Aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun
Aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun hefur verið kynnt ríkisstjórn í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auka markvisst notkun nýskapandi lausna hjá hinu opinbera og nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.
Í ljósi áskorana á borð við breytta aldurssamsetningu þjóðar, hlýnun jarðar og auknar væntingar til opinberrar þjónustu þurfa opinberir aðilar að hafa þekkingu og tækifæri til að stunda og kaupa nýsköpun. Þær aðgerðir sem boðaðar eru eiga að gera opinbera aðila betur í stakk búna til þess og hafa verið unnar í samvinnu fjármála- og efnahagsráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
Markmið aðgerðaáætlunarinnar er að opinberar stofnanir nýti nýsköpun til þess að mæta áskorunum nútíðar og búa sig undir framtíðina með betri og skilvirkari þjónustu sem er í takti við þarfir notenda. Aðgerðirnar, sem eru tólf talsins, miða að því að því að bæta þekkingu á möguleikum nýsköpunar, auka samvinnu innan hins opinbera og við einkamarkað, og auka notkun opinna gagna hins opinbera.
„Það eru mikil tækifæri sem felast í því að auka vægi nýsköpunar hjá hinu opinbera. Við þurfum að leggja okkar að mörkum til þess að frumkvöðlar fái tækifæri til að kynna og þróa áfram sínar lausnir í samvinnu við opinberar stofnanir. Þetta er mikilvægt skref fyrir Nýsköpunarlandið Ísland,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.
„Þessi aðgerðaáætlun talar beint inn í áform okkar um nýja nálgun á þjónustu við almenning og fyrirtæki, þar sem markmiðið er betri, aðgengilegri og hagkvæmari þjónusta. Við þurfum að tileinka okkur nýsköpun á öllum sviðum og ég bind miklar vonir við að þessi áætlun færi okkur verkfæri til þess,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Nánar um aðgerðirnar má lesa á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um opinbera nýsköpun á island.is.
Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er einnig unnið að stefnumótun um opinber innkaup þar sem meðal annars er áhersla á nýskapandi lausnir í innkaupum. Í þessu samhengi er vert að benda á leiðbeiningar um rannsóknarsamninga og samninga um þróun á þjónustu en slíkir samningar geta talist undanþegnir útboðsskyldu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og geta leitt til nýsköpunar og betra þjónustuframboði á markaði. Ríkiskaup hefur nýlega gefið út leiðbeiningar sem eiga að auðvelda opinberum aðilum að nýta sér tækifæri til að kalla fram nýjar lausnir með opinberum innkaupum, t.d. með kaupum og þróun á frumgerðum sem nýtast svo í innkaupaferlum og tækniforskriftum. Mikilvægt er að opinberir aðilar nýti heimildir laga um opinber innkaup til nýsköpunar þegar innkaup fara fram.