Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málefni Götusmiðjunnar - málsmeðferð barnaverndaryfirvalda samkvæmt lögum

Barnaverndaryfirvöld fóru að málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga við rannsókn á málefnum Götusmiðjunnar og tóku ákvarðanir sínar með hagsmuni barnanna að leiðarljósi eins og þeim er skylt. Þetta kemur fram í niðurstöðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem hefur lokið athugun sinni á meðferð málsins.

Málið varðar rannsókn Barnaverndar Reykjavíkur, barnaverndarnefndar Kópavogs og Barnaverndarstofu, 25. júní síðastliðinn, á aðstæðum barna sem vistuð voru hjá Götusmiðjunni og brottför þeirra þaðan að kvöldi sama dags. Forstöðumaður Götusmiðjunnar beindi erindi til félags- og tryggingamálaráðuneytisins þar sem hann gerði athugasemdir við meðferð málsins og taldi að á sér hefði verið brotið í ýmsum atriðum.

Eins og fram kemur í niðurstöðu ráðuneytisins fer málsmeðferð í barnaverndarmálum eftir barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og grundvallast aðkoma ráðuneytisins að málinu annars vegar á því að Barnaverndarstofa heyrir undir yfirstjórn ráðuneytisins og hins vegar á heimild í lögunum til að skjóta ágreiningi milli Barnaverndarstofu og rekstraraðila meðferðarheimilis til ráðuneytisins. Ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um þá málsmeðferð barnaverndarmála sem ekki er kveðið á um í barnaverndarlögum.

Börnin njóti vafans

Niðurstaða ráðuneytisins er sú „að Barnavernd Reykjavíkur, barnaverndarnefnd Kópavogs og Barnaverndarstofa hafi farið að málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga við rannsókn málsins 25. júlí sl. Þá hafi það mat barnaverndaryfirvalda í máli þessu, að rétt væri að börnin færu frá Götusmiðjunni að kvöldi þess sama dags, verið í samræmi við frumskyldur barnaverndaryfirvalda samkvæmt barnaverndarlögum. Er þá vísað til þeirrar meginreglu 4. gr. laganna um að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu en í því felst að börnin skuli ávallt njóta vafans. Ráðuneytið telur einnig að þessi niðurstaða barnaverndaryfirvalda hafi verið innan ramma meðalhófsreglu 12. stjórnsýslulaga, enda hefði lögmætu markmiði barnaverndarlaga ekki verið náð með öðru móti.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta