Útskrift kennara fyrir áhersluskóla í Mangochi héraði í Malaví
Í þróunarverkefni Íslendinga með héraðsstjórninni í Mangochi í Malaví, sem lýtur að grunnþjónustu við íbúana, styðja íslensk stjórnvöld við uppbyggingu tólf grunnskóla. Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðukonu sendiráðs Íslands í Lilongve er ætlunin að allir skólarnir uppfylli staðla malavískra skólayfirvalda.
“Við fjárfestum í innviðum og tækjum og tólum fyrir nemendur og kennara. Ennfremur kostuðum við þriggja ára kennaranám sextíu ungmenna, flestra frá Mangochi, við kennaraskóla sem félagasamtökin “Þróunaraðstoð frá fólks til fólks” (Development Aid from People to People, DAPP) reka. Námið í kennaraskólum DAPP miðast fyrst og fremst við að mennta kennara fyrir dreifbýlisskóla,” segir Ágústa.
Að hennar sögn er DAPP kennaraskólunum ætlað að skapa nýja kynslóð kennara sem færa eiga nútíma menntun til fátækra samfélaga og stuðla þannig að framþróun þeirra. “Kennslufræðin í kennaraskólanum er framsækin og einstök í aðferðafræði sinni, þar sem sameinaðar eru fræðilegar námsbrautir og hagnýt vinna. Skólinn leggur áherslu á hlutverk kennarans sem lykilaðila í samfélagsþróun í sveitum landsins,” segir hún.
Fræðsluskrifstofan í Mangochi tók þá afstöðu á sínum tíma að þeir kennarar sem yrðu menntaðir í gegnum héraðsþróunarverkefnið færu í DAPP kennaranám frekar en almennt kennaranám.
Á dögunum var haldin útskriftarathöfn í DAPP kennaraskólanum í Thyolohéraði í suður Malaví. Ágústu Gísladóttur var boðið í athöfnina sem og forstöðumanni fræðsluskrifstofunnar í Mangochi. Gestirnir voru fræddir um námið og ýmiss verkefni sem nemendurnir höfðu unnið að á lokaárinu voru til sýnis.
Alls voru útskrifaðir 58 nemendur að þessu sinni. Af þeim voru 6 styrktir til náms gegnum Mangochi verkefnið.
Vefur DAPP í Malaví