Mál nr. 20/2022 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Ríkisútvarpinu ohf.
Fötlun. Ráðning. Ekki fallist á brot.
A, sem er með fötlun, kærði þá ákvörðun R ohf. að ráða hann ekki í hlutastarf við prófarkalestur. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli fötlunar. Var því ekki fallist á að R ohf. hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála 19. desember 2023 er tekið fyrir mál nr. 20/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dags. 16. desember 2022, kærði A þá ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. að ráða hann ekki í hlutastarf við prófarkalestur og tilkynna honum ekki um það. Af kæru má ráða að kærandi telji að með því hafi kærði mismunað honum á grundvelli fötlunar og þar með brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Þegar frekari upplýsinga hafði verið aflað hjá kæranda og afstaða tekin til hæfis nefndarmanna var kæran ásamt fylgigögnum kynnt kærða með bréfi, dags. 20. mars 2023. Greinargerð kærða barst ásamt fylgigögnum með bréfi hinn 30. mars 2023 og var send kæranda til athugasemda samdægurs. Athugasemdir kæranda eru dags. 30. mars og 2. maí 2023, og athugasemdir kærða dags. 28. apríl s.á.
MÁLAVEXTIR
- Kæranda var að tilhlutan Atvinnu með stuðningi hjá Vinnumálastofnun boðið að koma í starfsviðtal hjá kærða 13. júní 2022 vegna hlutastarfs við prófarkalestur. Ekki varð af ráðningu kæranda.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Af kæru má ráða að kærandi telji að ákvörðun kærða um að ráða hann ekki í hlutastarf við prófarkalestur og tilkynna honum ekki um það feli í sér mismunun á grundvelli fötlunar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Kærandi tekur fram að honum hafi ekki verið tilkynnt í kjölfarið að hann hefði ekki fengið starfið og ekki heldur hver hafi hlotið starfið í hans stað. Hefði kærða borið að tilkynna kæranda það sérstaklega þar sem hann hafi verið í viðkvæmri stöðu en mannauðsráðgjafi kærða hafi lofað að láta hann vita hvort það yrði af ráðningunni. Hafi mannauðsráðgjafanum verið í lófa lagið að segja honum að mannauðsstjóri myndi hafa samband við Vinnumálastofnun hafi það verið ætlunin. Það hafi hins vegar ekki verið gert að sögn ráðgjafa kæranda hjá Vinnumálastofnun.
- Kærandi telur að fötlun hans hafi að öllum líkindum orðið til þess að hann hafi ekki verið ráðinn en viðtalið hafi ekki gengið mjög vel. Tekur kærandi fram að hann hafi aldrei sagt að hann vildi ekki vinna í opnu rými heldur að það væri æskilegt að hafa næði. Bendir kærandi á að prófarkalestursrými hjá kærða sé við hliðina á fréttastofu. Ljóst sé að sæmilegt næði sé nauðsynlegt við prófarkalestur en yfirmönnum beri að tryggja það. Kærða hafi því mátt vera ljóst að kærandi þyrfti næði í starfi sínu og vinnuálag við hæfi vegna fötlunar en ekki stöðugt áreiti frá fréttastofu sem sé kvíðavaldandi og framkalli ófagleg vinnubrögð.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði telur að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um að ráða ekki kæranda sem prófarkalesara.
- Kærði tekur fram að hann hafi lagt áherslu á að kanna möguleika á starfstækifærum fyrir ólíka hópa í samstarfi við Vinnumálastofnun. Í maí 2022 hafi ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun lagt fram beiðni um að kanna möguleika á hlutastarfi við prófarkalestur fyrir einstakling með reynslu og menntun á því sviði. Starf hafi ekki verið laust á málfarsdeild kærða og ekki hafi staðið til að bæta við starfsfólki. Engu að síður hafi verið ákveðið að kanna möguleika á hlutastarfi fyrir þennan einstakling án undangenginnar auglýsingar. Það hafi því legið fyrir að um væri að ræða einstakling með skerta starfsgetu og viðtalið boðað til að kanna möguleika á að veita þeim einstaklingi tækifæri til starfs. Hafi kærandi í framhaldinu verið boðaður í starfsviðtal en viðtalið sátu, af hálfu kærða, málfarsráðunautur og mannauðsráðgjafi í forföllum mannauðsstjóra.
- Kærði bendir á að starfið hafi ekki eingöngu falið í sér yfirlestur á rituðu máli eða hefðbundinn prófarkalestur. Um hafi verið að ræða málfarsráðgjöf en slíku starfi fylgi mikil samskipti við samstarfsfólk, leiðbeiningar og ráðgjöf, sérstaklega á fréttastofu þar sem farið er yfir málfar allra fréttatíma.
- Kærði tekur fram að engin bein samskipti hafi verið við kæranda í aðdraganda starfsviðtalsins. Hafi samskiptin farið fram í gegnum tengilið hjá Vinnumálastofnun í samræmi við upplegg frá stofnuninni. Kærandi hafi mætt einn til viðtalsins. Þar hafi komið fram að hann væri ekki reiðubúinn að vinna í opnu vinnurými og undir því álagi sem óhjákvæmilega fylgdi eðli starfsins hjá kærða, auk þess sem hann hafi óskað eftir að vera í fjarvinnu. Kærði tekur fram að starfið krefjist þess að viðkomandi sé að mestu aðgengilegur á starfsstöð. Með vísan til þess sem kom fram í viðtalinu hafi það verið mat þeirra sem komu að viðtalinu fyrir hönd kærða að ekki gæti orðið af ráðningu kæranda. Bendir kærði á að engir nýir starfsmenn hafi verið ráðnir í deildina eftir að starfsviðtalið fór fram vorið 2022.
- Kærði tekur fram að í kjölfar starfsviðtalsins hafi tengiliður Vinnumálastofnunar óskað eftir upplýsingum um niðurstöðuna í tölvupósti en þær hafi verið veittar símleiðis. Hafi það verið skilningur kærða að kærandi yrði upplýstur af hálfu Vinnumálastofnunar þar sem fyrri samskipti hefðu farið fram með milligöngu ráðgjafa þar. Ekki hafi borist erindi frá kæranda sjálfum til að kanna niðurstöðuna og engin frekari samskipti hafi verið milli ráðgjafa Vinnumálastofnunar og kærða.
NIÐURSTAÐA
- Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að ráða kæranda ekki í hlutastarf við prófarkalestur og láta hjá líða að tilkynna honum um það.
- Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna þess sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil. Í niðurlagi ákvæðisins er tekið fram að neitun um viðeigandi aðlögun samkvæmt 10. gr. laganna teljist jafnframt mismunun. Í 8. gr. laganna er sérstaklega vikið að banni við mismunun í starfi og við ráðningu. Samkvæmt 1. mgr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Samkvæmt 10. gr. laganna skal atvinnurekandi gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.
- Í 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fötlun hafi haft áhrif á niðurstöðu kærða um að ráða kæranda ekki í hlutastarf við prófarkalestur.
- Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
- Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti ekki um umrætt hlutastarf hjá kærða á grundvelli auglýsingar. Þá liggur fyrir að kærandi var boðaður í starfsviðtal hjá kærða fyrir tilstilli Vinnumálastofnunar á grundvelli stuðnings við einstaklinga sem hafa skerta starfsgetu vegna fötlunar. Enginn annar var boðaður í viðtalið og því ljóst að enginn annar en kærandi kom til greina í starfið.
- Kærði hefur lýst því að ekki hafi verið um að ræða hefðbundið starf prófarkalesara heldur málfarsráðgjöf fyrir starfsfólk, einkum á fréttastofu. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal til að kanna möguleika á því að veita honum tækifæri til að starfa í hlutastarfi hjá kærða. Var niðurstaða kærða um að ráða ekki kæranda byggð á upplýsingum sem komu fram í viðtalinu, m.a. þeim að kærandi ætti erfitt með að vinna í opnu rými og undir því álagi sem fælist í starfinu. Að mati kærunefndar verður hvorki talið að slíkt hafi verið óheimilt né ómálefnalegt. Verður því ekki betur séð en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt. Það að kærandi hafi ekki verið upplýstur um niðurstöðu kærða vegna misskilnings milli kærða og Vinnumálastofnunar hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar við ráðningu í hlutastarf prófarkalesara. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Ríkisútvarpið ohf., braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ákvörðun um að ráða ekki kæranda í hlutastarf við prófarkalestur.
Kristín Benediktsdóttir
Anna Tryggvadóttir
Ari Karlsson