Tóku þátt í ráðstefnu International Transport Forum
Ráðherrar aðildarríkjanna samþykktu yfirlýsingu þar sem fram kemur að stjórnarhættir samgöngumála eigi að ná til og fást við þau metnaðarfullu markmið sem sett eru í Parísaryfirlýsingu ríkja Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var í fyrra. Til að ná þeim markmiðum verði að breyta samgöngukerfum og samgöngutækni og auka verði samvinnu yfirvalda samgöngumála og fyrirtækja sem starfa að samgöngum meðal annars í því skyni að deila upplýsingum og gögnum er varða samgöngur og flutninga. Ná þarf fram meira samráði er varðar samgöngur í þéttbýli meðal annars þegar kemur að skipulagsmálum.
Í yfirlýsingu ráðherranna er fjallað um mikilvægi samgangna fyrir flutninga á alþjóðavísu, nauðsyn alþjóðlegra reglna og samvinnu ríkja við stefnumótun í samgöngum. Uppbygging samgönguinnviða skuli vera framsækin og leysa samgönguþarfir morgundagsins. Lýst er því sjónarmiði að haga verði regluverki þannig að það sé sveigjanlegt og vinni með nýsköpun. Þá er lögð áhersla á að samgönguupplýsingar frá opinberum aðilum og fyrirtækjum séu aðgengilegar og nýtanlegar til áætlunargerðar og stjórnunar á samgöngum. Loks er í yfirlýsingunni fjallað um aðgengi allra þjóðfélagshópa að samgöngum ekki síst að teknu tilliti til breytinga í aldurssamsetningu og lífsstíls almennings.
Í ávarpi á ráðstefnunni greindi Sigurbergur Björnsson frá þeirri miklu aukningu sem orðið hefði í komu ferðamanna til Íslands, hvernig aukningin reyndi mjög á vegakerfið og að brýnt væri að efla slysavarnir. Einnig sagði hann að eftir nokkurra ára niðurskurð væri aukin fjárfesting á sviði samgöngumannvirkja í sjónmáli og unnið væri að athugun á mögulegri samvinnu ríkis og einkageirans við fjármögnun umfangsmikilla samgöngumannvirkja.
Þá sagði hann frá samstarfi 6 ráðuneyta um aðgerðaáætlun til að draga úr áhrifum gróðurhúsalofts í á hinum ýmsu sviðum sem væri í anda yfirlýsingar ráðstefnu ITF og sagði að Ísland styddi heilshugar ráðherrayfirlýsinguna.