Drög að breytingum á lögræðislögum til umsagnar
Drög að frumvarpi til breytinga á lögræðislögum, nr. 71/1997 með síðari breytingum, eru nú til kynningar hjá innanríkisráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 10. mars næstkomandi.
Forsaga frumvarpsdraganna er margþætt. Megin tilgangur frumvarpsins eru úrbætur á lögræðislögum með hliðsjón af mannréttindaskuldbindingum íslenskra stjórnvalda. Framlagning frumvarpsins er liður í undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og felur í sér breytingar vegna 12. gr. samningsins. Þá er í frumvarpinu brugðist við ábendingum og tillögum nefndar Evrópuráðsins gegn pyndingum vegna heimsóknar hennar til Íslands árið 2012.
Enn fremur byggist frumvarpið á hluta þeirra tillagna sem komu fram í umræðuskjali óformlegs samráðshóps á vegum innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistanir en samráð hópsins stóð yfir á árunum 2012-2014 í framhaldi af opnum fundi ráðuneytisins um mannréttindi geðsjúkra.
Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
- Breytingar á ákvæðum laganna til undirbúnings fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Breytingar á ákvæðum laganna vegna ábendinga úr skýrslu CPT nefndarinnar.
- Breytingar á ákvæðum laganna um nauðungarvistanir í samræmi við ábendingar óformlegs samráðshóps innanríkisráðuneytisins.
- Breytingar á ákvæðum laganna um sviptingu lögræðis, yfirlögráðendur, þ.e. hlutverk þeirra og skyldur, lögráðamenn og aðkomu ráðherra að sviptingu lögræðis.
- Yfirfærsla verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanns er lýtur að nauðungarvistunum.
- Yfirfærsla verkefna frá ráðuneytinu til Þjóðskrár Íslands um skrár á grundvelli laganna.