Metin verða gögn vegna jarðgangagerðar milli lands og Eyja
Ákveðið hefur verið að leggja mat á kostnað við gerð jarðganga milli lands og Eyja. Fengið verði óháð ráðgjafafyrirtæki til að annast verkefnið sem fælist í því að lesa úr fyrirliggjandi gögnum um rannsóknir og kostnaðarmat við hugmynd um jarðgöng.
Forsaga málsins er sú að á Vegagerðin annars vegar og Ægisdyr, félag um bættar samgöngur milli lands og Eyja, hins vegar hafa lagt fram margvísleg gögn um rannsóknir og kostnaðaráætlanir vegna jarðgangagerðar milli Heimaeyjar og Bakkafjöru. Fram hefur komið að mikið ber í milli um áætlaðan kostnað sem birtur hefur verið annars vegar á vegum opinberra aðila og hins vegar á vegum Ægisdyra.
Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar sendi samgönguráðuneytinu erindi um að fram fari mat óháðs rannsóknarfyrirtækis á þörf fyrir frekari rannsóknir. Eftir samráð við þingmannahóp Suðurlands hefur samgönguráðherra ákveðið að beina þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að hún hlutist til um að fá óháð ráðgjafarfyrirtæki hér á landi til að leggja mat á kostnað við jarðgöng milli lands og Eyja.
Mat ráðgjafarfyrirtækisins myndi byggjast á því að lesa út úr öllum fyrirliggjandi gögnum. Telji fyrirtækið ekki unnt að skera úr um ágreining um kostnað án frekari rannsókna skal það leggja fram rökstuddar tillögur um hverju þær myndu skila og hvað þær myndu kosta. Fyrirtækið skal einnig meta áhættu við jarðgangagerð.
Í bréfi til bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar þar sem skýrt er frá ákvörðun ráðuneytisins kemur einnig fram að ráðuneytið muni í engu hvika frá þeim undirbúningi sem þegar er hafinn vegna Bakkafjöruhafnar þótt framangreint matsvinna fari af stað.