Hoppa yfir valmynd
2. september 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Jón Ingi, Úlfar og Gylfi nýir sérfræðingar hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu

Frá vinstri: Úlfar Gíslason, Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson og Jón Ingi Benediktsson - mynd

Ráðið hefur verið í þrjú störf innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sem auglýst voru í lok júní. Alls bárust 132 umsóknir um störfin.

Á skrifstofu stefnumörkunar var auglýst eftir sérfræðingi á sviði nýsköpunar og hefur Jón Ingi Benediktsson verið ráðinn í starfið. Sama skrifstofa auglýsti einnig eftir sérfræðingi á sviði háskóla og vísinda og var Úlfar Gíslason ráðinn í það hlutverk.

Jón Ingi Benediktsson lauk grunnnámi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984 og framhaldsnámi í lífeðlisfræði (e. human biology) við Kaupmannahafnarháskóla árið 1986 þar sem hann starfaði einnig við rannsóknir til ársins 1988. Jón Ingi hefur víðtæka reynslu af umhverfi rannsókna- og þróunarverkefna og sprotafyrirtækja auk reynslu af stjórnun, stefnumótun, rekstri og fjárfestingum. Á síðustu árum hefur hann starfað sem rekstrarráðgjafi og viðskiptaþróunarstjóri hjá Árósaháskóla auk þess að reka eigið ráðgjafafyrirtæki. Jón Ingi hefur einnig haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra á sviði vísinda, nýsköpunar og sprotaumhverfis, hann hefur leiðbeint íslenskum sprotafyrirtækjum í viðskiptahröðlunum Startup SuperNova og Hringiðu og verið virkur þátttakandi í samstarfsverkefnum háskóla, fyrirtækja og fjárfesta til að bæta framgang nýsköpunarverkefna og -fyrirtækja í Danmörku.

Úlfar Gíslason lauk grunnnámi í hagfræði við Rhodes College í Memphis í Bandaríkjunum árið 2003 og framhaldsnámi í alþjóðasamskiptum við American Graduate School of International Relations and Diplomacy í París í Frakklandi árið 2007. Hann er auk þess með viðbótardiplómu í Evrópufræðum frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla sem hann lauk árið 2017. Úlfar hefur starfað við stoðþjónustu og stuðning við rannsóknir og nýsköpun hjá HÍ undanfarin tólf ár, fyrst sem verkefnisstjóri og síðar sem deildarstjóri á styrkjaskrifstofu Vísinda- og nýsköpunarsviðs. Þá hefur hann einnig verið matsmaður hjá Rannís. Úlfar hefur mikla reynslu af alþjóðlegu samstarfi háskóla og hefur m.a. tekið virkan þátt í Aurora háskólanetinu sem HÍ er aðili að. Úlfar hefur störf hjá ráðuneytinu 1. nóvember.

Á skrifstofu framkvæmdar og eftirfylgni var starf talnaspekings með áherslu á árangursmælikvarða auglýst og hefur Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson verið ráðinn í starfið.

Gylfi Þorsteinn lauk grunnnámi í stærðfræði með heimspeki sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2019, með viðkomu í Japan þar sem hann var í skiptinámi við háskólann í Kyoto. Þá lauk hann meistaranámi í stærðfræði við École normale supérieure háskólanum í París í Frakklandi sumarið 2022. Gylfi hefur góða reynslu af gagnavinnslu og -greiningu en hann starfaði áður sem rannsakandi í tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar og rannsakandi við líffræðideild HÍ. Gylfi hefur einnig starfað sem aðstoðarkennari í ýmsum stærðfræði- og tölfræðiáföngum við háskólann og prófarkalesari.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta