Hoppa yfir valmynd
21. mars 2006 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 4. mars 2006

Fundargerð

Ár 2006, laugardaginn 4. mars, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram í Lögbergi, húsi lagadeildar Háskóla Íslands. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Baldur Sigurðsson og Ágústa Þorbergsdóttir.

Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:

1.         Mál nr. 12/2006

 

Eiginnafn:                          Jovina (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

 

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri; 
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur

unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir

í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við

íslenskt málkerfi.

 

Eiginnafnið Jovina (kvk.) getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber aðeins ein íslensk kona eigin-nafnið Jovina (fyrra nafn) og því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur. Eiginnafnið Jovina uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði tilvitnaðrar greinar laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Jovina (kvk.) er hafnað.

 

 


2.         Mál nr. 13/2006

 

Aðlögun kenninafns:            David verði Davíðsson

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Með bréfi Hagstofu Íslands, mótt. 10. febrúar 2006, var óskað úrskurðar mannanafna-nefndar um beiðni [...] og [...] um aðlögun kenninafns sonar þeirra að erlendu eiginnafni föður, David, til viðbótar ættarnafni sínu, þannig að kenninafn verði Davíðsson.

 

Með vísan til heimildar í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, um aðlögun kenninafna sem dregin eru af erlendum eiginnöfnum, er fallist á ofangreinda beiðni.

 

Úrskurðarorð:

 

Ofangreind beiðni um aðlögun kenninafns, David verði Davíðsson, er tekin til greina og skal fullt nafn [...], kt. [xxxxxx-xxxx], verða skráð þannig í þjóðskrá: [...].

  

 

 

 

3.         Mál nr. 14/2006

 

Millinafn:                           Kort

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Um millinöfn gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Í 2. málslið 2. mgr. 6. gr. laganna segir: „Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.“ Nafnið Kort hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karla og er skráð þannig á mannanafnaskrá. Nafnið Kort telst því ekki uppfylla ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, hvorki sem sérstakt né sem almennt millinafn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Kort er hafnað.

 

 


4.         Mál nr. 15/2006

 

Millinafn:                           Róman

Eiginnafn:                         Róman  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Í beiðni, mótt. 10. febrúar 2006, er bæði óskað eftir eiginnafninu Róman (kk.) og milli-nafninu Róman. Mannanafnanefnd ákvað því að afgreiða málið sem tvær umsóknir, annars vegar um millinafn og hins vegar um eiginnafn (kk.).

 

a) Róman sem millinafn:

Um millinöfn gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Í 2. málslið 2. mgr. 6. gr. laganna segir: „Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.“ Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá bera um 80 karlmenn, búsettir á Íslandi, nafnið Roman sem eiginnafn. Þótt nafnið sé ekki á mannanafnaskrá má segja að það hafi unnið sér hefð sem eiginnafn karla. Millinafnið og rithátturinn Róman telst því ekki uppfylla ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn, hvorki sem sérstakt né sem almennt millinafn og er beiðni um millinafnið Róman því hafnað.

 

b) Róman sem eiginnafn (kk.)

Eiginnafnið Róman (kk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Rómans) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Róman er hafnað. Beiðni um eiginnafnið Róman (kk.) er hins vegar samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

F


 

5.         Mál nr. 16/2006

 

Millinafn:                           Núpdal

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Millinafnið Núpdal er dregið af íslenskum orðstofnum og hefur ekki nefnifallsendingu. Það hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Núpdal uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Núpdal er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

­­­­­­­­­­­

 

 

6.         Mál nr. 17/2006

 

Eiginnafn:                         Sessilía (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Sessilía (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Sessilíu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Sessilía telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Sesselja og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá. Þess skal getið að eiginnafnið Sesselja kemur fram í Sturlungu og telst þannig vera frummynd nafnsins.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Sessilía (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Sesselja.

 

 


7.         Mál nr. 18/2006

 

Eiginnafn:                         Vápni  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Vápni (kk.) tekur íslenska eignarfallsendingu (Vápna) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Vápni telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Vopni og skal fært sem slíkt á mannanafnaskrá.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Vápni (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Vopni.

 

 

 

 

8.         Mál nr. 19/2006

 

Millinafn:                 Birgis

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Nafnið Birgis er skráð sem millinafn á mannanafnaskrá. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er ekki heimilt að samþykkja eignarfallsmynd nafna, sem unnið hafa sér hefð sem eiginnöfn karla eða kvenna, sem millinöfn nema um sé að ræða eiginnafn foreldris. Í þeim tilvikum fara millinöfnin ekki á mannanafnaskrá. Nafnið Birgir (ef. Birgis) hefur unnið sér hefð sem eiginnafn karla. Mannanafnanefnd telur að nafnið Birgis hafi ranglega verið fært sem millinafn á mannanafnaskrá og ákveður að fella það burt af henni.

 

Úrskurðarorð:

 

Nafnið Birgis skal fellt út af mannanafnaskrá sem millinafn.

 

 




9.         Mál nr. 1/2006

 

Eiginnafn:                Apríl  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mál þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 26. janúar 2006, og var afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar þrátt fyrir að eiginnafninu Apríl hafi margsinnis verið hafnað með úrskurðum mannanafnanefndar.

 

Í ljós hefur komið að umsækjandi, [...], var ekki að sækja um samþykki fyrir eiginnafninu Apríl handa óskírðri dóttur sinni, eins og talið var og umsóknareyðublað auk annarra gagna málsins gáfu til kynna, heldur hugðist hún sækja um nafnbreytingu fyrir sjálfa sig auk samþykkis fyrir nafninu Apríl. Haft var samband símleiðis við umsækjanda og henni bent á rétta boðleið málsins, að senda inn formlega beiðni um nafnbreytingu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar sem umrætt nafn, Apríl, væri ekki á mannanafna-skrá myndi ráðuneytið framsenda málið til mannanafnanefndar með beiðni um samþykki fyrir nafninu. Að fengnum upplýsingum þessum féllst umsækjandi á að afturkalla beiðni sína og var því ákveðið að fella málið niður.

 

Úrskurðarorð:

Málið er fellt niður.

 

 



 

10.      Mál nr. 101/2005

 

Eiginnafn:                         Hnikarr  (kk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mál þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 31. október 2005 og var afgreiðslu þess frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar, þrátt fyrir að eiginnafninu Hnikarr hafi margsinnis verið hafnað með úrskurðum mannanafnanefndar. Málið var næst tekið fyrir á fundi nefndarinnar 26. janúar 2006 en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess vegna anna nefndarmanna. Er málið nú tekið til meðferðar og afgreiðslu.

 

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

 

Nafnið Hnikarr er forn ritháttur nafnsins Hnikar sem þegar er á mannanafnaskrá. Ástæða þess að mannanafnanefnd hefur hingað til hafnað rithættinum Hnikarr er sú að nefnifallsendingin –rr er ekki í samræmi við íslenskt málkerfi eins og það er nú. Það uppfyllir því ekki það skilyrði sem tilgreint er í 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Þegar svo háttar að nafn uppfyllir ekki öll skilyrði ofannefndrar 5. greinar er unnt að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá ef það hefur áunnið sér hefð. Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast íslensku málkerfi eða almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni.

 

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um manna-nöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2004 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum:

 

1.  Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju

eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
  5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

 

2.  Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur

unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir

í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við

íslenskt málkerfi.


 

Mannanafnanefnd telur að þrátt fyrir nafnið Hnikarr uppfylli ekki öll skilyrði 5. greinar til að verða fært á mannanafnaskrá sé rétt að taka málið til endurskoðunar á grundvelli fjögurra atriða:

 

  1. Nafnið Hnikarr kemur fyrir í Snorra-Eddu og er talið Óðinsheiti. Ritháttur þess með –rr er samkvæmt málfræði fornmálsins. Í samræmi við vinnulagsreglur manna-nafnanefndar þegar um erlend nöfn er að ræða, má líta svo á að rithátturinn Hnikarr hafi unnið sér menningarhelgi.
  2. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera þrír karlmenn eiginnafnið Hnikarr að fyrsta eða öðru eiginnafni, hafa íslenskt ríkisfang og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Sá elsti þeirra er fæddur árið 1960.
  3. Nafnið Hnikarr er í fjölskyldu umsækjenda.
  4. Nú eru fjögur eiginnöfn karla með nefnifallsendingunni –rr á mannanafnaskrá en það eru nöfnin Óttarr, Snævarr, Steinarr og Ævarr.

 

Mörk forníslensku og íslensks nútímamáls eru ekki glögg og þar með er ekki ótvírætt að hafna forníslenskri beygingarmynd nafns sem fyrir kemur í heimildum ef það er ritað í samræmi við ritreglur nútímamáls. Því hefur mannanafnanefnd ákveðið að láta fyrir-liggjandi umsókn njóta nokkurs vafa um þetta atriði og taka tillit til þeirra þátta sem að ofan eru nefndir. Sú ákvörðun er tekin í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.

 

Nafnið Hnikarr beygist í aukaföllum eins og Hnikar, þ.e.:

Hnikarr – Hnikar - Hnikari - Hnikars.

 

Hnikarr telst vera annar ritháttur eiginnafnsins Hnikar og skal fært sem slíkt á manna-nafnaskrá.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um eiginnafnið Hnikarr (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Hnikar.

 

 

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta