Hoppa yfir valmynd
31. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Norðurslóðamálin til umræðu á opnum fundi á Akureyri

Utanríkisráðuneytið efndi til opins fundar um málefni norðurslóða í Háskólanum á Akureyri í dag. Fundurinn er mikilvægur liður í að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða og markar upphafið að gerð framkvæmdaáætlunar fyrir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Hún sagði málefni norðurslóða ákaflega mikilvæg og að sínum dómi hafi Ísland mikilvægu forystuhlutverki að gegna á því sviði. „Það er mikill kjarni í íslensku samfélagi að vera á norðurslóðum, þetta er afgerandi hluti af okkar sjálfsmynd hvort sem það er á menningarlegu, efnahagslegu eða samfélagslegu sviði,“ sagði ráðherra.

Ný stefna Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt með þingsályktun á Alþingi í maí 2021 og hefur utanríkisráðuneytið samið við Norðurslóðanet Íslands um að annast verkefnastjórn varðandi gerð framkvæmdaáætlunar um framkvæmd stefnunnar. Í framhaldi af fundinum gefst áhugasömum kostur á að taka þátt í starfi þemahópa sem munu fjalla um afmarkaða liði stefnunnar og skila tillögum til utanríkisráðuneytisins. Þemun eru eftirfarandi: a) Alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar, b) Loftslagsbreytingar, vistkerfi og mengunarvarnir, c) Samfélag og innviðir, d) Uppbygging og framlag til málefna norðurslóða og e) Leit og björgun, fjarskipti, björgunarklasi.

Þórdís Kolbrún sagði málefni norðurslóða eitt af forgangsmálum í íslenskri utanríkisstefnu enda fá ríki sem hafi jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu.

„Umhverfi norðurslóða tekur nú örum breytingum. Með hlýnandi loftslagi hækkar hitastig sjávar, hafís minnkar og jöklarnir hopa með afleiðingum fyrir viðkvæm vistkerfi lands og sjávar sem ekki sér fyrir endann á. Um leið gætu breyttar aðstæður leitt til aukinna siglinga um norðurhöf og sóknar í náttúruauðlindir. Við nýtingu efnahagstækifæra á norðurslóðum þarf að gæta vel jafnvægis milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta, eins og lagt er upp með í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og verið hefur leiðarstjarnan í auðlindanýtingarstefnu Íslands,“ sagði Þórdís Kolbrún ennfremur.

  • Norðurslóðamálin til umræðu á opnum fundi á Akureyri - mynd úr myndasafni númer 1
  • Norðurslóðamálin til umræðu á opnum fundi á Akureyri - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta