Ráðherra fordæmir ákvörðun Ísraela um nýja landtökubyggð
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fordæmir þá ákvörðun ísraelskra stjórnvalda að heimila nýja landtökubyggð í útjaðri austurhluta Jerúsalem. Tilkynnt var um það á föstudag, að reisa ætti þrjú þúsund ný hús á svæði milli Austur-Jerúsalem og landtökubyggðarinnar Maale Adumim á Vesturbakkanum, tæplega sólarhring eftir að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með afgerandi stuðningi að veita Palestínu stöðu áheyrnarríkis.
Utanríkisráðherra hvetur ísraelsk stjórnvöld eindregið til að afturkalla ákvörðun sína en hefja þess í stað viðræður við Palestínumenn um varanlegan frið.
„Með þessari framgöngu eru ísraelsk stjórnvöld að refsa Palestínumönnum fyrir að vilja stíga skref í átt að tveggja ríkja lausninni sem Ísraelar hafa þó sjálfir ítrekað lýst sig fylgjandi. Þetta er algerlega óviðunandi,“ segir ráðherra. „Alvarlegast er þó að útvíkkun landtökubyggða á þeim stað, sem hér um ræðir, er vísvitandi tilraun til að slíta naflastrenginn milli Palestínumanna í austurhluta Jerúsalem og á Vesturbakkanum, eins og ég sá sjálfur í heimsókn minni þangað sumarið 2011. Afleiðing þessa gjörnings Ísraelsmanna getur ekki annað en skaðað líkurnar á því að tveggja ríkja lausnin, með Jerúsalem sem höfuðborg beggja ríkja, geti orðið að veruleika.“
Ísraelskar landtökubyggðir í Palestínu eru ólöglegar skv. alþjóðalögum en engu að síður býr nú meira en hálf milljón Ísraela á hernumdu svæðunum.