Buikwe: Nýtt húsnæði fyrir velferðar- og jafnréttismál
Sendiráð Íslands í Kampala hefur nýlega samþykkt að kosta byggingu skrifstofuhúsnæðis fyrir deild velferðar- og jafnréttismála í öðru samstarfshéraði Íslands í Úganda, Buikwe. Um er að ræða hluta af undirbúningsáfanga samstarfsverkefnis héraðsstjórnvalda og Íslands sem kallast „Efnahagsleg valdefling kvenna og ungmenna í Buikwe-héraði”.
Deildin býr við mjög lélega vinnuaðstöðu og skortir nauðsnynlegan búnað. Bættur aðbúnaður mun gera starfsfólki kleift að að sinna sem best verkefninu og þeim mikilvægu málaflokkum sem undir deildina heyra, þar á meðal eru velferðarmál, jafnréttismál og atvinnumál.
Samningur um byggingu húsnæðisins var undirritaður í vikunni og fyrsta skóflustungan var tekin í gær, 10. nóvember. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið snemma á næsta ári.