Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Malaví: Sextíu ungmenni útskrifast úr verknámi

Sextíu ungmenni frá Mangochi-héraði fögnuðu vel í síðustu viku að hafa lokið fjögurra mánaða verknámi við hátíðlega athöfn að viðstöddum fulltrúum frá héraðsskrifstofu Mangochi, ráðuneyti ungmenna og íþrótta í Malaví, þingmönnum héraðsins og fulltrúum frá sendiráði Íslands í Lilongwe.

Unga fólkið á það sameiginlegt að vera frá afskekktum sveitarfélögum í héraðinu, Makanjira og Lulanga, en þau voru valin úr hópi umsækjenda til að stunda verknám í húsasmíði, bifvélavirkjun, klæðskurði, múraraiðn, og rafvirkjun. Í útskriftargjöf fengu nemendurnir ýmis tæki og tól eins og borvélar, verkfæri, saumavélar og hlífðarfatnað til að gera þeim auðveldara að stíga fyrstu skrefin í atvinnulífinu en oftast er hár kostnaður á slíkum búnaði þröskuldur sem reynist ungmennum erfitt er að yfirstíga.

Ísland hefur stutt héraðsyfirvöld í Mangochi um sérstakt tilraunaverkefni frá árinu 2021 við að styðja við efnahagslega valdeflingu og tækifæri ungmenna í héraðinu. Verknám 120 ungmenna er hluti af því verkefni og er þetta annar árgangurinn sem útskrifast. Verkefnið hefur einni aðstoðað sjö ungmennahópa sem hafa hlotið þjálfun í tækni og frumkvöðlafræðum, aðstoð við aðgengi að mörkuðum auk þess sem þeim hefur verið séð fyrir búnaði til að efla starfsemi þeirra.

Áætlaður íbúafjöldi Malaví eru rúmar 20 milljónir en meira en helmingur þjóðarinnar er yngri en 18 ára og 77 prósent eru yngri en 24 ára. Atvinnutækifæri fyrir ungmenni í landinu eru mjög fá og því mikilvægt að stuðla að margvíslegri þjálfun og aðstoð við ungt fólk í héraðinu til efla að atvinnuþátttöku þeirra og í baráttunni gegn fátækt. Talið er að rúmur helmingur íbúa í Mangochi héraði sé á aldrinum 10 til 29 ára, eða rúm hálf milljón.

Tilgangur verkefnisins er að virkja og efla þann mikla fjölda ungmenna í dreifbýli Mangochi og veita þeim hagnýta færni og þjálfun til að bæta lífskjör sín. Í ræðu sinni þakkaði einn þingmanna héraðsins Íslandi fyrir framlag sitt til ungmenna í hans kjördæmi og lofaði að hann skyldi láta kné fylgja kviði og sjá til þess að ungmennin fengu tækifæri við hæfi í heimasveitum sínum.

„Við höfum fengið að fylgjast með þeim sem útskrifuðust í fyrra og séð hvað þeim gengur vel. Nemendurnir sem eru að útskrifast hafa sýnt mikla þrautseigu og nú treystum við því að nærsamfélagið taki við og gefi þeim tækifæri til að sýna sig og sanna, því það er bæði skortur á atvinnutækifærum fyrir ungt fólk og þörf á vinnuafli með þessa sérhæfingu,“ segir Sigurður Þráinn Geirsson, verkefnafulltrúi við sendiráð Íslands í Lilongve. „Við vonumst til að þessi þjálfun muni aðstoða og stuðla að virkri atvinnuþátttöku ungmennanna í Mangochi,“ bætir hann við.

Sendiráð Íslands í Malaví hefur unnið með héraðsyfirvöldum að byggðaþróunarverkefni til að efla grunnþjónustu í Mangochi-héraði frá árinu 2012.

  • Malaví: Sextíu ungmenni útskrifast úr verknámi - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta