Skipar samráðshóp um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ákveðið að skipa samráðshóp sem leggja á fram tillögur um leiðarval fyrir framtíðarveg um Gufudalssveit og Múlasveit í Austur-Barðastrandasýslu. Mun hópurinn hittast snemma í ágúst og er honum ætlað að skila tillögum sem fyrst.
Sem kunnugt er hefur lengi staðið fyrir dyrum að endurbæta Vestfjarðaveg nr. 60, einkum kaflann á milli Vatnsfjarðar og Þorskafjarðar þar sem er um fjallvegi að fara og vegir illfærir og erfiðir yfirferðar. Hafa síðustu verkefnin á því sviði einkum verið á kafla milli Vatnsfjarðar og Kollafjarðar þar sem unnið er að uppbyggingu heilsársvega. Á austasta hluta þessarar leiðar, milli Þorskafjarðar og Gufufjarðar eru erfiðustu hjallarnir og þar hafa verið uppi nokkrar hugmyndir um framtíðarvegstæði, meðal annars á láglendi með þverun fjarða. Slík vegarlagning hefur mætt andstöðu og ekki fengist samþykkt í umhverfismati og var með dómi Hæstaréttar haustið 2009 dæmd ólögmæt sú ákvörðun þáverandi umhverfisráðherra að heimila vegarlagninguna.
Fjórðungssamband Vestfirðinga og sveitarstjórnir Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og Reykhólahrepps hafa mælt sterklega fyrir láglendisleið og hafa ítrekað ályktað um nauðsyn þess að fá ákvörðun um framtíðarlegu vegarins og að framkvæmdir hefjist.
Á fundi með fulltrúum Fjórðungssambandsins og sveitarstjórnar Reykhólahrepps í Bjarkalundi í gær tilkynnti innanríkisráðherra um skipan áðurnefnds samráðshóps. Í hópnum munu sitja fulltrúar sveitarfélaganna Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og Reykhóla, Fjórðungssambands Vestfirðinga, náttúruverndarsamtaka auk fulltrúa ráuneytis og Vegagerðar.
Ráðgert er að hópurinn hittist 11. ágúst og leggur ráðherra áherslu á að málið verði til lykta leitt nú í haust enda samgönguáætlun í vinnslu. Stefnt er að því að tillaga um leiðarval verði sett inn í samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í haust.
Á myndinni hér að neðan má sjá hvar unnið er við nýjan vegarkafla á Vestfjarðavegi við Skálanes sem liggur milli Kollafjarðar og Gufufjarðar. Ráðgert er að sá kafli verði tilbúinn með haustinu.