Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Ákvörðun um breyttar reglur vegna skimunar á landamærum

  - myndStjórnarráðið

Sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að breyta reglum um skimun á landamærum vegna COVID-19. Breytingin snýr eingöngu að íslenskum ríkisborgurum og þeim sem eru búsettir hér á landi. Sem fyrr verður hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum en gert er ráð fyrir að einstaklingar úr fyrrnefndum hópi sem velja skimun þurfi að fara aftur í skimun 4 – 5 dögum eftir komuna til landsins og vera í sóttkví þar til niðurstaða seinni sýnatökunnar liggur fyrir. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis þessa efnis og er stefnt að því að breytingin komi til framkvæmda eigi síðar en 13. júlí.

Eins og segir í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis hefur reynslan af skimun á landamærum leitt í ljós hættu á því að einstaklingar sem hafa smitast nýlega beri með sér smit sem greinist ekki við landamæraskimun en komi fram síðar. Sóttvarnalæknir telur að tilvik sem þessi skapi hættu á hópsmitum og þá sérstaklega þegar í hlut eiga einstaklingar með útbreitt tengslanet hér á landi. Þess vegna leggur hann til að breyttar reglur um skimun taki ekki til almennra ferðamanna heldur verði bundnar við íslenska ríkisborgara og aðra sem eru búsettir hér á landi.

Heilbrigðisráðherra hefur sem fyrr segir fallist á þessa tillögu sóttvarnalæknis og er undirbúningur að breyttu fyrirkomulagi hafinn. Breyting á reglum um sóttkví og einangrun vegna COVID-19 í samræmi við þetta er í undirbúningi og verður send Stjórnartíðindum til birtingar innan skamms.

Fyrir liggur að þeir sem þurfa að fara í tvær sýnatökur samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á reglum um sýnatöku á landamærum þurfa ekki að greiða fyrir seinni sýnatökuna.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta