Hoppa yfir valmynd
13. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2011

Hinn 13. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 19/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi, dags. 11. mars 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2011 á beiðni kæranda um sérstakar húsaleigubætur. Var hin kærða synjun byggð á stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur, og studd við matsblað með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Krefst kærandi endurmats á stigagjöfinni til hækkunar.

 

I. Málavextir og málsmeðferð.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavíkur hinn 6. september 2010. Uppfyllti kærandi ekki reglur Reykjavíkurborgar um þriggja ára samfellda búsetu í Reykjavík, en var henni veitt undanþága frá þeirri reglu og umsókn hennar tekin til efnislegrar meðferðar.

Með bréfi þjónustumiðstöðvar B, dags. 28. febrúar 2011, var henni tilkynnt að samkvæmt reglum uppfyllti hún ekki skilyrði um sérstakar húsaleigubætur, en að hún væri komin á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt reglum um stigagjöf hafi verið lagt efnislegt mat á umsóknina og hún metin til 9 stiga, en til þess að eiga rétt til greiðslu sérstakra húsaleigubóta þurfi umsókn umsækjanda hið minnsta að vera metin til 11 stiga. Bréfinu fylgdi matsblað sem sýnir stigaútreikning fyrir kæranda. Kærandi skaut þessari ákvörðun til velferðarráðs Reykjavíkurborgar og óskaði eftir endurmati á ákvörðun stigagjafar. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 8. mars 2011 og staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar.

Kærandi er einstæð móðir tæplega tveggja ára gamals barns og hún býr í leiguhúsnæði. Hún kveðst vinna á leikskóla og voru tekjur hennar árið á undan umsókninni 2.577.575 kr. og meðaltal tekna þriggja síðustu ára var 2.345.745 kr. 

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að hana hafi einungis vantað 2 stig af þeim 11 stigum sem séu skilyrði greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Þessi 2 stig hafi verið vegna tveggja atriða, annars vegar vegna þess að árstekjur hennar hafi verið yfir tekjumörkum. Það dragi hún í efa. Hún kveðst vinna á leikskóla og vera með 164.000 kr. í útborguð laun og sú fjárhæð dugi skammt, og jafnvel þótt hún fái til viðbótar greiddar húsaleigubætur og meðlag samtals að fjárhæð 53.000 kr. Hún sé enn fremur í námi. Þá hafi seinna stigið sem hana vanti verið vegna þess að hún sé ekki með barn með hegðunarvanda. Hún segir það sem betur fer ekki eiga við um barnið sitt en henni finnist að hægt sé að líta fram hjá því í ljósi ungs aldurs sonar hennar og ef um hegðunarvanda væri að ræða þá færi það ekki í gegnum Greiningarstöð fyrr en hann væri orðinn þriggja ára gamall. Sonur hennar hafi verið tæplega tveggja ára að aldri þegar mál hennar var tekið fyrir hjá Reykjavíkurborg.

Kærandi gerir einnig grein fyrir erfiðleikum sem hún lenti í á unglingsárum og sambandi sínu og barnsföður síns. Kærandi kveðst telja sig duglega og ákveðna og að hún reyni að standa sig. Hún sé einstæð móðir og hjálpin sem hún sé að biðja um sé vegna þess að það sem hún hafi á milli handanna um hver mánaðamót dugi varla þegar búið sé að borga reikninga og annað. Hún hafi í kjölfar erfiðleika og áfalla orðið þunglynd og þjáðst af lystarstoli, auk þess sem hún hafi dregið sig í hlé frá vinum og kunningjum.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð C, dags. 18. janúar 2011. Það kemur fram að kærandi sé sokkin í verulegt þunglyndi, sem hafi gerst á þeim fjórum mánuðum sem séu liðnir frá því að hún hætti í lyfjameðferð, eftir að hún hafi talið sig hafa náð bata. Kærandi sé einstæð móðir í námi og aukavinnu og séu samanlögð dagleg verkefni hennar henni algerlega um megn í þeim veikindum sem hún sé jafnframt að takast á við. Með vottorðinu óskar læknirinn þess að kæranda verði rétt hjálparhönd, með fjárhagsaðstoð, sé þess nokkur kostur. 

 

III. Málsástæður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með áorðnum breytingum, upphaflega samþykktar í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004 með síðari breytingum.

Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík komi fram að þær séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrði og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna komi fram skilyrði fyrir því að umsókn öðlist gildi. Í 6. gr. sé kveðið á um að fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðist umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðunum, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, þar sem meðal annars sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum umsækjenda, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum.

Í 7. gr. komi fram að þegar fyrir liggi að umsækjandi fullnægi skilyrðum 4. gr. reglnanna, skilyrðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og fái 11 stig þegar um sé að ræða einstakling með eitt barn, sé heimilt að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur.

Umsókn kæranda hafi verið metin á grundvelli framangreindra reglna og hafi niðurstaðan verið sú að hún hafi verið metin til 9 stiga. Sumir þættir séu ekki háðir mati, eins og stig vegna tekna, en aðrir þættir séu háðir mati, svo sem húsnæðisstaða og félagslegur vandi umsækjanda. Hvað varði síðustu þættina í máli kæranda hafi aðstæður hennar verið metnar í báðum tilfellum til eins margra stiga og unnt hafi verið. Þau atriði sem ekki eigi við í máli kæranda séu staða umsækjanda, staða maka og félagsleg endurhæfing.

Hvað varði stig vegna tekna sé ekki heimilt að veita undanþágu frá þeim viðmiðum sem þar séu sett. Tekjur kæranda hafi numið 2.577.575 kr. fyrir árið á undan og meðaltal tekna þriggja síðustu ára sé 2.345.745 kr. Samkvæmt matsviðmiðunum fái umsækjandi ekkert stig ef árstekjur hans fara yfir 2.500.154 kr. Velferðarráð hafi því talið að synja bæri kæranda um 1 stig vegna tekna.

Kærandi hafi einnig farið fram á að henni yrði veitt 1 stig vegna sérstakra aðstæðna barna. Eins og fram komi á matsblaði sé veitt 1 stig vegna erfiðleika barna og sú þar sérstaklega tilgreindir heilsufars-, náms-, hegðunar- eða félagslegir erfiðleikar. Barn kæranda sé 20 mánaða gamalt og verði að líta svo á að barn kæranda sé heilbrigt enda liggi ekkert fyrir um erfiðleika hjá barninu. Velferðarráð hafi því talið að synja bæri kæranda um 1 stig vegna erfiðleika barns.

Velferðarráð tekur fram að með notkun matsblaðsins sé leitast við að gæta jafnræðis meðal umsækjenda og veita þeim stig á grundvelli atriða sem séu nánar tilgreind í matsblaðinu og veiti mismunandi mörg stig eftir aðstæðum viðkomandi. Það hafi því verið mat velferðarráðs að ekki væri ástæða til að breyta fyrirliggjandi stigagjöf með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og því hafi velferðarráð synjað kæranda um 2 stig til viðbótar við þau 9 stig sem henni hafi verið reiknuð samkvæmt mati starfsmanna.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 27. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík, sem tóku gildi 1. mars 2004. Samkvæmt VII. kafla reglnanna fer málsmeðferð eftir ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og ákvæðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda sérstakar húsaleigubætur eða félagslega leiguíbúð. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi er nú þegar á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Í 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík kemur fram að þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglnanna, skilyrði laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og fái 11 stig þegar um sé að ræða einstakling með eitt barn, sé heimilt að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur.

Umsóknir um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur eru metnar eftir ákveðnum reglum til stiga. Eru þær reglur birtar sem fylgiskjal við reglur Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004, með síðari breytingum. Samkvæmt matsblaði sem fyllt var út í kjölfar umsóknar kæranda hlaut hún alls 9 stig, en í málinu gerir hún kröfu um að henni verði veitt 2 stig til viðbótar. Annars vegar vegna tekna, en hún virðist telja tekjuviðmið samkvæmt reglunum óraunhæft. Hins vegar telur kærandi að hún eigi rétt til eins stigs vegna sérstakra aðstæðna barna. Þótt barn hennar sé heilbrigt, sé það ungt. Auk þess verði ekki hægt að greina svo ungt barn sem hennar með sérstakar aðstæður/hegðunarvanda.

Árstekjur kæranda árið á undan umsókn hennar námu 2.577.575 kr. og meðaltal tekna síðustu þriggja ára voru 2.345.745 kr. Samkvæmt matsviðmiðunum sem tóku gildi 4. febrúar 2010 fær umsækjandi ekkert stig ef árstekjur hans fara yfir 2.440.156 kr., en í umsögn kærða kemur fram að þessi fjárhæð sé 2.500.154. Hefur þetta misræmi ekki verið skýrt í gögnum málsins, en þótt miðað sé við hærri fjárhæðina er ljóst að tekjur kæranda eru hærri en þær árstekjur sem þar greinir. Er á það fallist með kærða að ekki verði hægt að veita undanþágu frá fyrrgreindu tekjuviðmiði, á grundvelli þess að gæta verður jafnræðis á milli umsækjenda.

Samkvæmt reglunum er veitt 1 stig vegna erfiðleika barna umsækjenda. Veitt er 1 stig vegna erfiðleika barna, þ.e. vegna heilsufars-, náms-, hegðunar- eða félagslegs vanda. Ekki kemur fram í gögnum þessa máls annað en að barn kæranda sé heilbrigt og er því fallist á það mat kærða að þessu leyti.

Við úrlausn málsins hefur úrskurðarnefndin tekið tillit til þess að heimilt er að veita undanþágu frá fyrrgreindu tekjuviðmiði skv. 5. gr. b. Þótt slík undanþága hefði verið veitt, hefði kæranda allt að einu skort eitt stig til þess að umsókn hennar hefði náð þeim tilskilda stigafjölda sem áskilinn er samkvæmt fyrrgreindum reglum. Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 8. mars 2011 í máli A er staðfest. 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                           Gunnar Eydal

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta