Nr. 53/2025 Úrskurður
Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 53/2025
í stjórnsýslumáli nr. KNU24080170
Kæra [...]
á ákvörðun
lögreglustjórans á Suðurnesjum
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 29. ágúst 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Rúmeníu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 28. ágúst 2024, um frávísun frá Íslandi.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til Íslands með flugi frá Búdapest í Ungverjalandi, 28. ágúst 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 28. ágúst 2024, sem birt var fyrir kæranda 29. ágúst 2024, var honum vísað frá landinu.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga vegna sögu refsiverðrar háttsemi á Íslandi. Í frumskýrslu lögreglu, dags. 28. ágúst 2024, kemur fram að lögregla hafi haft afskipti af kæranda á Keflavíkurflugvelli 28. ágúst 2024. Hann hafi verið tekinn til frekari skoðunar á varðstofu lögreglu sem hafi flett honum upp í kerfum lögreglu. Fram kemur að kærandi hafði hlotið dóm vegna manndráps af gáleysi ásamt ótal afbrotum á árunum 2019-2022, sbr. dóma Landsréttar nr. 164/2022, dags. 25. nóvember 2022, og Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-8276/2020, dags. 26. mars 2021. Þar að auki væri hann eftirlýstur af Fangelsismálastofnun ríkisins vegna afplánunar. Aðspurður um tilgang komu hingað til lands kvaðst kærandi hafa verið í sambandi við marga aðila um íbúðaleigu en ætti ekki fastan samastað á Íslandi. Þá kvaðst hann vera kominn til landsins til þess að sinna samfélagsþjónustu vegna refsidóma sinna.
Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi komið fram í skráðum upplýsingum frá Útlendingastofnun að fyrirhugað væri að ákvarða kæranda brottvísun og endurkomubann og var honum því birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann, dags. 21. ágúst 2024. Lögregla tók ákvörðun um að frávísa kæranda frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga vegna refsidóms og langrar afbrotasögu. Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 29. ágúst 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 29. ágúst 2024, var kæranda veittur frestur til 12. september 2024 til þess að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins, en kærandi lagði ekki fram frekari röksemdir vegna málsins.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð vegna málsins. Í kæru vísaði kærandi til málsmeðferðar um brottvísun og endurkomubann og kvað hann sérstakt að fá ekki að taka út sína refsingu og telur að með brottvísun sé rétti hans kastað fyrir róða.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (Sambandsborgaratilskipunin) verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Í 94. gr. laga um útlendinga er kveðið á um í hvaða tilvikum heimilt er að vísa frá landi EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Samkvæmt 2. mgr. 94. gr. tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun samkvæmt a-, b- og d-lið 1. mgr. en Útlendingastofnun samkvæmt c-lið 1. mgr. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins. Í 3. mgr. 94. gr. kemur fram að ef meðferð máls samkvæmt 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar 1. mgr. innan þriggja mánaða frá komu til landsins.
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggði á d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu er frávísun EES-borgara heimil ef það er talið nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
Hugtökin allsherjarregla og almannaöryggi eru ekki skilgreind nánar í íslenskum lögum. Í frumvarpi með lögum um útlendinga kemur fram að orðalag d-liðar 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga sé í samræmi við orðalag sambandsborgaratilskipunarinnar. Í 27. gr. tilskipunarinnar kemur fram að aðildarríki geti takmarkað réttinn til frjálsrar farar og dvalar á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Ráðstafanir sem gerðar eru á grundvelli allsherjarreglu og almannaöryggis skulu vera í samræmi við meðalhóf og eingöngu byggðar á framferði viðkomandi einstaklings og mati á því hvort hans persónulega hegðun feli í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gegn grundvallarhagsmunum samfélagsins. Röksemdirnar skulu ekki byggðar á almennum forvörnum. Í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB um túlkun sambandsborgaratilskipunarinnar frá árinu 2009 kemur fram að almannaöryggi nái til innra og ytra öryggis ríkis og allsherjarregla komi í veg fyrir að unnið sé gegn þjóðskipulaginu. Þá kemur fram að skýra þurfi framangreind skilyrði þröngt.
Við túlkun á framangreindum lagaákvæðum ber að líta til dóma Evrópudómstólsins á þessu sviði, sbr. 6. gr. EES-samningsins og 2. mgr. 3. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Hefur Evrópudómstóllinn í dómaframkvæmd sinni vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Má sjá slíka nálgun m.a. í dómum dómstólsins í málum nr. C-41/74 (Van Duyn), frá 4. desember 1974 og nr. C-33/07 frá 10. júlí 2008, þar sem m.a. kemur fram að hvert og eitt aðildarríki hafi heimild til að meta hvenær takmarka skuli réttinn til frjálsrar farar á grundvelli allsherjarreglu en slíkar undantekningar bæri að túlka þröngt. Er því ljóst að við túlkun og beitingu framangreindra ákvæða um allsherjarreglu og almannaöryggi er stjórnvöldum falið svigrúm til að skilgreina nánar hvenær aðstæður eru slíkar að nauðsynlegt sé að takmarka frjálsa för til verndar allsherjarreglu og almannaöryggi. Slíkt mat verði þó ávallt að hvíla á málefnalegum grundvelli og taka mið af inntaki skuldbindinga íslenska ríkisins.
Samkvæmt Þjóðskrá Íslands skráði kærandi dvöl sína hér á landi 14. október 2019, en lögheimili hans var flutt úr landi að nýju 8. mars 2021. Dvalarréttur kæranda grundvallaðist á XI. kafla laga um útlendinga sem mælir fyrir um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu en ákvæðin lögfesta í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Tilskipunin, með hliðsjón af fjórfrelsi Evrópusambandsins, grundvallast á sjónarmiðum um efnahagslega virkni. Ákvæði XI. kafla laga um útlendinga endurspegla þetta m.a. með þeim hætti að réttur til dvalar grundvallast á atvinnuþátttöku, veitingu þjónustu, eða innritun í viðurkennda námsstofnun en í öllu falli þurfi rétthafi að geta framfært sjálfum sér og aðstandendum sínum. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hefur kærandi aldrei verið skráður í staðgreiðslu vegna atvinnu, en tvívegis hefur hann þegið greiðslur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Að teknu tilliti til fyrirliggjandi refsidóma verður jafnframt lagt til grundvallar að kærandi hafi að einhverju leyti framfært sér með refsiverðri háttsemi, svo sem með þjófnaðarbrotum, fjársvikum, og sölu og dreifingu fíkniefna. Samkvæmt framansögðu var fyrri dvöl kæranda ekki á grundvelli efnahagslegrar virkni heldur varði hann tíma sínum í brotastarfsemi en fyrir liggur að brotastarfsemi hans hófst 3. október 2019, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-8276/2020, dags. 26. mars 2021.
Við komu til Íslands 28. ágúst 2024, gat kærandi ekki sýnt fram á breytta hagi að neinu leyti. Hann sýndi t.a.m. ekki fram á tryggan dvalarstað eða framfærslu, svo sem með fyrirhugaðri vinnu. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði og refsidómum liggur fyrir að kærandi hefur gerst sekur um manndráp af gáleysi, ítrekuð þjófnaðarbrot, fjársvik, fíkniefnalagabrot, ásamt ítrekuðum umferðarlagabrotum, þ.m.t. ölvunarakstri og akstri undir áhrifum fíkniefna. Brotaferill kæranda ber ekki annað með sér en að um ítrekaða brotahegðun sé að ræða og í eitt skipti verulega alvarlegt brot, þ.e. manndráp af gáleysi. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að réttur til lífs telst til mikilvægra mannréttinda sem nýtur verndar skv. 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á grundvelli þess bera íslensk stjórnvöld jákvæðar skyldur til þess tryggja öryggi borgaranna og samfélagsins í heild og grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að afstýra afbrotum. Telst brotaferill kæranda því vega að allsherjarreglu og almannahagsmunum, sbr. d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga. Þá gefur ítrekuð brotahegðun kæranda til kynna að hann muni fremja refsiverð afbrot á ný. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að koma kæranda til landsins í umrætt sinn feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi, sbr. d-lið 1. mgr. 94. gr. laga um útlendinga og hafi lögreglu verið heimilt að frávísa kæranda frá landinu.
Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.
The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir Jóna Aðalheiður Pálmadóttir