Gísli Snær Erlingsson skipaður forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur skipað Gísla Snæ Erlingsson til að gegna embætti forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Gísli Snær hefur starfað við leikstjórn um árabil og leikstýrði meðal annars kvikmyndunum Ikíngut (2000) og Benjamín Dúfu (1995). Hann var ráðinn sem skólastjóri Kvikmyndaskóla Lundúna árið 2016 og lét af störfum þar á síðasta ári.
Staða forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar var auglýst í lok nóvember og rann umsóknarfrestur út þann 12. desember síðastliðinn. Umsækjendur um stöðuna voru fimmtán og var það mat þriggja manna hæfnisnefndar að Gísli væri hæfastur til að gegna embættinu. Að loknum ráðningarviðtölum ráðherra var það heildstætt mat að Gísli Snær stæði öðrum umsækjendum framar.
Skipunin er til fimm ára samkvæmt meginreglu um skipan forstöðumanna ríkisstofnana. Gísli mun taka við embætti forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar í apríl næstkomandi en fram að því hefur Sigurrós Hilmarsdóttur, framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar, verið falið að gegna stöðu forstöðumanns.