Hoppa yfir valmynd
22. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 366/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 366/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá Vinnumálastofnun 1. apríl 2020 og var umsóknin samþykkt. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna greiðslna frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. maí 2020, var kæranda tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 44.425 kr., án álags. Þá var kæranda tilkynnt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2020, að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 15.532 kr., án álags. Kærandi skráði sig af atvinnuleysisbótum 5. ágúst 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júlí 2020. Með bréfi, dags. 28. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. september 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að ákvörðun Vinnumálastofnunar brjóti gegn jafnræðisreglu þar sem lífeyrissparnaður, sem sé hennar eign, komi til skerðingar á meðan aðilar sem taki út séreignarsparnað séu undanþegnir slíkri skerðingu. Að mati kæranda sé á henni brotið og því fer hún fram á að hin kærða ákvörðun verði leiðrétt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greitt úr lífeyrissjóði samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 54/2006 sé fjallað um minnkað starfshlutfall og þar komi meðal annars fram:

„Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Önnur ákvæði laganna gilda um greiðslu bóta samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt. Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum.“

Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 og henni beri í samræmi 2. mgr. 39. gr. laganna að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi fengið lífeyrissjóðsgreiðslur frá Lífeyrissjóði verslunarmanna samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, þ.e. samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í rekstri vinnuveitanda í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 54/2006. Tekjur sem þessar skuli koma til frádráttar á greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt og af þeim sökum hafi myndast skuld sem kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Vinnumálastofnun bendir á að frá og með 10. september 2020 hafi tekið gildi breytingar á lögum nr. 54/2006, sbr. 8. gr. laga nr. 112/2020. Breytingar hafi orðið á ákvæði um hlutabætur og nýr svohljóðandi málsliður hafi bæst við: „Þrátt fyrir 1. mgr. 36. gr. koma greiðslur ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur ellilífeyris úr almennum lífeyrissjóðum ekki til skerðingar greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæði þessu.“ Umræddar breytingar gildi hins vegar ekki aftur fyrir gildistöku laganna. Því telji Vinnumálastofnun ekki tilefni til að endurskoða skuldamyndun í máli kæranda. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunnar að rétt hafi verið staðið að útreikningi skuldamyndunar í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna greiðslna sem hún naut frá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á grundvelli þágildandi XIII. kafla bráðabirgðaákvæðis laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið var á um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Í 5. mgr. kaflans segir meðal annars að önnur ákvæði laga nr. 54/2006 gildi um greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við geti átt.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði er skýrt að greiðslur úr almennum lífeyrissjóðum komu til skerðingar á þeim tíma sem kærandi fékk greiðslur frá Vinnumálastofnun. Kærandi byggir á því að sú framkvæmd brjóti gegn jafnræðisreglu. Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er að framangreind skerðing átti við um alla umsækjendur um atvinnuleysisbætur og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt. Því er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun feli í sér brot á jafnræði.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.  Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjur kæranda voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta