Umskipti á vinnumarkaði: Færri án atvinnu og meirihluti auglýstra starfa á einkamarkaði
Umskipti eru að verða á vinnumarkaði. Í maí komu aðeins 400 ný inn á atvinnuleysisskrá og hafa ekki verið færri frá því farið var að safna tölum þar um árið 2014. Mikið er einnig um afskráningar. Alls hafa næstum 6.500 manns farið af atvinnuleysisskrá síðustu tvo mánuði og flestir þeirra án aðkomu Vinnumálastofnunar.
Í lok maí voru 17.623 einstaklingar á skrá og fækkaði um 2.400 manns milli mánaða. Eftir fyrstu tíu daga júnímánaðar voru atvinnulausir orðnir færri en 15 þúsund og hefur atvinnulausum því fækkað um liðlega tíu þúsund manns frá því fjöldinn var mestur. Álíka margir falla nú af atvinnuleysisskrá í hverjum mánuði og voru skráðir þar í upphafi faraldursins í mars 2020, en skráð atvinnuleysi var 9,1% í maí í fyrra.
Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var árstíðaleiðrétt atvinnuleysi í maí 5,8%. Dróst atvinnuleysi hjá einstaklingum á aldrinum 16-24 ára saman um 13,7% á milli mánaða.
60% auglýstra starfa í einkageiranum
Aukin eftirspurn eftir starfsfólki birtist með skýrum hætti í fjölda auglýstra starfa af ýmsu tagi síðustu mánuði. Auk þjónustustarfa er mikil eftirspurn eftir sérfræðingum, starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og fólki í kennslu og rannsóknir. Fá störf flokkast undir ferðaþjónustu en það gæti skýrst af því að þau séu síður auglýst og ráðið sé beint í gegnum Vinnumálastofnun af atvinnuleysisskrá. 60% auglýstra starfa eru í einkageiranum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Það er gott að sjá vinnumarkaðinn taka kröftuglega við sér og virkilega ánægjulegt að meirihluti auglýstra starfa sé á einkamarkaði. Viðsnúningurinn er góður vitnisburður um viðbrögð okkar við kórónukreppunni, sem snerist ekki síst um að styðja við fólk og veita fyrirtækjum tímabundið skjól til að þau gætu komið sterk til baka þegar birti til.“