Ingiríður Lúðvíksdóttir sett í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur
Innanríkisráðherra hefur ákveðið að setja Ingiríði Lúðvíksdóttur, settan héraðsdómara, í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur frá og með 1. mars 2015 til og með 15. september 2017, í leyfi Ingveldar Einarsdóttur, setts dómara við Hæstarétt Íslands.
Þann 11. desember 2014 auglýsti innanríkisráðuneytið laust til umsóknar embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur til setningar til og með 15. september 2017. Umsóknarfrestur rann út þann 5. janúar 2015 og bárust alls sjö umsóknir um embættið.
Innanríkisráðuneytið fór þess á leit við dómnefnd, sem starfar skv. 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998, að hún léti í té umsögn sína um hæfni umsækjenda um embættið. Umsögn dómnefndarinnar barst ráðuneytinu þann 23. febrúar 2015. Varð það niðurstaða nefndarinnar að Ingiríður Lúðvíksdóttir væri hæfust umsækjenda til að hljóta setningu í embættið og er ákvörðun ráðherra í samræmi við það.