Mörk kjördæmanna í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021
Landskjörstjórn hefur tilkynnt hvar draga skuli mörk Reykjavíkurkjördæma suður og norður fyrir alþingiskosningar 25. september 2021.
Mörk Reykjavíkurkjördæma suður og norður skulu dregin um miðlínu eftirfarandi gatna frá vestri til austurs: Eftir Hringbraut (frá Ánanaustum), gömlu Hringbraut, Miklubraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsvegi að Víkurvegi. Þaðan skulu mörkin dregin eftir Víkurvegi til austurs að Reynisvatnsvegi, í austur að Jónsgeisla og eftir Jónsgeisla að Krosstorgi (ISN93 hnit: 366173, 405513). Frá Krosstorgi eru mörkin dregin austur um miðlínu Gvendargeisla og Biskupsgötu að Reynisvatnsvegi. Frá gatnamótum Biskupsgötu og Reynisvatnsvegar eru mörkin dregin eftir miðlínu Hólmsheiðarvegar allt til móts við Haukdælabraut 66 (ISN93 hnit: 367088, 405485) og þaðan skal dregin bein lína að borgarmörkum (ISN93: hnit 369097, 405485).
Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir mörk milli Reykjavíkurkjördæma með rauðri línu og uppdráttur sem sýnir mörk Reykjavíkurkjördæma í Grafarholti með rauðri línu.
Þá hefur landskjörstjórn ákveðið að þeir sem búsettir eru erlendis, en eiga kosningarrétt hér á landi og eru á kjörskrá annað hvort í Reykjavíkurkjördæmi suður eða norður, skuli skiptast þannig að í Reykjavíkurkjördæmi suður komi allir þeir sem eru fæddir 1.-15. dag mánaðar en í Reykjavíkurkjördæmi norður komi allir þeir sem fæddir eru 16. dag mánaðar eða síðar. Sama regla gildir um þá sem skráðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík.
Auglýsing í Stjórnartíðindum um mörk kjördæma fyrir alþingiskosningar 25. september 2021