Hoppa yfir valmynd
10. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 409/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 409/2018

Mánudaginn 10. desember 2018

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 18. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar frá 9. febrúar 2017 um synjun á umsókn hans um sérstakan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 9. febrúar 2017, var umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning synjað á þeirri forsendu að slíkur stuðningur væri ekki greiddur til leigutaka í félagslegu leiguhúsnæði í eigu sveitarfélags, sbr. 1. gr. reglugerðar Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur með öllu óeðlilegt að Kópavogsbær veiti ekki sérstakan  húsnæðisstuðning með félagslegu leiguhúsnæði. Ef kærandi væri að leigja á almennum markaði í nákvæmlega sömu stöðu myndi hann fá greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

III.  Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir ákvörðun Kópavogsbæjar frá 9. febrúar 2017.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 9. febrúar 2017, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru móttekinni 18. nóvember 2018. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst tæplega tveimur árum eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta