Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2003

Þriðjudaginn, 20. janúar 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. ágúst 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 21. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Með bréfi dags. 21. maí 2003 synjaði Tryggingastofnun umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna með vísun í 1. mgr. 19. gr. lagana nr. 95/2000 sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, og sagði að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti umsækjandi ekki skilyrði um fullt nám. Með bréfi, í apríl 2003, sótti undirritaður um fæðingarstyrk hjá Tryggingastofnun Ríkisins. Með bréfinu lét umsækjandi fylgja afrit af námsframvindu menntastofnunar, sama var hvernig áföngum hefði verið raðað, umsækjandi hafði aldrei kost á að taka fleiri fög en hann gerði. Í bréfi frá LÍN, þar kom fram að sjóðurinn hafði tekið tillit til þessara námstilhögunar á haustmisseri og veitt umsækjanda 75% lán. Einnig fylgdi staðfesting yfirvalda í B-landi um að umsækjandi fengi ekki fæðingarstyrk þar í landi. Tryggingastofnun gerir því enga tilraun til að leggja mat á þær upplýsingar sem fyrir hana voru lagðar í bréfi umsækjanda frá apríl 2003.

Málsástæður og réttarheimildir sem kærandi byggir kröfur sínar á:

1.      Skortur á lagastoð.

Í 19. gr. fæðingarorlofslaga kemur fram að foreldar í fullu námi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. Í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er síðan skýrt út hvað fullt nám í skilningi laga um fæðingarorlof er, en það er 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun og varla þarf að deila um það hér að D-háskólinn í B-landi teljist viðurkennd menntastofnun. Í 2 mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er síðan ákvæði um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur, en ekki er að sjá að skoðun laga um fæðingarorlof að heimild sé í lögunum fyrir að setja þetta skilyrði í reglugerðina. Ákvæði reglugerðarinnar skortir því lagastoð.

2. Krafa um námsárangur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar

Ef úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar hafi lagastoð þá er hér ekki um skylduákvæði að ræða heldur heimild sem Tryggingastofnun er veitt. Með öðrum orðum er það ekki fortakslaus skylda að viðkomandi sýni námsárangur til að eiga rétt á greiðslum sem námsmaður. Nægjanlegt er að viðkomandi leggi fram staðfestingu frá viðkomandi skóla að hann sé skráður í skólann.

Enga skýringu er hins vegar að finna í reglugerðinni á því í hvaða tilvikum heimilt sé að krefjast þess að námsárangur sé sannaður. Ljóst má þó vera að ekki hefur verið ætlast til að krefjast þess að námsárangur sé sannaður. Ljóst má þó vera að ekki hefur verið ætlast til að það þyrfti í öllum tilvikum, ef svo hefði verið hefði ákvæðið verið orðað skýrar og þess krafist afdráttarlaust að umsækjendur þyrftu í öllum tilvikum að sýna fram á námsárangur. Í staðinn lætur reglugerðin Tryggingastofnun eftir mat á því í hvaða tilvikum rétt er að krefjast námsárangurs. Við það mat verður stofnunin að sjálfsögðu að gæta sanngirnis og hafa einhverjar málefnalegar ástæður til að krefja umsækjendur um námsárangur. Af bréfum Tryggingastofnunar er ekki hægt að sjá að það hafi verið gert og í raun er á engan hátt hægt að sjá hvaða ástæður liggja að baki því að í  þessu tilviki skuli gerð krafa um námsárangur.

Umsækjandi stundar nám við D-háskólann og hefur gert frá haust misseri 2002. Umsækjandi stundaði nám áður í E-fræði við D-háskólann og var þar með 100% námsárangur allt til loka, og útskrifaðist þaðan í desember 2001. Á haustönn 2002 sótti umsækjandi áfanga sem samvara 20 EUCS punktum, sem jafngildir 67% námi, þeir áfangar sem uppá vantaði til að ná 30 EUCS punktum eða 100% námi, fengust metnir frá fyrra námi og telst umsækjandi því með 100% námsárangur. Þar sem umsækjandi er menntaður E-fræðingur fyrir og stundar nú nám við F-fræði eru eðlilega árekstrar milli áfanga og einhverjir áfangar sambærilegir og eru því metnir til fulls eða að einhverju leiti. Umsækjandi hefði getað setið áfangana aftur til að forðast vandræði sem þessi, en taldi ekki þörf á því. Þar sem umsækjandi hafði samband við Tryggingastofnun varðandi þetta mál í tíma og taldi Tryggingastofnun að tekið yrði fullt tillit til þessara aðstæðna. Getur ofangreindur námsárangur því ekki verið þess valdandi að umsækjandi missi rétt til fæðingarstyrks námsmanna. Sá gjörningur að krefjast námsárangurs á grundvelli heimildarákvæðis í reglugerð án þess að á nokkurn hátt sé tekið tillit til fyrri námsframvindu á vormisseri 2003, getur því ekki staðist.

Þá er einnig rétt að ítreka hér að LÍN hefur metið það svo að umsækjandi hafi verið við nám í D-háskólanum á síðasta haustmisseri og því átt rétt á námsláni fyrir haustmisseri, sbr. hjálagt bréf. Erfitt er að sjá rök fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins setji upp einhvern annan mælikvarða á fullt nám en LÍN notar.

Þrátt fyrir ofangreindar upplýsingar og samskipti umsækjenda við Tryggingastofnun sem þá sýndi málinu skilning, hafnar Tryggingastofnun umsókninni, með bréfi dagsett 21. maí 2003.

Með vísun í ofangreint fer ég fram á að Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála taki kröfu mína til greina.“

 

Með bréfi, dags. 8. september 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun um greiðslur fæðingarstyrks námsmanna.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir að foreldrar í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig og að sameiginlega eigi þau rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Reglur um fæðingastyrk námsmanna eru nánar útfærðar í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þar segir í 1. mgr:

„Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á sl. 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.“

Eftir breytingu með reglugerð nr. 915/2002 hljómar 2. mgr. 14. gr. svo:

„Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 13. maí sl. Samkvæmt upplýsingum frá G-háskólanum í B-landi, frá Lánasjóði Íslenskra námsmanna og frá kæranda sjálfum stundaði hann fullt nám á vorönn 2003 en að hluta á haustönn 2002. Ástæða þess var sú að hann fékk áfanga frá fyrra námi metna til árangurs í því námi sem hann stundar nú.

Undanþáguákvæði frá skilyrðinu um samfellt nám er að finna í 4. og 5. mgr. 14. gr. og 14. gr. a) reglugerðar nr. 909/2000 en ekki er hægt að fella tilvik kæranda undir neitt þeirra. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til mats á aðstæðum umsækjenda um greiðslur, meginregla 1. mgr. 14. gr. er skýr og undantekningar á henni ber að skýra þröngt. Því var ekki um annað að ræða en að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er félagsmálaráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar  nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í 35. gr. ffl. er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga rétt til fæðingarstyrks á grundvelli 18. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 25. ágúst 1999. Hann hóf nám í E-fræði við D-háskólann og lauk því námi í desember 2001. Hann hóf síðan nám í F-fræði við G-háskólann á haustmisseri 2002.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir nægjanlega í ljós leitt að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda hafi verið fyrirhugað nám hans. Samkvæmt því telst hann hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna námsins og uppfylla skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði.

Barn kæranda er fætt 13. maí 2003. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið í fullu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða sambærilegu námi í öðrum ríkjum í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, þar sem hann á haustmisseri 2002 var í minna en 75% námi.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 eins og henni var breytt með reglugerð nr. 915/2002. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 eins og henni var beytt með reglugerð nr. 915/2002. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuð á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Með hliðsjón af framangreindu, verður ekki séð að þær undanþágur sem framangreind reglugerð heimilar frá því skilyrði að foreldri skuli hafa verið í 75%-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, eigi við um aðstæður kæranda.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Hann uppfyllir hins vegar ekki skilyrði þess að eiga rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hann hafði verið skemur en a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum í fullu námi fyrir fæðingu barns. Samkvæmt því ber að greiða kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 18. gr. ffl., en staðfest er að kærandi á ekki rétt á greiðslum vegna fæðingarinnar í B-landi, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanni, staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni til A í fæðingarorlofi er staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta