Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2005: Úrskurður frá 19. janúar 2006

Ár 2006, fimmtudaginn 19. janúar, er í Félagsdómi í málinu nr. 13/2005:

                                                           

Alþýðusamband Íslands f.h.

Samiðnar, sambands iðnfélaga,

vegna Trésmíðafélags Reykjavíkur

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Sóleyjabyggð ehf.

(Sigurður Guðmundsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 12. þessa mánaðar, er höfðað 2. desember síðastliðinn.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára Júlíus­dóttir og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Samiðnar, sam­bands iðnfélaga vegna Trésmiðafélags Reykjavíkur.

Stefndi er Sóleyjabyggð ehf., Blikanesi 2, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda: 

  • að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að láta stefnanda í té afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla erlendra starfsmanna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005 auk gagna til staðfestingar iðnréttindum þeirra.
  • að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938.
  • að staðfest verði að bygging fjölbýlishúsa að Sóleyjarrima nr. 15 – 17 í Reykja­vík teljist vera byggingariðnaður sem leysa beri af hendi af iðnaðar­mönnum.
  • að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.
  • Loks er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda: 

  • aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.

 

I

Stefnandi, Trésmiðafélag Reykjavíkur, er stéttarfélag fagmenntaðra trésmiða og félags­svæði þess er Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kjalarnes og Kjósarhreppur. Stefndi er einkahlutafélag sem hefur þann tilgang að byggja fasteignir, annast inn- og útflutning byggingarefnis til húsagerðar, kaup og sölu fasteigna og lánastarfsemi. Mál þetta lýtur að byggingu stefnda á fjölbýlishúsi við Sóleyjarrima nr. 15 – 17 í Reykjavík en við það verk hafa starfað menn frá Litháen. Telur stefnandi að um sé að ræða iðnaðarmannastörf sem Litháarnir hafi leyst af hendi enda sé einungis einum íslenskum trésmið til að dreifa sem annast hafi bygg­ingastjórn á verkstað. Að öðru leyti hafa hinir erlendu starfsmenn byggt húsið allt frá því vinnu við sökkla lauk. Fari því um störf Litháanna eftir almennum kjara­samningum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar, bæði sökum þeirra verka sem þeir leysa af hendi, en ekki síður sökum þess að þeir muni njóta réttarstöðu iðnaðarmanna í heimalandi sínu.

Stefnandi hefur um nokkurt skeið haldið uppi sérstöku eftirliti með því að gætt sé lág­markskjara þegar atvinnufyrirtæki hafa fengið til sín erlent vinnuafl til að sinna verkum í sína þágu. Hefur eftirlit stefnanda beinst meðal annars að stefnda. Tilraunir stefn­anda til að fá upplýsingar úr hendi stefnda um atvinnuréttindi og launakjör þessara erlendu starfsmanna hafa borið takmarkaðan árangur. Skaut stefnandi málinu  til úrlausnar sérstakrar samráðsnefndar aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, um málefni útlendinga sem starfar samkvæmt samn­ingi aðila frá 7. mars 2004, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1980. Á fundi nefndarinnar 13. júlí 2005 var af hálfu stefnda lagt fram bréf þar sem áréttað var að hann hefði haft átta verka­menn í störfum hjá sér á árinu 2005 á grundvelli svonefndra þjónustusamninga við tvö nafngreind fyrirtæki í Litháen. Hafi stefndi greitt hinum erlendu fyrirtækjum 1.100 krónur fyrir hverja unna vinnustund. Fái  starfsmennirnir því engar greiðslur úr hendi stefnda sem standi í þeirri trú að kjör þeirra séu í samræmi við íslenskar reglur. Þá segir og að stefndi greiði ekki skatta eða önnur gjöld af launum þessara einstaklinga. Stefndi hefur hins vegar ekki lagt fram vinnuskýrslur starfsmannanna, þrátt fyrir áskorun þar um, en fullyrt að vinnutími þeirra sé ýmist 50 eða 60 tímar á viku samkvæmt samningum.

 

II

Stefndi, sem er sóknaraðili í þessum þætti málsins, reisir frávísunarkröfu á því að hin erlendu félög hafi samkvæmt íslenskri löggjöf fullkomna heimild til þess að láta erlenda starfsmenn sína starfa tímabundið á Íslandi án atvinnuleyfis, sbr. lög nr. 54/2001 og bráðabirgðaákvæði laga nr. 97/2002. Þá sé í 3. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/2001 gert ráð fyrir að samningssamband litháísks og íslensks fyrirtækis sé á þann veg sem stefndi lýsir. Hafi hin erlendu fyrirtæki miðlað ófaglærðum starfsmönnum til stefndu samkvæmt sérstökum samningi og þótt stefndi hafi haft vald til þess að skipa mönn­unum til verka breyti það engu um réttarstöðu starfsmannanna samkvæmt lögum nr. 54/2001. Með setningu 5. gr. nefndra laga hafi löggjafinn verið að tryggja erlendum starfsmönnum réttarstöðu hér á landi gagnvart erlendum vinnuveitanda. Hafi það verið ætlan löggjafans að gera notandafyrirtækið samábyrgt með hinu erlenda fyrirtæki hefði það verið tekið fram í lögunum. Stefndi sé ekki aðili að ráðn­ing­arsamningi milli hinna erlendu fyrirtækja og hinna erlendu starfsmanna og því ekki vinnu­veitandi þeirra. Hafi stefndi ekki undir höndum upplýsingar um launakjör starfs­mannanna hjá hinum erlendu fyrirtækjum og geti af þeim sökum ekki lagt þær fram. Hvíli engin skylda á stefnda að tryggja stefnanda aðgang að gögnum sem geri stefn­anda kleift að fylgjast með því að rétt sé staðið að launauppgjöri hinna erlendu fyrir­tækja gagnvart starfsmönnum sem starfa í þágu stefnda. Sé ekki hægt að leggja slíkar skyldur á herðar stefndu þar sem félaginu sé útilokað án tilverknaðar hinna erlendu fyrirtækja að leggja slíkar upplýsingar fram.       Hinir erlendu starfsmenn, sem starfað hafi hér á landi tímabundið í samræmi við lög nr. 54/2001, séu ekki félagsmenn í Tré­smíða­félagi Reykjavíkur, heldur félagsmenn í stéttarfélögum heimalands síns í sam­ræmi við vinnulöggjöf þess lands. Samkvæmt lögum nr. 54/2001 ættu launakjör hinna erlendu starfsmanna því að taka mið af kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og sam­taka atvinnulífsins en stéttarfélagið sé ekki aðili að máli þessu. Það samrýmist því ekki tilgangi stefnanda að gæta þeirra hagsmuna sem stefnukröfur taka til.

Samkvæmt ofansögðu byggi stefnandi málatilbúnað sinn á órökstuddum full­yrð­ingum. Með vísan til 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, beri því að vísa málinu frá á þeim grundvelli að kröfugerð stefnanda sé óglögg, ódómhæf og ekki til þess fallin að leysa úr réttarágreiningi.

Þá er á því byggt að ágreiningsefni málsins falli ekki að lögbundnu hlutverki og verk­efnum Félagsdóms samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. 1aga nr. 80/1938 en telja verði að löggjafinn hafi markað farveg fyrir slíkan ágreining með setningu 5. gr. 1aga nr. 54/2001. Af þessum sökum beri því einnig að vísa málinu frá í heild.

