði fyrir af hálfu Al-Shabaab yrði honum gert að snúa aftur heim, sökum stöðu hans innan þeirra minnihlutahópa sem hann tilheyri og vegna trúleysis hans, því alvarleikastigi að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að veita kæranda alþjóðlega vernd hér á landi. Þá sé ljóst að þegar framangreint sé tekið saman þá nái það því alvarleikastigi sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfylli skilyrði a-, b-, c- og d-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi og vegna samsafns athafna. Þá standi yfirvöld í Sómalíu og Kenía að baki ofsóknunum, auk þess sem stjórnvöld hafi ekki vilja eða getu til að vernda hann fyrir ofsóknum annarra aðila, sbr. a-, b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sætt hótunum af hálfu Al-Shabaab og hafi vegna morðsins á […] ríkar ástæður til að óttast hefnd samtakanna. Samkynhneigð sé jafnframt refsiverð í bæði Sómalíu og Kenía og megi samkynhneigðir karlmenn óttast dauða, refsingu, ofbeldi, mismunum og útskúfun sökum kynhneigðar sinnar. Þá sé sómalíska minnihlutanum í Kenía mismunað og sé jafnframt skotmark kenískra lögreglumanna. Kærandi falli jafnframt undir sérstakan kynþátt í skilningi a-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna þeirra ættbálka sem hann tilheyri.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum stjórnvalda og ýmissa hryðjuverkasamtaka þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim. Öryggisástand á heimasvæði kæranda sé mjög ótryggt og beinist aðgerðir stjórnvalda í Kenía gegn hryðjuverkum oft gegn sómalíska minnihlutanum í landinu. Yfirvöld brjóti gegn mannréttindum borgara sinna og veiti þeim jafnframt ekki vernd gegn árásum óopinberra aðila. Þá sé spilling víðtæk innan yfirvalda bæði í Kenía og Sómalíu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann eigi á hættu ofsóknir og muni jafnframt standa frammi fyrir útskúfun vegna kynhneigðar hans og uppruna. Þá geti hann ekki leitað verndar hjá yfirvöldum. Því sé fyrirsjáanlegt að kærandi muni búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að fara til heimaríkis.

Þann 11. febrúar 2020 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda þar sem hann krefst til þrautaþrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um vernd þann 6. ágúst 2018. Frá þeim tíma séu liðnir rúmir 18 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telji að skilyrðin séu uppfyllt í hans tilviki. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, þá einkum hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað hjá stofnuninni.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað sómalísku fæðingarvottorði, dags. 11. júní 2019. Þar sem ekki hafi verið hægt að staðreyna slíkt vottorð óskaði Útlendingastofnun eftir gögnum frá sænskum yfirvöldum. Þarlend yfirvöld hafi fundið skráningu kenísks vegabréfs kæranda í hinu svokallaða VIS kerfi og hafi kærandi staðfest að hann væri kenískur ríkisborgari. Auðkenni kæranda hafi ekki verið sannað þar sem hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og leysti því stofnunin úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Verður ekki annað ráðið af ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að hann sé ríkisborgari Kenía. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé kenískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni hans óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kenía m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • After Garissa: Kenya Revises Its Security Strategy to Counter al-Shabaab‘s Shifting Tactics (Jamestown Foundation, 17. apríl 2015);
  • Amnesty International 2017/2018 – Kenya (Amnesty International, febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Kenya: Background information, including actors of protection and internal relocation (U.K. Home Office, febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Kenya: Sexual orientation and gender identity (U.K. Home Office, mars 2017);
  • Country Reports on Terrorism 2017 – Foreign Terrorist Organizations: al-Shabaab (U.S. Department of State, 19. september 2018);
  • Country Reports on Terrorism 2018 (U.S. Department of State, október 2019);
  • Deaths and Disappearances: Abuses in Counterterrorism Operation in Nairobi and in Northeastern Kenya (Human Rights Watch, 20. júlí 2016);
  • Guidelines on International Protection no. 9 – Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, 23. október 2012);
  • Kenya: Court Finds Forced Anal Exams Unconstitutional (Human Rights Watch, 22. mars 2018);
  • Kenya – Freedom of Thought Report (Humanist International, 13. nóvember 2019);
  • Kenya: Halt Crackdown on Somalis – Thousands Arrested, Almost 100 Deported (Human Rights Watch, 11. apríl 2014);
  • Kenya 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Kenya 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 21. júní 2019);
  • Somalia: Information on the Ogaden clan in Somaliland, including distinguishing features, locations, occupations and position in the clan hierarchy; treatment by the Somaliland authorities and by al-Shabaab (2015-October 2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 23. nóvember 2017);
  • Somali and other nomads (World Directory of Minorities and Indigenous Peoples, desember 2017);
  • Somaliske klaner og grupper på Afrikas Horn (Landinfo, 14. desember 2017);
  • State-Sponsored Homophobia 2019 (ILGA World, desember 2019);
  • Submission to UN Human Rights Commission Review of Kenya (Human Rights Watch, 25. júlí 2019) og
  • World Report 2020 – Kenya: Events of 2019 (Human Rights Watch, janúar 2020).

Kenía er lýðveldi með þrískipt ríkisvald og rúmlega 53 milljónir íbúa. Kenía gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1963 og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1972. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1992 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2003 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1997.

Samkvæmt ofangreindum gögnum er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Kenía, The National Police Service (NPS), og heyrir hún undir innanríkisráðuneyti ríkisins. Í september árið 2018 hafi forseti Kenía tilkynnt um breytt fyrirkomulag innan NPS og samanstandi stofnunin nú af þremur mismunandi undirstofnunum, þ.e. tveimur lögregluembættum og einu saksóknaraembætti. Kenya Police Service sé ábyrgt fyrir almennri löggæslu í landinu og bregðist við stórfelldum atvikum sem ógni öryggi ríkisins en Administration Police Service sé ábyrgt fyrir landamæragæslu, öryggi mikilvægra innviða í landinu og að koma í veg fyrir stuld á búfé. Saksóknaraembættið, Directorate of Criminal Investigation (DCI), sé ábyrgt fyrir öllum sakamálarannsóknum og samanstandi af nokkrum sérhæfðum deildum. Lögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi gerst uppvísir af því að kúga fé af almennum borgurum og að láta sakborninga lausa gegn mútugreiðslum. Þá hefur lögregla og öryggissveitir verið borin sökum um þvinguð mannshvörf, þá einkum í tilvikum þekktra eða grunaðra glæpamanna og hryðjuverkamanna. Þá hefur lögregla einnig verið ásökuð um morð á einstaklingum í fátækrahverfum, þar á meðal í Nairobi. Refsileysi viðgangist meðal lögreglumanna en komið hafi verið á fót embætti sem taki á móti kvörtunum vegna andláts einstaklinga sem rekja megi til aðgerða lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla. Þá hafi sérstök nefnd, The National Police Service Commission, fengið það hlutverk að rannsaka lögreglumenn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misferli og spillingu og hafi a.m.k. 50 lögreglumönnum verið vikið úr starfi. Yfirvöld hafi unnið að umbótum á sviði löggæslu frá árinu 2004 og hafi talsverðar framfarir átt sér stað. Meira fjármagni sé eytt í löggæslu af hálfu ríkisins og bæði lögreglumönnum og lögreglustöðvum hafi fjölgað mjög mikið. Þá hafi stjórnarskrá ríkisins verið breytt árið 2010 sem hafi haft í för með sér ýmsar breytingar innan dómsvaldsins, m.a. aukið sjálfstæði dómstóla, aukna skilvirkni og réttlátari málsmeðferð. Borgaraleg réttindi almennra borgara gagnvart ríkinu séu almennt vernduð af dómstólum og hafi dómstólar komið í veg fyrir framkvæmd ýmissa laga sem gætu takmarkað réttindi borgara ríkisins. Hins vegar séu málaferli almennt kostnaðarsöm, auk þess sem ásakanir um spillingu innan dómsvaldsins hafi komið fram. Þá virði stjórnvöld úrskurði dómstóla oft að vettugi.

Í Kenía er talið að um 83% íbúa séu kristnir og um 11% séu múslimar. Þá séu jafnframt önnur trúarbrögð sem heyri til minnihluta. Trúleysingjar séu jafnframt taldir heyra til minnihluta í ríkinu en þó fari þeim fjölgandi. Stjórnarskrá Kenía, ásamt öðrum lögum í landinu, leggi bann við mismunun á grundvelli trúarbragða. Ráða má af nýlegri dómaframkvæmd í landinu að slík bönn við mismunun eigi jafnframt við um trúleysingja en um hafi verið að ræða mikilvægt skref í réttindabaráttu trúleysingja þegar dómstóll í Nairobi í Kenía hafi snúið við ákvörðun ríkissaksóknara um að banna skráningu félags trúleysingja í landinu, Atheists in Kenya (AIK), í janúar 2018. Dómstóllinn hafi talið bannið brjóta í bága við stjórnarskrá landsins þar sem það hafi falið í sér mismunun gagnvart trúleysingjum. Heimildir bera þá ekki með sér að trúleysingjar í Kenía séu útsettari fyrir ofsóknum en aðrir.

