Yfirlýsing vegna ástandsins í Suður-Ossetíu
Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti í dag yfir þungum áhyggjum vegna átakanna sem brotist hafa út í Suður-Ossetíuhéraði í Georgíu. Kvað utanríkisráðherra það sérstakt áhyggjuefni að öryggi óbreyttra borgara hefði verið stefnt í voða og lagði hún áherslu á að fundin yrði friðsamleg lausn á deilunni sem allra fyrst. Fulltrúum Íslands hjá alþjóðastofnunum sem um málið fjalla hefur verið falið að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Fylgist fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum með umræðum í öryggisráði SÞ um málið.