Samstaða og samráð á óvissutímum
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra átti síðdegis í dag fundi með Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), og António Costa, forseta leiðtogaráðs ESB. Þetta er fyrsta heimsókn forsætisráðherra til Brussel eftir að ný ríkisstjórn tók við. Meginefni fundanna var óvissa í heimsviðskiptum, staða öryggis- og varnarmála Evrópu og málefni Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Hagsmunir Íslands í öndvegi
Leiðtogarnir ræddu þá miklu óvissu sem nú er ráðandi vegna nýrrar tollastefnu Bandaríkjastjórnar og lýstu yfir miklum áhyggjum af þeirri fordæmalausu stöðu sem upp er komin. Forsætisráðherra gerði ráðamönnum ESB grein fyrir þeim miklu hagsmunum sem eru undir fyrir íslenska útflutningsaðila, leiði tollahækkanir Bandaríkjanna til þess að ESB grípi til aðgerða til að vernda eigin atvinnuvegi. Ráðherra tjáði Von der Leyen á fundinum að íslensk stjórnvöld legðu ríka áherslu á að ESB gripi ekki til aðgerða sem kynnu að raska aðfangakeðjum og stríða gegn hagsmunum EES-EFTA-ríkjanna á innri markaðnum. Í því samhengi nefndi ráðherra sérstaklega hina hreinu íslensku álframleiðslu sem er mikilvæg evrópskum iðnaði.
„Forseti framkvæmdastjórnar ESB sýndi málflutningi okkar fullan skilning. Á fundinum kom skýrt fram að við erum mikilvægur hluti af innri markaði Evrópu og nánir bandamenn ESB-ríkja. Framkvæmdastjórn ESB mun upplýsa okkur um öll næstu skref sem hún kann að taka. Við munum auk þess halda áfram að skiptast á gögnum og upplýsingum um þessa erfiðu stöðu eftir því sem fram vindur,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að loknum fundi með Von der Leyen.
„Þetta er fordæmalaus staða og ég deildi með leiðtogunum þeim miklu áhyggjum sem við höfum. En það var einnig gott að finna fyrir skilningi á stöðu okkar og ríkum vilja til samstarfs af hálfu Von der Leyen og Costa,“ sagði Kristrún enn fremur.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og António Costa, forseti leiðtogaráðs ESB. Mynd: ESB
Ísland reiðubúið að axla frekri ábyrgð í öryggis- og varnarmálum
Staða öryggis- og varnarmála í Evrópu og þær umfangsmiklu breytingar í málaflokknum sem framundan eru í álfunni voru einnig ræddar á fundunum í dag. Bæði Von der Leyen og Costa fóru yfir aukinn þunga sem lagður verður í að efla varnargetu Evrópuríkja á næstu misserum, með það að markmiði að efla fælingarmátt Evrópuríkja.
„Við ræddum stóru myndina í öryggis- og varnarmálum Evrópu og hina geópólitísku stöðu sem uppi er, einnig á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum,“ sagði Kristrún að fundunum loknum. „Ég sagði þeim frá öryggis- og varnarmálastefnu Íslands sem ríkisstjórnin er byrjuð að vinna að og hvernig Ísland er reiðubúið að axla frekari ábyrgð, í takt við önnur Evrópuríki. Það var líka gott að heyra hve ríka áherslu forystumenn ESB leggja á Atlantshafstengslin og að sterkari Evrópa þýði sterkara Atlantshafsbandalag,“ sagði Kristrún.
Kristrún upplýsti einnig viðmælendur sína um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB og loks voru málefni EES á dagskrá.
Hagsmunagæsla sérstaklega mikilvæg á umbrotatímum
„Á þessum óvissutímum er það okkur ákaflega dýrmætt að eiga aðkomu að innri markaðnum og að eiga í jafn nánu samstarfi við stofnanir ESB og raun ber vitni. EES-samningurinn er kjölfesta í efnahag Íslands og annarra EES-EFTA ríkja og það var dýrmætt að geta rætt við ráðamenn í Brussel um hve ríka áherslu ríkisstjórnin leggur á skilvirka hagsmunagæslu og samstarf á þessum vettvangi,“ sagði forsætisráðherra.
Ráðherra nýtti einnig tækifærið og heimsótti sendiráð Íslands og nýja EFTA-húsið í Brussel þar sem stofnanirnar sem Ísland á aðild að eru til húsa. Hún hélt ávarp fyrir starfsfólk EFTA-skrifstofunnar, Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Uppbyggingarsjóðs EES, auk Íslendinga sem vinna að framgangi EES í Brussel, og þakkaði þeim fyrir störf sín í þágu hagsmunagæslu EES-EFTA-ríkja á umbrotatímum á alþjóðavettvangi.