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru Sómalar taldir mynda sjötta stærsta þjóðarbrotið í Kenía en flestir þeirra búi við landamæri Sómalíu í norðausturhluta Kenía. Heimildir bera með sér að Sómalar verði fyrir talsverðri mismunun í Kenía en rekja megi það að einhverju leyti til útbreiðslu ofbeldis frá Sómalíu til Kenía. Fjölmargar árásir hafi verið framdar í Kenía af hálfu sómalísku hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab og í baráttu kenískra yfirvalda gegn hryðjuverkum sé oft ráðist gegn Sómölum án þess að gera greinarmun á öfgahópum og almennum borgurum. Í þessu samhengi hefur einnig verið sýnd aukin viðleitni í að takmarka viðurkenningu á ríkisborgararétti og öðrum réttindum þeirra sem séu af sómalískum uppruna. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 að 42 þjóðarbrot séu í Kenía og ekki neitt þeirra myndi sérstakan meirihluta. Fólk innan ættbálksins Ogaden búi einkum á landamærum Sómalíu og Kenía en einnig í norðausturhluta Kenía. Ofangreind gögn bendi ekki til þess einstaklingum sem tilheyri ættbálkinum Ogaden sé mismunað kerfisbundið eða að þeir séu útsettari fyrir ofsóknum. Einstaklingar innan ættbálksins sem búi í Sómalíu eða á þeim svæðum þar sem hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab séu með yfirráð yfir séu berskjaldaðri fyrir áhrifum hryðjuverkasamtakanna og hafi að hluta til fundist þeir knúnir til þess að ganga til liðs við samtökin. Það eigi hins vegar almennt ekki við um einstaklinga innan Ogaden sem búsettir séu í Kenía eða Eþíópíu.  

Samkvæmt kenískum hegningarlögum eru kynferðislegar athafnir fólks af sama kyni ólöglegar og geta varðað allt að fjórtán ára fangelsisvist. Sérákvæði í lögunum gildi þó um kynferðislegar athafnir karlmanna en kynmök samkynhneigðra karlmanna geti varðað allt að 21 ára fangelsisvist. Þrátt fyrir að nýleg dæmi séu þó um að dómstólar hafi verið framsæknir í úrskurðum sínum varðandi réttindi hinsegin fólks, m.a. transfólks, hafi Hæstiréttur í Kenía staðfest í úrskurði í maí 2019 lögmæti áðurnefndra laga sem banni kynferðislegar athafnir fólks af sama kyni. Ýmis samtök í Kenía standi þó vörð um réttindi hinsegin fólks og bregðist við mannréttindabrotum sem upp komi. Þrátt fyrir að yfirvöld hafi ekki sýnt vilja til þess að heimila samkynja sambönd hafi þau tekið nokkur skref í átt að því að auka réttindi hinsegin fólks. Annars vegar hafi yfirvöld samþykkt tillögu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um að endurskoða hegningarlög í tengslum við réttindi hinsegin fólks í þeim tilgangi að tryggja að þau samrýmist stjórnarskrá ríkisins. Hins vegar hafi yfirvöld fallist á að taka í gildi víðtæk lög um bann við mismunun sem eigi að veita öllum einstaklingum vernd án tillits til kynhneigðar eða kynvitundar. Almennt virði kenísk yfirvöld jafnframt tjáningarfrelsi aðgerðarsinna þó dæmi séu um að stjórnvöld hafi gert tilraunir til þess að bæla niður umræðuna um réttindi hinsegin fólks. Þá hafi nokkrar opinberar stofnanir sem og heilbrigðisráðuneyti Kenía stutt málstað hinsegin fólks og talað fyrir réttindum þeirra. Kúgun, áreiti og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki sé þó útbreitt, m.a. af hálfu lögregluyfirvalda. Lögreglumenn hafi þó hlotið þjálfun frá samtökum og stofnunum, m.a. National AIDS and STI‘s Control Programme (NASCOP), sem sé deild innan heilbrigðisráðuneytisins, og tekið skref í áttina að því að sýna hinsegin fólki meiri virðingu. Þá bera heimildir með sér að framangreind lög sem banni kynferðislegar athafnir fólks af sama kyni hafi nær aldrei verið beitt í framkvæmd gagnvart einstaklingum sem hafi stundað kynlíf með samþykki hlutaðeigandi aðila. Í nær öllum tilvikum sem lögunum hafi verið beitt hafi það verið gagnvart einstaklingum sem hafi verið ákærðir fyrir nauðgun eða níðingsskap gagnvart dýrum. Þrátt fyrir að einstaklingar séu sjaldan ákærðir fyrir að stunda kynlíf með fólki af sama kyni séu ólögmætar handtökur, fjárkúgun, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gagnvart hinsegin fólki af hálfu lögreglunnar algengt. Þá séu dæmi um að lögreglan hafi látið samkynhneigða menn undirgangast þvingaðar endaþarmsskoðanir til þess að sanna kynhneigð þeirra. Áfrýjunardómstóll í Mombasa í Kenía hafi hins vegar í úrskurði þann 22. mars 2018 fellt úr gildi úrskurð lægra setts dómstóls sem hafi staðfest lögmæti slíkra framkvæmda árið 2016. Áfrýjunardómstóllinn hafi dæmt framkvæmdina ólögmæta þar sem hún bryti í bága við stjórnarskrá landsins. Samkvæmt ofangreindum gögnum veiti lögreglan í sumum tilfellum hinsegin fólki vernd gegn ofbeldi af hálfu almennings. Óljós afstaða lögreglu gagnvart hinsegin fólki geri það þó að verkum að hinsegin fólk veigri sér almennt við að leita til lögreglu.

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru sómalísku hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab tengd samtökunum al-Qa‘ida. Talið sé að samtökin séu með um sjö til níu þúsund meðlimi. Hernaðargeta Al-Shabaab hafi farið dvínandi síðan árið 2011 en þó séu mörg strjálbýl landsvæði í Sómalíu enn undir yfirráðum samtakanna. Þá hafi samtökin gert árásir á nágrannalönd Sómalíu. Samtökin hafi m.a. beitt ofbeldi til þess að grafa undan valdi sómalískra stjórnvalda og hafi þau lýst sig ábyrg fyrir mörgum sprengjuárásum og skotárásum bæði í Sómalíu og öðrum nálægum ríkjum. Þá hafi samtökin myrt þúsundir stjórnmálamanna, nemenda, blaðamanna, aðgerðarsinna, almennra borgara o.fl.

Í Kenía eigi flestar árásir sér stað í norðausturhluta landsins við landamæri Sómalíu og sé árásum oft beint að lögreglu- og hermönnum en einnig sé einstaka árásum samtakanna beint að almennum borgurum í Kenía. Stjórnvöld í Kenía vinni náið með bandarískum yfirvöldum og öðrum þjóðum að því að rannsaka og koma í veg fyrir hryðjuverk. Öryggissveitir Kenía séu öflugar og hafi brugðist við fjölmörgum hryðjuverkaárásum, auk þess sem þær hafi raskað áætlunum, nýliðun og flutningum hjá bæði Al-Shabaab og ISIS.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd hefur jafnframt litið til til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður. Þá tilheyri hann jafnframt hinum sómalíska minnihlutahópi í Kenía, auk þess sem hann sé trúlaus. Kærandi óttist ennfremur hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab sem hann kveður hafa myrt frænda sinn. Þá geti kærandi ekki leitað til yfirvalda í Kenía eða Sómalíu þar sem að samkynhneigð sé bönnuð með lögum í bæði Kenía og Sómalíu og hinsegin fólk eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í báðum ríkjum. Auk þess sem þau hafi hvorki getu né vilja til að veita honum vernd gegn þeirri hættu sem honum stafi af Al-Shabaab og almenningi í heimaríki sínu, sbr. a- til c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá sænskum yfirvöldum, viðtali hjá kærunefnd þann 6. febrúar 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi kvaðst í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafa tvöfalt ríkisfang, þ.e. hann sé bæði kenískur og sómalískur ríkisborgari. Kærandi lagði fram gögn þeirri málsástæðu til stuðnings en að mati kærunefndar eru þau gögn afar ótrúverðug og styðja ekki við þann framburð kæranda. Fyrir liggja upplýsingar frá sænskum stjórnvöldum að kærandi sé kenískur ríkisborgari. Verður því lagt til grundvallar að kærandi sé kenískur ríkisborgari og afstaða tekin til málsástæðna kæranda út frá aðstæðum í Kenía.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi átt marga vini sem hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab og að hann hafi reynt að koma í veg fyrir það. Samtökin hafi komist að því og hótað kæranda. Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram fréttaumfjöllun þar sem fram kom að maður að nafni […] hafi verið myrtur af hálfu samtakanna Al-Shabaab. Jafnframt lagði kærandi fram skjal sem hann kveður vera staðfestingu um tengsl sín við […]. Að mati kærunefndar er umrætt skjal einfalt að allri gerð, ótraustvekjandi og ótrúverðugt. Kærunefnd óskaði eftir að kærandi legði fram frekari gögn eða ljósmyndir sem sýndu fram á tengsl kæranda við […] en engin slík gögn voru lögð fram. Verður ekki talið ósanngjarnt að ætlast til þess að kærandi geti lagt fram ljósmyndir eða gögn sem sýni fram á fjölskyldutengsl séu þau tengsl af þeim toga sem skipta máli fyrir umsókn kæranda. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að meðlimir úr Al-Shabaab hefðu nálgast hann í Mandera og hótað honum í persónu sem og í gegnum síma. Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram skjal sem hann kveður vera útgefið af frjálsum félagasamtökum í Belet Hawa í Sómalíu og sýni fram á baráttu sína gegn öfgasinnum. Útlit og framsetning skjalsins er einfalt að allri gerð og er að mati kæruefndar ótrúverðugt og verður því ekki lagt til grundvallar í málinu. Þá var framburður kæranda jafnframt ónákvæmur að mati kærunefndar að því marki að hann teljist ótrúverðugur. Með tilliti til framangreinds og trúverðugleika kæranda verður ekki lagt til grundvallar í málinu að […] sé frændi kæranda eða að kærandi hafi átt í samskiptum við hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu Al-Shabaab.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hélt kærandi því fram að hann hafi fæðst í Belet Hawa í Sómalíu. Kærandi kvað móður sína vera sómalíska en föður sinn kenískan. Töluverðs misræmis gætti í framburði kæranda við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Í viðtali hjá kærunefnd þann 6. febrúar 2020 var kærandi spurður nánar út í fjölskylduaðstæður og flótta. Framburður kæranda var á miklu reiki og tók stöðugum breytingum hvað varðar fjölskyldumeðlimi hans, hvar hann hafi alist upp og dvalið áður en hann hafi farið til Evrópu. Að mati kærunefndar dró framburður kæranda enn frekar úr trúverðugleika hans. Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram skjal sem hann kveður vera sómalískt fæðingarvottorð. Að mati kærunefndar er frásögn kæranda um hvernig hann hafi öðlast vottorðið ótrúverðug. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. júlí 2019 að systir hans hefði útvegað framangreint fæðingarvottorð í júní 2019 á meðan hann hafi verið staddur hér á landi þar sem hún byggi í Mogadishu í Sómalíu. Þegar kæranda var bent á misræmi í framburði hans um búsetu systur hans sem að hans sögn er kenískur ríkisborgari sagði hann að hún færi þangað reglulega til að selja kartöflur. Þá telur kærunefnd frásögn hans um systur sína vera í ósamræmi við fyrri frásögn um fjölskylduhagi sína en hann sagðist hjá Útlendingastofnun aðeins hafa átt eina systur en henni hefði verið rænt af Al-Shabaab og hann vissi ekki hvar hún væri nú niðurkomin. Þá kvaðst kærandi hafa tekið fingrafar sitt sjálfur og sent í pósti til Mogadishu. Í ljósi framburðar kæranda er fæðingarvottorðið ófullnægjandi sönnun auðkennis kæranda að mati kærunefndar. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi jafnframt fram ljósmyndir af sómalísku skilríki og vegabréfi sem hann kveður tilheyra bróður sínum. Taldi kærandi það leggja grunn að staðhæfingu hans um að hann sé frá Sómalíu. Í ljósi þess að kærandi hefur ekki sannað auðkenni sitt þá er það mat kærunefndar að framangreindar ljósmyndir af skírteinunum hafi ekki sönnunargildi í málinu. Þá hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn sem sýni fram á tengsl sín við manninn sem hann kveður vera bróður sinn. Með tilliti til framangreinds og trúverðugleika kæranda er það mat kærunefndar að framangreint fæðingarvottorð og ljósmyndir af sómalískum skírteinum hafi ekki sönnunargildi í málinu. Þá verður í samræmi við gögn um Kenía og framburð kæranda sjálfs ekki talið að uppruni móður hans og möguleg staða ættbálks hennar valdi því að kærandi sé í hættu á ofsóknum, sbr. d-lið 38. gr. laga um útlendinga. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann væri trúlaus en bar ekki sérstaklega fyrir sig að hafa orðið fyrir eða eiga á hættu ofsóknir af þeim sökum. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur skoðað bendir þó ekkert til þess að trúleysingjar verði sérstaklega fyrir ofsóknum í Kenía.

Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi hefur hann haldið því fram að hann hafi flúið heimaríki m.a. vegna þess að hann sé samkynhneigður. Í viðtali hjá sænskum yfirvöldum sem fór fram þann 17. september 2015 bar kærandi því ekki við að vera samkynhneigður heldur kvaðst þvert á móti eiga kærustu. Í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi að hann hafi hafa verið smeykur við að opinbera kynhneigð sína í Svíþjóð þar sem að hann hafi búið hjá frænku sinni og að hún hafi þekkt lögfræðing þann sem hafi aðstoðað hann við málsmeðferðina í Svíþjóð. Í ljósi framangreinds misræmis óskaði kærunefnd eftir því að fá að ræða við menn sem hefðu verið í samskiptum við kæranda hér á landi. Kærandi gaf upp nafn og símanúmer manns sem kærunefnd síðar boðaði til viðtals sem fram fór þann 25. febrúar 2020. Maðurinn lýsti sambandi sínu við kæranda og var það mat kærunefndar að frásögn hans væri trúverðug. Þó svo að einhvers ósamræmis kunni að hafa gætt í framburði kæranda um kynhneigð sína telur kærunefnd að frásögn þess manns sem kærandi kvaðst hafa verið í sambandi við, til viðbótar við frásögn kæranda sjálfs, leggi nægilegan grunn að þeirri fullyrðingu kæranda að hann sé samkynhneigður og að framangreint ósamræmi dugi ekki til að hnekkja gildi framburðar þess manns sem kveðst hafa átt í sambandi við kæranda. Þá hefur kærandi boðið fram útskýringar á því hvers vegna hann bar ekki fyrir sig samkynhneigð við meðferð máls hans í Svíþjóð sem kærunefnd telur ekki unnt, í ljósi sönnunarkrafna við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd, að líta fram hjá. Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að ekki verði hjá því komist að túlka vafa um samkynhneigð kæranda honum í hag og að leggja verði til grundvallar að kærandi sé samkynhneigður, enda liggja ekki fyrir gögn í málinu sem skýrlega benda til annars.

Frásögn kæranda um slæma stöðu samkynhneigðra í Kenía fær vissa stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Kynferðislegar athafnir fólks af sama kyni séu ólöglegar og geta slík brot varðað allt að 21 ára fangelsisvist fyrir samkynhneigða karlmenn samkvæmt kenískum hegningarlögum. Þrátt fyrir að réttindi hinsegin fólks hafi aukist á síðustu árum í Kenía sé kúgun, áreiti og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki útbreitt í landinu, bæði af hálfu almennings og lögregluyfirvalda. Þá kemur fram að lögreglan veiti hinsegin fólki ekki vernd í öllum tilfellum og því geti einstaklingar ekki treyst á vernd yfirvalda óttist þeir illa meðferð eða ofsóknir. Kærunefnd telur að ástæða sé til að ætla að samkynhneigðir einstaklingar í Kenía eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kynhneigðar sinnar sem nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá telur kærunefnd að samkynhneigðir einstaklingar teljist til sérstaks þjóðfélagshóps, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að kærandi hafi, eins og hér stendur sérstaklega á, leitt á rökstuddan hátt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna kynhneigðar sinnar í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi. Kærunefnd hefur ekki upplýsingar sem benda til þess að kærandi falli undir útilokunarástæður b-liðar 2. mgr. 40. gr. laganna. Að mati kærunefndar á kærandi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

                                              Bjarnveig Eiríksdóttir                         Þorbjörg Inga Jónsdóttir 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta