Reglugerðardrög um fjárhagsmálefni sveitarfélaga til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Umsagnarfrestur um drögin er til 23. apríl og skal senda umsagnir á netfangið [email protected]. Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi 1. maí.
Reglugerðin er sett í þeim tilgangi að setja skýr viðmið um rekstur og fjárhagsstöðu sveitarfélaga og tryggja virkt eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli kröfur um fjárhagslega sjálfbærni sem gerðar eru í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Markmið reglugerðarinnar er ennfremur að stuðla að gagnsæi og samræmdu verklagi við mat á fjárhagslegri stöðu og afkomu sveitarfélaga og tryggja formfestu í samskiptum sveitarfélaga við eftirlitsaðila með fjármálum sveitarfélaga.
Fjallað er í reglugerðinni um ábyrgð sveitarstjórna og meginreglur, mat á fjárhagsstöðu, aðlögun sveitarfélaga að fjárhagslegum viðmiðum, málsmeðferð og hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og aðgerðir til lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélaga. Reglugerðina skal endurskoða fyrir 1. janúar 2014.