Ísland til eftirbreytni á sviði starfsendurhæfingar og atvinnumála fatlaðra
Framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt nr. 159 um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra var valin til umfjöllunar á yfirstandandi þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem dæmi um framkvæmd samþykktar sem gæti orðið öðrum ríkjum til eftirbreytni.
Þingið hófst í Genf í Sviss 5. júní og lýkur 20. júní. Um 5.000 fulltrúar ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og launafólks taka þátt í þinginu. Helstu mál á dagskrá þess er sjálfbærni almannatryggingakerfa í ljósi lýðfræðilegrar þróunar, grænt hagkerfi og fjölgun starfa og samstarf ríkisstjórna og samtaka atvinnulífsins til að vinna að umbótum í félags- og vinnumálum.
Framkvæmd Íslands til eftirbreytni
Fjölmennasta nefnd þingsins fjallar um meint brot aðildarríkjanna á samþykktum sem þau hafa fullgilt. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að nefndin taki til umfjöllunar á fundum sínum framkvæmd tveggja aðildarríkja á samþykktum sem geti orðið öðrum til eftirbreytni. Í ár var Ísland annað ríkjanna sem varð þessa heiðurs aðnjótandi fyrir framkvæmd samþykktarinnar um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra. Í skýrslu sérfræðinganefndar ILO er í þessu sambandi sérstaklega bent á ákvæði í lögum um málefni fatlaðra sem fjalla um atvinnumál og réttindavernd fatlaðra. Eins er horft til laga um starfstengda endurhæfingu nr. 60/2012, ekki síst aðdraganda lagasetningarinnar og samstarfsins sem var milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við undirbúning löggjafarinnar.
Í alþjóðasamþykktinni er meðal annars kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að móta og hrinda í framkvæmd stefnu í starfsendurhæfingu og atvinnumálum fatlaðra og jafnframt að endurskoða stefnuna reglulega. Skuli stefnan miða að því að tryggja öllum hópum fatlaðra aðgang að endurhæfingarstarfsemi við sitt hæfi og að því að fjölga atvinnutækifærum fatlaðra á vinnumarkaði. Samþykktin hefur einnig að geyma ákvæði um aðgerðir á landsvísu til að þróa starfsendurhæfingu og vinnumiðlun fyrir fatlaða. Fjallað var um mál Íslands í nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar síðastliðinn föstudag.