Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 66/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 66/2022

Miðvikudaginn 10. ágúst 2022

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun B á beiðni kæranda um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 28. janúar 2021 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Með umsókn hans fylgdi tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram kom að fæðingardagur barns væri áætlaður X og að fæðingarorlof kæranda yrði tekið í einu lagi frá 3. janúar 2022. Samkvæmt gögnum málsins fæddist barn kæranda X.

Með beiðni til vinnuveitanda, dags. 17. desember 2021, óskaði kærandi eftir því að hætta við töku áður tilkynnts fæðingarorlofs og fresta því um ótiltekinn tíma. Með tölvupósti, dags. 20. desember 2021, synjaði Menntaskólinn við Sund beiðni kæranda um að hætta við áður tilkynnt fæðingarorlof. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði frá 3. janúar 2022 í samræmi við upphaflegar fyrirætlanir hans um töku fæðingarorlofs.

Með tölvupósti 26. janúar 2022 tilkynnti kærandi Fæðingarorlofssjóði að vinnuveitandi hefði ekki fallist á að hann myndi hætta við töku fæðingarorlofs og að hann hygðist kæra þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 27. janúar 2022. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst með bréfi, dags. 15. febrúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. mars 2022 og voru þær sendar B til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. mars 2022. Viðbótarupplýsingar bárust frá kæranda í málinu þann 26. apríl 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun B um að synja beiðni kæranda um að hætta við töku fæðingarorlofs frá 3. janúar 2022 og fresta því um ótiltekinn tíma.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Fjallað er um rétt foreldra til fæðingarorlofs í 8. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þrátt fyrir framangreint sé foreldri heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Þá kemur fram í 2. mgr. 8. gr. að réttur til fæðingarorlofs stofnist við fæðingu barns og fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.

Í 1. mgr. 12. gr. ffl. er kveðið á um að þegar starfsmaður hyggist nýta sér rétt til fæðingarorlofs skuli hann tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi átta vikum fyrir fyrirhugaðan fæðingardag barns. Þá er gert ráð fyrir að við þær aðstæður þegar starfsmaður vill breyta áður tilkynntum upphafsdegi fæðingarorlofs eða tilkynna um nýtt tímabil fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl., beri honum að gera það þremur vikum fyrir hinn nýja fyrirhugaða upphafsdag fæðingarorlofs. Í 3. mgr. 12. gr. er jafnframt mælt fyrir um að tilkynning um töku fæðingarorlofs skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafrænu eða skriflegu, og skuli þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd þess og tilhögun. Þá skuli vinnuveitandi árita tilkynninguna með móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. ffl. skal foreldri sækja um greiðslur í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Þá segir í 2. mgr. 20. gr. að umsóknin skuli vera á því formi sem Vinnumálastofnun ákveður, svo sem rafrænu eða skriflegu, og skuli fylgja henni afrit af tilkynningu um fæðingarorlof samkvæmt 12. gr. sem foreldri hefur fengið áritaða hjá vinnuveitanda sínum þar sem fram komi fyrirhugaður upphafsdagur, lengd og tilhögun fæðingarorlofs. Loks segir í 3. mgr. 20. gr. að geti foreldri ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma sem það tilkynnti Vinnumálastofnun um samkvæmt 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna ber foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytinguna á því formi sem stofnunin ákveður, svo sem rafrænu eða skriflegu. Vinnuveitandi foreldris skal árita breytingu á tilhögun fæðingarorlofs foreldris.

Fyrir liggur að kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn, dags. 28. janúar 2021. Samhliða umsókn kæranda fylgdi tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram kom að fæðingarorlof kæranda yrði tekið í einu lagi frá 3. janúar 2022. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi samband við Fæðingarorlofssjóð með tölvupósti 26. janúar 2022 og tilkynnti stofnuninni að B hefði neitað að undirrita breytingu á tilhögun fæðingarorlofs. Með tölvupósti kæranda fylgdi eyðublað Fæðingarorlofssjóðs „Breyting og/eða nýtt tímabil á tilhögun fæðingarorlofs“. Þar hafði kærandi merkt við „Vil/Vill fresta orlofinu og tilkynna tilhögun fæðingarorlofs síðar“ en á eyðublaðið vantaði undirritun vinnuveitanda. Ljóst er að kærandi lagði fram umsókn um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs hjá Fæðingarorlofssjóði á því formi sem Vinnumálastofnun hefur ákveðið í samræmi við 3. mgr. 20. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þá er mælt fyrir um það hlutverk nefndarinnar í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Það er mat nefndarinnar að Fæðingarorlofssjóði hafi borið að taka afstöðu til umsóknar kæranda um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs með nýrri ákvörðun í samræmi við ákvæði ffl. Þar sem ágreiningsefnið hefur ekki fengið efnislega afgreiðslu hjá hinu lægra setta stjórnvaldi og þannig til lykta leitt þar er málið ekki tækt til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta