Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úttekt vegna Vaðlaheiðarganga

Úttekt vegna Vaðlaheiðarganga - myndVaðlaheiðargöng

Í apríl síðastliðnum var samþykkt í ríkisstjórn að leggja til við Alþingi að verja allt að 4,7 ma.kr. til þess að ljúka við gerð Vaðlaheiðarganganna. Auk umframkostnaðar hafa talsverðar tafir orðið á verkinu frá því heimild til að hefja það var veitt árið 2012. Á sama tíma ákvað ríkisstjórnin að gerð yrði ítarleg sjálfstæð úttekt á framkvæmdinni allri og ástæðum þess að kostnaður við hana hefur verið langt umfram áætlanir. Friðrik Friðriksson, rekstrarráðgjafi hjá Advance var fenginn til verksins. Hann skilaði drögum að skýrslu í júní og endanlegri skýrslu þann 15. ágúst. Skýrslan var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Nokkrar helstu niðurstöður úttektarskýrslu:

Verkefnið getur ekki talist eiginleg einkaframkvæmd:

  • Þó að upphaflega hafi verið lagt upp með að gerð Vaðlaheiðarganga væri einkaframkvæmd sem ekki þyrfti að lúta forgangsröðun samgönguáætlunar varð hún í raun ríkisframkvæmd.
  • Frá setningu laga nr. 48/2012 hefur ríkið borið megináhættu af Vaðlaheiðargöngum, í formi framkvæmdaláns til verksins.

Ekki er ljóst að frekari rannsóknir hefðu dregið úr framkvæmdaáhættu:

  • Mikið innstreymi af heitu vatni, langvarandi jarðhiti, samfelld bergþétting, stórt hrun og mikið innrennsli af köldu vatni eru aðalástæður tafa og umframkostnaðar.
  • Jarðfræðirannsóknir á Vaðlaheiði voru viðamiklar og í samræmi við það sem tíðkast hefur við undirbúning annarra ganga hér á landi. Fleiri kjarnaboranir í rannsóknarskyni voru gerðar á Vaðlaheiði en við önnur göng.
  • Erfitt er að fullyrða hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir fyrrgreind áföll með frekari rannsóknum. Ef framkvæma ætti tæknilega úttekt á rannsóknar- og framkvæmdaþætti verksins yrði líklega að leita til útlanda með þá vinnu. Spurningar vakna um hvort almennt þurfi að leggja meira í undirbúningsrannsóknir fyrir gangagerð en alltaf er óvissa einhver.
  • Vegagerðin annaðist undirbúning útboðs og útboðið sjálft ásamt samningsgerðinni eins og í venjulegri veggangaframkvæmd.
  • Helsti eftirstandandi óvissuþátturinn varðar viðbótarkröfugerð verktakans vegna tafa.

Mögulegt er að lán ríkisins innheimtist innan skynsamlegs lánstíma en enn er talsverð óvissa um umferðaþróun og greiðsluvilja:

  • Umferðaraukning hefur orðið um Víkurskarð, eða um 50% meiri en spá frá 2011 gerði ráð fyrir. Aukin umferð bætir rekstrarhorfur og vegur á móti auknum framkvæmdakostnaði.
  • Niðurstöður rekstrarlíkans, sem unnið var í tengslum við skýrsluna, benda til þess að nokkrar líkur séu á fullri endurgreiðslu lána miðað við eðlilegan lánstíma. Þó eru talsverðar líkur á að full endurgreiðsla gæti tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað.
  •  Verðlagning veggjalda um göngin og þróun umferðar ráða langmestu um afkomu ganganna, ásamt vöxtum af væntanlegu langtímaláni. Vegstytting af göngum skiptir miklu um greiðsluviljann. Tiltölulega lítil vegstytting er af Vaðlaheiðargöngum. Um þennan lið, sem þó skiptir meginmáli er augljóslega mikil óvissa.
  • Ljóst er að gjaldskrá Vaðlaheiðarganga verður að vera talsvert hærri en í Hvalfirði til þess að endurheimtur lána að fullu séu raunhæfar, en gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið nánast óbreytt frá upphafi. 

Lagt er til að samstarfi við heimamenn verði haldið í óbreyttu formi, þrátt fyrir að áhættan sé öll á hendi ríkisins:

  • Samstarf hluthafa Vaðlaheiðarganga hf. við ríkið um framhald verkefnisins skiptir mjög miklu máli. Mikilvægt er, miðað við aðstæður, að allir aðilar málsins ljúki verkefninu saman og í sátt.
  • Í lánasamningi ríkisins við VHG hf. hefur ríkið nú þegar úrslitavald í meginákvörðunum, eins og ákvörðun um gjaldskrár vegganganna. Þar að auki er ríkið með víðtæk veð.

Skýrsluhöfundur leggur í lokin fram hugmyndir sínar og vangaveltur inn í umræðu um framtíðarfyrirkomulag, til dæmis um rekstrarfyrirkomulag vegganga almennt og útfærslu á veggjöldum almennt.

Upplýsingar um skýrsluna veitir Friðrik Friðriksson - 896 7350.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta