Hoppa yfir valmynd
12. júní 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sterk fjárhagsstaða eldri borgara og kjör batnað umfram yngri aldurshópa

Fjárhagsleg staða eldri borgara á Íslandi er almennt sterk og hafa kjör hópsins batnað umtalsvert síðastliðinn áratug. Gildir það hvort sem litið er til tekna, kaupmáttar eða eigna- og skuldastöðu. Kjör hópsins á ýmsum sviðum hafa batnað umfram yngri aldurshópa. Samhliða hafa útgjöld almannatrygginga til eldri borgara aukist verulega. Þetta kemur fram í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna opinberrar umræðu um stöðu eldri borgara.

Í byrjun árs 2024 voru íbúar 67 ára og eldri 51.840 talsins hér á landi, þ.e. um 12% af heildarfjölda landsmanna, og hafði þeim fjölgað um 36% frá árinu 2015. Undanfarinn áratug hafa árleg útgjöld ríkissjóðs vegna málefna aldraðra, sem skýrast aðallega af ellilífeyrisgreiðslum, aukist alls um 53 ma.kr. bæði vegna þessarar fjölgunar og vegna þess að greiðslur á hvern ellilífeyrisþega hafa hækkað úr 2 milljónum króna á ári í 2,9 milljónir króna á föstu verðlagi.

Kaupmáttur 67 ára og eldri hefur undanfarinn áratug vaxið um að jafnaði tæplega 4% á ári. Sömuleiðis hafa útgjöld ríkisins til málefna aldraðra aukist um 25% að raunvirði frá árinu 2017 og um 91% frá árinu 2014. Áætluð útgjöld til málefna aldraðra í ár eru 118 milljarðar króna, en voru um 94 milljarðar árið 2017. Þær umtalsverðu hækkanir sem verið hafa til málefna aldraðra síðastliðin ár má ekki síst rekja til verulegra breytinga sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu árið 2017 í þeim tilgangi að bæta kjör aldraðra. Þær leiddu til aukinna tilfærslna til eldri borgara.

 

Útgjöld til málefna aldraðra hafa síðastliðinn áratug aukist bæði umfram þróun vergrar landsframleiðslu, sem nemur 65 prósentustigum og þróun skatttekna og tryggingagjalds til ríkissjóðs, sem nemur 78 prósentustigum.

 

Lágar skuldir og góð eignastaða

Góð staða ellilífeyrisþega endurspeglast bæði í lágum skuldum og eignastöðu. Eiginfjárstaða eldri borgara er almennt betri en hjá öðrum aldurshópum. Hópurinn er almennt lítið skuldsettur og vaxtagjöld hans í hlutfalli við ráðstöfunartekjur eru lág. Yfirgnæfandi meirihluti eldri borgara býr í eigin húsnæði. Það, og sú staðreynd að skuldir eldri borgara eru almennt lágar, bendir til þess að húsnæðiskostnaður þeirra sé sömuleiðis lítill í samanburði við aðra aldurshópa. Myndin að neðan sýnir vaxtagjöld heimila í hlutfalli við ráðstöfunartekjur þeirra heimila sem bera vaxtagjöld, en hlutfallið fer hratt lækkandi á efri árum.

 
 

Fleiri hafa hærri tekjur og færri lágar

Sé litið til stöðu þeirra eldri borgara sem hafa lægri tekjur þá sýnir greining eftir tekjutíundum að hlutfall eldri borgara sem raðast í neðstu fjórar tekjutíundirnar hefur lækkað markvert frá 2015. Þá hefur hlutfall eldri borgara sem eru um miðbik tekjustigans lækkað markvert frá 2017 og fleiri eru nú í efri tekjuhópum. Þetta bendir til þess að fjárhagsleg staða eldri borgara sé að styrkjast umfram aðra hópa.

 

Hlutfall einstaklinga sem eru undir lágtekjuviðmiðum er lægst í aldurshópnum 65 ára og eldri og hefur aldrei verið lægra, en gögn Hagstofu ná til tímabilsins 2004-2021. Hlutfall einstaklinga sem skortir efnisleg gæði er einnig lægst í aldurshópnum 65 ára og eldri. Hlutfall einstaklinga yfir 65 ára að aldri sem skortir efnisleg gæði var 1,1% árið 2021, en til samanburðar var sama stærð 5,3% hjá einstaklingum á aldrinum 55-64 ára sama ár. Opinber gögn benda því til þess að fátækt á meðal eldri borgara hafi farið dvínandi á undanförnum árum og sé orðin tiltölulega fátíð hér á landi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum