Hoppa yfir valmynd
23. apríl 1995 Forsætisráðuneytið

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar 1995

STEFNUYFIRLÝSING
RÍKISSTJÓRNAR SJÁLFSTÆÐISFLOKKS OG FRAMSÓKNARFLOKKS 1995

Með myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefst ný framfarasókn þjóðarinnar. Undirstöður velferðar verða treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna í landinu. Áhersla verður lögð á samheldni þjóðarinnar, samvinnu vinnuveitenda og launþega, dreifbýlis og þéttbýlis. Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum eru forsenda framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis. Framtak einstaklinga verður virkjað í þágu aukinnar verðmætasköpunar. Á þann hátt verður stuðlað að hagsæld, félagslegum umbótum og afkomuöryggi. Vegur menntunar og rannsókna verður aukinn, en það er forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu. Unnið verður að markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum, samstarfi við erlend fyrirtæki og þjóðir svo og fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Ný upplýsingatækni verður nýtt í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsókna, lista og hvers kyns menningarmála.

Með aðgerðum sínum á kjörtímabilinu hyggst ríkisstjórnin gera landsmönnum kleift að ganga bjartsýnir og með reisn inn í 21. öldina.

Meginmarkmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru þessi:

· Að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt. Hagstætt raungengi og sambærilegir vextir og í helstu samkeppnislöndum eru undirstaða öflugs atvinnulífs og forsenda þess að störfum fjölgi. Með auknum fjárfestingum og nýsköpun í atvinnulífi verður unnið gegn atvinnuleysi.

· Að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á ráðdeild og að treysta stoðir velferðarinnar. Í þeim tilgangi er brýnt að stöðva sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs. Unnið verður að kerfisbreytingum í þeim tilgangi að nýta sem best fjármuni sem varið er til heilbrigðis- og menntamála, einstakra atvinnugreina og opinberra framkvæmda. Kannað verður hvort lífeyrissjóðir geti leyst af hólmi einstaka þætti almannatryggingakerfisins. Teknar verða upp viðræður við sveitarfélögin um alvarlegan hallarekstur þeirra og leiðir til að bregðast við þeim vanda.

· Að vinna að nýskipan í ríkisrekstri, t.d. með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum, breyttu launakerfi og aukinni ábyrgð stjórnenda. Stefnt verður að meiri hagkvæmni við opinberar framkvæmdir. Unnið verður að því að gera ríkisrekstur einfaldari en um leið skilvirkari. Aðstöðumunur verður jafnaður þar sem ríkið stundar atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila. Arðsemiskröfur verða gerðar til fyrirtækja ríkisins.

· Að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skoðun á skattkerfinu með það að markmiði að draga úr skattsvikum, lækka jaðarskatta, einfalda skattkerfið og auka jafnræði innan þess. Með skattaívilnunum verður almenningur hvattur til að leggja áhættufé í atvinnufyrirtæki. Undirbúningi þessara skattabreytinga verður lokið á árinu 1996. Skattalegt umhverfi fyrirtækja verði eins og best gerist í samkeppnislöndum þannig að ekki þurfi að gera sérsamninga við erlend fyrirtæki um skattaafslætti til að þau fáist til að starfa hér á landi.

· Að leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það á einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verður að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis.

· Að tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu. Að mestu er byggt á aflahlutdeildarkerfi í sjávarútvegi, en banndagakerfi svonefndra krókabáta verður tekið til endurskoðunar. Skapað verður svigrúm til að rétta hlut þeirra aflamarksbáta sem harðast hafa orðið úti vegna minnkandi þorskafla. Öflugar líffræði- og hagkvæmnirannsóknir eru forsenda skynsamlegrar fiskveiðistjórnar og eðlilegrar þróunar hennar. Sérstök áhersla verður lögð á að bæta umgengni um auðlindir sjávar. Tryggja þarf hagsmuni Íslands varðandi veiðar utan fiskveiðilögsögunnar með því að afla málstað Íslands fylgis á alþjóðavettvangi og með samningum við aðrar þjóðir. Stefnt er að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar og að stjórn fiskveiða og rétti til veiða skuli skipað með lögum.

· Að taka búvörusamninginn frá 1991 til endurskoðunar, sérstaklega með tilliti til þess mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir. Skapað verður svigrúm til aukinnar hagræðingar í landbúnaði og úrvinnslugreinum hans og gripið til þeirra hliðaraðgerða sem óhjákvæmilegar eru. Í því sambandi er mikilvægt að taka tillit til hugsmuna neytenda. Treysta verður tekjugrundvöll bænda. Í því felst m.a. að losa um framleiðsluhömlur og auka sveigjanleika í framleiðslustjórn, stuðla að nýsköpun og fjölbreyttari atvinnu til sveita og auðvelda bændum breytingar á búháttum eða búskaparlok. Átak í útflutningi landbúnaðarafurða verður stutt, sérstaklega á grundvelli nýrra laga um vöruþróun og markaðssókn sem byggist á hreinleika og hollustu afurðanna. Rannsóknir og þróunarstarf á þessum sviðum verður eflt. Unnið verður að gróðurvernd og landgræðslu með það að markmiði m.a. að stöðva landeyðingu. Áherslur í landgræðslu og skógrækt miðist jafnframt við að auka hlut bænda í framkvæmdum. Verkefnum verður raðað með það fyrir augum að mæta samdrætti í hefðbundnum búskap.

· Að efla byggð í landinu með traustum og góðum samgöngum þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar nýtist með hagkvæmum hætti. Með verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga og ákvörðun um staðsetningu opinberra stofnana verður stuðlað að eflingu þjónustukjarna. Unnið verður að lækkun húshitunarkostnaðar. Starfsemi og skipulag Byggðastofnunar, Atvinnuleysistryggingasjóðs og atvinnuráðgjafa verður tekið til endurskoðunar í því skyni að þessir aðilar geti í sameiningu stuðlað að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um land allt.

· Að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Þörfum einstaklinga fyrir endurmenntun og fullorðinsfræðslu verður sinnt. Flutningi grunnskóla til sveitarfélaga verður lokið í samkomulagi við þau og í samráði við samtök kennara. Framhaldsskólar verða efldir, ekki síst starfsnám og verkmenntun. Unnið verður áfram að uppbyggingu og þróun Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og listnáms á háskólastigi. Öflugt rannsókna- og þróunarstarf er forsenda framfarasóknar í íslensku atvinnulífi. Nýta verður sem best fjármagn sem varið er í því skyni og tryggja að bæði nýjar og hefðbundnar atvinnugreinar eigi jafnan aðgang að rannsóknafé. Lög og reglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna verða endurskoðuð. Nýsköpunarsjóður námsmanna verður studdur og þátttaka námsmanna í rannsóknastarfi verður aukin.

· Að standa vörð um íslenska tungu og þjóðmenningu og stuðla eins og kostur er að öflugu lista- og menningarlífi sem aðgengilegt sé öllum landsmönnum. Stuðningur við menningarstarfsemi miðist við að efla skilning Íslendinga á eigin menningu, ávaxta menningararfleifð þjóðarinnar og auka þekkingu landsmanna á menningu annarra þjóða.

· Að lánstími húsnæðislána frá Húsnæðisstofnun verði breytilegur þannig að í stað 25 ára eins og nú er verði hann á bilinu 15-40 ár. Sérstök áhersla verður lögð á að hjálpa ungu fólki til þess að eignast sína fyrstu íbúð. Þeim sem greiða af eldri fasteignaverðbréfum Húsnæðisstofnunar verður gefinn kostur á lengingu lána. Stuðlað verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Stefnt verður að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið.· Að stuðla að hagkvæmni og auka fjölbreytni í rekstri heilbrigðisstofnana. Lögð verður sérstök áhersla á þátt forvarna- og fræðslustarfs í heilbrigðismálum, þ.á.m. til að draga úr neyslu vímuefna. Komið verður á markvissara samstarfi og verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna í landinu. Sett verða ný lög um almannatryggingar þar sem réttur þeirra sem raunverulega þurfa á bótum að halda verður betur tryggður en nú er. Tryggingastofnun verður gerð virkari í eftirliti með útgreiðslum og sjúkratryggingum, svo og þeirri þjónustu sem stofnunin kaupir.

· Að endurskoða vinnulöggjöfina með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.

· Að treysta starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins þannig að allir landsmenn njóti sambærilegra lífeyrisréttinda. Tryggja þarf aukið valfrelsi í lífeyrissparnaði og innleiða samkeppni milli lífeyrissjóða. Sett verða almenn lög um starfsemi lífeyrissjóða þar sem m.a. verða tryggð bein áhrif sjóðsfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna. einnig verða sett lög um stöðu og hlutverk séreignasjóða lífeyrisréttinda. Leitað verður samkomulags við lífeyrissjóði um að þeir verji auknum hluta af árlegu ráðstöfunarfé sínu til fjárfestingar í atvinnulífinu.

· Að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis. Stuðlað verður að jafnari möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.

· Að endurskoða kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða milli kjördæma.

· Að setja reglur er tryggi aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Dregið verði úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðaákvæði verða afnumin. Þjónusta ríkisins verði sniðin að nútíma tækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum tollviðskiptum. Tryggt verður að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni.

· Að stuðla að vexti íþrótta- og æskulýðsstarfs með hag fjölskyldunnar að leiðarljósi. Forvarnir og löggæsla verður efld til verndar borgurunum.

· Að vinna í samstarfi við þjóðkirkjuna og aðra kristna söfnuði að því að efla jákvæð áhrif trúarlífs með þjóðinni ekki síst í tilefni þess að um næstu aldamót verða 1000 ár liðin frá kristnitöku.

· Að móta heildarstefnu í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins um upplýsingatækni og miðlun er miði að því að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

· Að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um mengunarvarnir og verndun lífríkis sjávar. Unnið verður að markvissari endurvinnslu og endurnýtingu. Stuðlað verður að bættri ferðaþjónustu er falli vel að umhverfissjónarmiðum. Áhersla verður lögð á að Ísland hafi ímynd hreinleika og umhverfisverndar.

· Að vinna að frekari erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu. Markaðsstarfsemi verður efld með því að styrkja starfsemi Útflutningsráðs, Ferðamálaráðs og Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar. Utanríkisþjónustan mun leggja meiri áherslu á að kynna möguleika erlendra fjárfesta hérlendis. Unnið verður áfram að undirbúningi orkufreks iðnaðar. Lög um erlenda fjárfestingu verða endurskoðuð í því skyni að laða að erlent fjármagn.

· Að treysta samskiptin við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, fylgjast náið með þróun mála innan sambandsins á næstu misserum og kynna íslenska hagsmuni fyrir aðildarríkjum þess. Áhersla verður lögð á að tryggja viðskiptasamstarf og önnur samskipti Íslands við Bandaríkin. Kannaðar verða hugmyndir, sem fram hafa komið, um fríverslunarsamstarf Bandaríkjanna og annarra Atlantshafsríkja og hvort í þeim felist sóknarfæri fyrir íslensk fyrirtæki. Áhersla verður lögð á markaðssókn um allan heim og leitað leiða til að virkja íslenskt framtak til verkefna á erlendum vettvangi. Þau tækifæri til alþjóðaviðskipta sem leiðir af aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, verði nýtt. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin verða áfram þungamiðja öryggisstefnu þjóðarinnar, en áhersla er lögð á að efla þátttöku Íslands í því víðtæka pólitíska samráði sem fram fer á vettvangi bandalagsins. Þá er lögð áhersla á þýðingu norræns samstarfs og þátttöku Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Íslendingar munu vinna að stofnun Norðurheimskautsráðs sem verði vettvangur samráðs og samhæfingar þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta á Norðurheimskautssvæðinu, sérstaklega á sviði umhverfis- og auðlindanýtingar.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun láta útbúa verkefnaskrá fyrir einstök ráðuneyti þar sem gerð verður grein fyrir þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hyggst ljúka á kjörtímabilinu. Verkefnaskráin verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1995.

Reykjavík, 23. apríl 1995.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta