Hljóðbókasafnið fær hæsta styrk úr Bókasafnasjóði
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, úthlutaði í dag 20 milljónum króna í 11 styrki úr Bókasafnasjóði. Þetta er fyrsta úthlutun sjóðsins en styrkveitingar eru allar í þágu íslenskra bókasafna. Hæsta styrkinn fær að þessu sinni Hljóðbókasafn Íslands eða 6 milljónir króna fyrir verkefnið Hljóðstafi. Verkefnið snýr að því að ljúka við smíði hugbúnaðarkerfis til að samþætta upplesið hljóð og texta í aðgengilega bók.
„Ég óska styrkþegum til hamingju með verkefnin sín. Það er afar ánægjulegt að geta styrkt starfsemi íslenskra bókasafna með þessum hætti, en bókasöfn eru allt í senn þekkingarveitur og fræðslustofnanir. Þau halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu og tryggja þannig varðveislu þess okkar víðfeðma menningararfs,“ segir Lilja.
Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Bókasöfn efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi. Bókasöfnin mynda sameiginlegt bókasafnakerfi landsins og taka þátt í ýmsu samstarfi sín á milli og við aðrar menningar- og listastofnanir.
Markmið bókasafnasjóðs er að efla starfsemi bókasafna og fer Rannís með umsjón sjóðsins. Sjóðurinn styrkir skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja önnur verkefni til að efla faglegt samstarf bókasafna, m.a. alþjóðleg samstarfsverkefni sem bókasöfn taka þátt í. Sjóðnum bárust 18 umsóknir að þessu sinni og voru 20 milljónir til úthlutunar, en samtals var sótt um ríflega 33 milljónir.
Menningarmálaráðherra veitti sex styrkþegum af ellefu viðurkenningarskjal við formlega móttöku og athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í tilefni að styrkveitingunni.