Föstudagspóstur á mánudegi, 19. júní
Heil og sæl,
Nú er komið að síðbúnum föstudagspósti eftir annasama viku í utanríkisþjónustunni. Byrjum á að skoða helstu fréttir vikunnar.
Vikan hófst á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna á Ísafirði. Fundurinn var haldinn hér á landi vegna formennsku okkar í norrænni samvinnu í ár. Á fundinum voru málefni Úkraínu, samskipti við Rússland, staða mannúðarmála og málefni kvenna í Afganistan rædd. Fundurinn fór fram í Edinborgarhúsinu, en að honum loknum fóru ráðherrarnir í skoðunarferð á Bolafjall.
Welcome to Ísafjörður dear friends! 🇩🇰🇫🇮🇮🇸🇳🇴🇸🇪
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) June 12, 2023
It’s an absolute pleasure to welcome you here in the West Fjords to continue our excellent and close N5 foreign affairs cooperation. I look forward to our discussions tomorrow.@TobiasBillstrom@larsloekke@Haavisto@EivindVP pic.twitter.com/P374dQIe4I
Þá sótti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra framlagaráðstefnu á vegum Evrópusambandsins þar sem mannúðarmál í Sýrlandi voru til umfjöllunar. Ráðstefnan er haldin árlega og er meginvettvangur fyrir fjármögnun alþjóðasamfélagsins á mannúðaraðstoð og annarskonar stuðningi við almenna borgara í Sýrlandi. Á ráðstefnunni var kynnt að Ísland myndi leggja 840 milljónir í mannúðarstuðning við Sýrland og grannríki á næstu þremur árum. Stuðningurinn mun renna til undirstofnana Sameinuðu Þjóðanna sem starfa í Sýrlandi og grannríkjum.
Varnarmálaráðherrar Atlandshafsbandalagsins hittust á tveggja daga fundi nú í vikunni. Þar voru innrás Rússa í Úkraínu, efling varnar- og fælingargetu og kjarnorkuvarnir bandalagsins efst á baugi. Varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksii Reznikov, var gestur á fundinum og gerði ráðherrum bandalagsins grein fyrir stöðunni í heimalandi sínu. Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sagði ríki bandalagsins einhuga um að halda áfram stuðningi við Úkraínu í varnarbaráttu sinni.
Á fundinum var einnig rætt um varnaráætlanagerð og aukinn varnarviðbúnað. Í tengslum við þá vinnu var ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð í flotaherstjórn bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa af neðansjávarinnviðum.
Á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna í New York var Tómas H. Heiðar endurkjörinn í sæti dómara við Alþjóðlega hafréttardómstólinn. Starfstímabil hans hefst 1. október 2023 og er til níu ára. Tómas gegndi áður starfi þjóðréttarfræðings í utanríkisráðuneytinu á árunum 1996 til 2014 og er jafnframt forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.
Í Heimsljósi var greint frá því að metár hefði verið í neyðarsöfnun hjá landsnefnd UNICEF á Íslandi, en aðeins ein landsnefnd var með hlutfallslega hærri framlög en Íslands. Alls söfnuðust rúmlega 206 milljónir í neyðarsöfnuninni. Sem fyrr eiga Íslendingar heimsmet miðað við höfðatölu í fjölda Heimsforeldra.
Öllu neikvæðari voru fréttir af stöðu jafnréttismála, en samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu Þjóðanna hafa litlar viðhorfsbreytingar átt sér stað síðastliðinn áratug og enn eru níu af hverjum tíu karlmönnum haldnir grundvallarfordómum gegn konum. Í skýrslunni segir að fordómarnir séu ríkjandi víðast hvar, óháð hnattstöðu, tekjum, þróunarstigi eða menningu.
Kíkjum nú á hvað var um að vera á vettvangi sendiskrifstofanna.
Heimildamyndin „Í landi steina og hrauns. Pólverjar á Íslandi“ var frumsýnd í sendiráðinu í Varsjá.
Þá bauð sendiráðið í Varsjá einnig til ráðstefnu undir nafninu „Geothermal Energy, Energy Transition and Carbon Capture and Storage“. Á ráðstefnunni var fjallað um endurnýjanlega orkugjafa og orkuskipti og leitast við að koma á fót nýjum tengslum milli íslenskra og pólskra orkufyrirtækja.
Sendiráðið í Japan stóð fyrir matreiðslunámskeiði þar sem íslensk matargerð var í hávegum höfð. Námskeiðið fór fram í Tama City, þar sem síðustu Ólympíuleikar fóru fram. Á námskeiðinu var m.a. elduð alíslensk kjötsúpa.
Sendiherra Íslands í Svíþjóð, Bryndís Kjartansdóttir, sem þjónar einnig sem sendiherra gagnvart Kýpur, afhenti í vikunni forseta Kýpur, Nikos Christodoulides, trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Níkósíu.
Sendiherra Íslands í Osló, Högni Kristjánsson, og viðskiptafulltrúi sendiráðsins, Eva Mjöll Júlíusdóttir sóttu Nor-Shipping 2023 ráðstefnuna í vikunni. Ráðstefnan leiðir saman tugþúsundir manna í sjávarútvegi alls staðar að úr heiminum. Við opnun ráðstefnunnar kynnti sjávarútvegsráðherra Noregs, Bjørnar Skjæran, áherslur ráðuneytisins í jafnréttismálum og mikilvægi þess að auka hlut kvenna í greininni.
Aðalræðismaður Íslands í New York, Nikulás Hannigan, sótti, ásamt norrænum kollegum, opnun Buffalo AKG listasafnsins. Í safninu er að finna sýningu tileinkaða norrænni list og menningu.
Í London sótti sendiherra Íslands, Sturla Sigurjónsson, opnun norrænu sumarsýningarinnar hjá Cadogan Fine Arts. Á sýningunni eru skúlptúrverk Steinunnar Þórarinsdóttur og málverk Þórarins Inga Jónssonar til sýnis. Sýningin er opin til 22. júní.
Þá heimsóttu sendiherrar og varnarmálafulltrúar JEF og Norðurhópsríkjanna flagskip breska flotans, flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth. Skipið er 65.000 tonn og getur borið allt að 60 flugvélar.
Í Kampala var norræni dagurinn haldinn hátíðlegur á síðasta degi maímánaðar. Um er að ræða sameiginlega hefð á meðal norrænu sendiráðanna í Kampala, þar sem samstarfsaðilar sendiráðanna koma saman og fagna sameiginlegum norrænum gildum.
Í Finnlandi opnaði sendiherra Íslands þar í landi, Harald Aspelund, sýningu íslensku listakvennanna Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur og Svanborgu Matthíasdóttur í Gallerie Käytävä. Sýningin ber heitið Homage to Nature.
Mánudaginn 12. júní tóku sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu á móti varakanslara og ráðherra efnahags- og loftslagsmála, Dr. Robert Habeck og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, ásamt orkugeiranum í Þýskalandi, Íslandi og fjölmörgum öðrum löndum á ráðstefnunni "Our Climate Future - Germany & Iceland: Clean Energy Summit 2023". Auk þess að taka þátt í ráðstefnunni áttu ráðherrarnir jafnframt tvíhliða fund þar sem áhersla var á orku- og loftlagsmál.
Vel á annað hundrað gestir sóttu ráðstefnuna, sem stóð allan daginn og var haldin í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín. Fulltrúar frá ÍSOR, Mannviti, Landsvirkjun, Orkustofnun, HS Orku, Verkís, ON Power, Arctic Green Energy, EFLA, Carbon Recycling International og Carbfix tóku þátt í pallborðsumræðum með þýskum fyrirtækjum, opinberum aðilum og vísindamönnum. Voru þátttakendur sammála um það að uppbygging grænna orkuinnviða væri lykilatriði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og tækni á borð við kolefnisförgun, skýr stefnumótun, nýsköpun í orkumálum o.fl. voru í brennidepli í mjög líflegum umræðum.
Hægt er að nálgast upptöku af ráðstefnunni hér.
Snemma um morguninn áður en ráðstefnan byrjaði bauð sendiherra í Berlín, María Erla Marelsdóttir til morgunverðarfundar ásamt konum í orkugeiranum, þar sem forsetafrú Íslands, Eliza Reid hélt ávarp í gegnum fjarfundabúnað og ræddi árangur Íslands í jafnréttismálum.
Sendiherra Íslands í Kína, Þórir Ibsen, heimsótti ásamt norrænum kollegum sínum Heilongjiang fylki. Þar ræddu þau við fulltrúa fylkisins um græna iðnaðartækni, endurnýjanlega orku og náttúruvernd. Sendiherrarnir skoðuðu jafnframt hátæknifyrirtæki í landbúnaði, vindmyllugarða, skógverndarsvæði og votlendis verndarsvæði.
#Nordic 🇩🇰🇫🇮🇮🇸🇳🇴🇸🇪 Ambassadors to 🇨🇳 visited Heilongjiang where they met with officials and discussed economic activities and green & low carbon development, they also visited agriculture and sports facilities, windmill farm, and wetland & forest conservation areas pic.twitter.com/obLNdW8X6h
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) June 12, 2023
Svo var 79 ára afmæli lýðveldisins Íslands fagnað um víða veröld.
Í Þórshöfn í Færeyjum hittist Íslendingafélagið Frón og gerði sér glaðan dag.
Í Tókýó komu Íslendingar saman á þaki sendiráðsins og grilluðu hamborgara.
Í Kanada tók sendiherran, Hlynur Guðjónsson, þátt í hátíðarhöldum í Toronto, þar sem boðið var uppá íslenska tónlist, SS Pylsur og íslenska vínartertu.
Þá fagnaði Íslensk-Kanadíska félagið í Bresku-Kólumbíu þjóðhátíðardeginum með lautarferð þar sem boðið var uppá fjölbreytta skemmtun.
Aðalræðisskrifstofan Íslands í Nuuk bauð Íslendingum, vinum og vandamönnum til pylsuveislu á þjóðhátíðardaginn.
Í New York hittust Íslendingar í Sjómannskirkjunni, þar sem boðið var uppá tónlist og auðvitað pylsur.
Í London boðaði íslenski söfnuðurinn og Íslendingafélagið til þjóðhátíðarfögnuðar.
Sendiráðið í Malaví bauð til veislu þar sem fjölbreyttar íslenskar kræsingar voru á borðum.
Í Kaupmannahöfn hélt Tívolíið þar í borg þjóðhátíðardaginn hátíðlegan með íslenskri hátíðardagskrá, en íslenskum fyrirtækjum var jafnframt boðið að vera með bása og kynna sína vöru.
Sendiherra Íslands gagnvart Litáen, Harald Aspelund, ávarpaði árlega hátíð í Vilnius sem ber heitið Takk Ísland og haldin er á þjóðhátíðardaginn, þar sem Íslendingum er þakkað fyrir stuðning við Litáen í sjálfstæðisbaráttu sinni.
Þá verða fréttirnar þessa vikuna ekki fleiri og þökkum við því fyrir okkur að sinni.
Upplýsingadeildin.