 

III

Stefnandi, varnaraðili í þessum þætti málsins, reisir mótmæli sín við að frá­vís­un­ar­krafa stefnda nái fram að ganga á því að rökstuðningur stefnanda fyrir kröfunni byggist aðallega á aðildarskorti, bæði sóknar- og varnarmegin í málinu. Leiði varnir, byggðar á aðildarskorti, til sýknu en ekki frávísunar. Stefnandi byggir og á því að sam­hengi sé á milli allra dómkrafna. Þá falli sakarefnið að öllu leyti undir dómsvald Félags­dóms. Ráðist úrslit málsins af því hvort sönnuð verði sú staðhæfing stefnanda að hinum erlendu starfsmönnum hafi verið greidd verkamannalaun, þrátt fyrir að þeir hafi sinnt iðnaðarmannastörfum, og þar með verið brotið gegn þeim af hálfu stefnda.

 

IV

Í máli þessu hefur stefnandi uppi eftirfarandi dómkröfur:

 

  1. Viðurkennt verði að stefnda sé skylt að láta stefnanda í té afrit allra vinnu­skýrslna og launaseðla erlendra starfsmanna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005 auk gagna til staðfestingar á iðnréttindum þeirra.
  2. Dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938.
  3. Staðfest verði að bygging fjölbýlishúsa að Sóleyjarrima nr. 15 - 17 í Reykjavík teljist vera byggingariðnaður sem leysa beri af hendi af iðnaðarmönnum.
  4. Stefndi verði dæmdur til sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi krefst þess samkvæmt 2. lið dómkrafna að dæmt verið að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938. Í því ákvæði segir að samningar einstakra verka­manna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við samn­inga stéttarfélags við atvinnurekandann enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Nið­ur­staða um 2. kröfulið er, eðli máls samkvæmt, háð því hvað kemur út úr þeirri gagna­öflun sem um ræðir í 1. lið dómkrafna stefnanda. Fær því ekki staðist að uppi sé höfð krafa um ógildingu vinnusamnings áður en fyrir liggur hvort sú krafa stefnanda, sem greinir í 1. lið dómkrafna stefnanda, nær fram að ganga. Þá er kröfugerð áfátt að því leyti að þar er í engu er lýst í hverju réttarbrot það, er stefnandi sakar stefnda um, er fólgið. Er þessi kröfugerð stefnanda í andstöðu við fyrirmæli d. og e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber því að vísa henni frá dómi. Þar sem úrlausn um sektarkröfu stefn­anda samkvæmt 4. dómkröfulið ræðst af því hvort sannað verði af hálfu stefnanda að stefndi hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 er með sömu rökum óhjákvæmilegt að vísa þeirri kröfu sjálfkrafa frá dómi.

Sú krafa er höfð uppi af hálfu stefnanda að staðfest verði að bygging fjöl­býl­is­húss við Sóleyjarrima 15 - 17 í Reykjavík teljist vera byggingariðnaður sem leysa beri af hendi af iðnaðarmönnum. Þessi kröfugerð á stoð í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, svo sem vísað er til af hálfu stefnanda, en þar segir að heimilt skuli stéttarfélögum, fél­ögum meistara og iðnrekenda og einstökum atvinnurekendum að leita úrskurðar Félags­dóms um það hvort starfsemi falli undir I. og II. kafla laga um iðju og iðnað svo og um það til hvaða löggiltrar iðngreinar hún taki. Þegar slík krafa er höfð uppi fer um skipan Félagsdóms eftir ákvæðum 3. mgr. 39. gr. laga nr. 80/1938. Segir þar að dóm­endur þeir, sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands, skuli þá víkja sæti, en í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndur hvor sinn mann úr hópi 18 manna sem tilnefndir eru í því skyni af Iðnsveinaráði Al­þýðu­sambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Tilnefnir Iðn­sveina­ráð ASÍ sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Nefni aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli samaðila máls nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna. Dómur í máli þessu er ekki skipaður á þann veg sem fyrir er mælt í 3. mgr. 39. gr. fyrrnefndra laga. Af þeirri sérstöku skipan mála, um hverjir komi til greina sem dómendur af hálfu aðila máls vegna ágreinings um þau atriði sem um ræðir í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, er ljóst að lögin gera ráð fyrir að mál sé einvörðungu rekið um ágreining þann er þar um ræðir en ekki um önnur álitaefni svo sem hér háttar til. Samkvæmt framansögðu verður þessum kröfulið vísað frá dóminum.

Stefnandi gerir þá kröfu samkvæmt 1. lið dómkrafna að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að láta stefnanda í té afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla erlendra starfs­manna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005 auk gagna til staðfestingar iðn­réttindum þeirra. Byggir stefnandi kröfuna á sérstöku samkomulagi frá 7. mars 2004 milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um tiltekna málsmeðferð í ágrein­ingsmálum er lúta að útlendingum á íslenskum atvinnumarkaði.

Samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana og að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnu­samningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Þá skal Félagsdómur dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn enda séu að minnsta kosti 3 af dóm­end­unum því meðmæltir, sbr. 3. tl. greinarinnar. Að lokum er heimilt að leggja fyrir dóm­inn mál samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna en um slík mál hefur fjallað hér að framan.

Ofangreind krafa stefnanda lýtur ekki að því að fá dæmt að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 80/1938 eða fyrrnefndu samkomulagi með því að afhenda stefnanda ekki þau gögn, sem krafan tekur til, heldur er gengið lengra og krafist viðurkenningar á að stefnda sé skylt að afhenda stefnanda gögnin. Félagsdómur er sérdómstóll og ber að túlka valdsvið hans þröngt. Samkvæmt því og með vísan til orðalags 44. gr. laga nr. 80/1938 verður að telja að kröfugerð sem þessi heyri ekki undir valdsvið dómsins, heldur beri að beina henni til almennra dómstóla. Er kröfunni því vísað sjálfkrafa frá Félagsdómi.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 100.000 krónur.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Alþýðusamband Íslands f.h. Samiðnar, sambands iðnfélaga, vegna Tré­­smíðafélags Reykjavíkur, greiði stefnda, Sóleyjabyggð ehf., 100.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

 

Sératkvæði Láru V. Júlíusdóttur

Ég er sammála rökstuðningi meirihluta dómsins fyrir frávísun á liðum 2 - 4 í dóm­kröfum stefnanda. Ég er hins vegar ósammála meirihlutanum um að vísa beri 1. lið dómkrafnanna frá dómi og færi fram eftirfarandi rök því til stuðnings:

Ofangreind krafa stefnanda lýtur að því að fá viðurkennt að stefnda sé skylt að af­henda stefnanda afrit allra vinnuskýrslna og launaseðla erlendra starfsmanna sem hjá honum hafa starfað á árinu 2005 auk gagna til staðfestingar iðnréttindum. Stefnda er skylt að tryggja stefnanda aðgang að gögnum sem geri stefnanda kleift að fylgjast með því að rétt sé staðið að launauppgjöri gagnvart starfsmönnum sem starfa í þágu stefnda sbr. Samkomulag um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði milli ASÍ og SA 7. mars 2004, á dskj. nr. 26. Þar er kveðið á um að trúnaðarmaður hafi á grundvelli sam­komulagsins rétt á að yfirfara gögn um laun eða önnur starfskjör þeirra erlendu starfs­manna sem kjarasamningur tekur til og starfa hjá viðkomandi vinnuveitanda og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra sem eru í störfum sem slíkra réttinda er krafist. Sé ekki trúnaðarmaður á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur. Sam­komu­lag þetta er ígildi kjarasamnings skv. 2. gr. l. nr. 55/1980, en þar er kveðið á um að samn­ingur aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skuli hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör sbr. 1. gr. með þeim takmörkunum sem í samningunum felast. Krafa þessi lítur þannig að máli sem risið er út af kæru um brot á vinnu­samningi og fellur því undir lögsögu Félagsdóms skv. 2. tl. 44. gr. l. nr. 80/1938. Ber því að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar en málskostnaður skal niður falla.

 

Lára V. Júlíusdóttir

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta