Utanríkisráðherra sækir vorfundi Alþjóðabankans
Þessa vikuna standa yfir vorfundir Alþjóðabankans í Washington. Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og stærsta þróunarsamvinnustofnun heims. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verður viðstaddur fundina í höfuðstöðvunum í Washington í dag og á morgun. Hann situr meðal annars fund Þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem skipuð er ráðherrum 25 landa og hittist tvisvar á ári. Utanríkisráðherra situr í nefndinni árið 2019 fyrir hönd kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og flytur ávarp þar sem áherslumálum kjördæmisins er komið á framfæri .
Utanríkisráðherra tekur einnig þátt í margvíslegum viðburðum sem tengjast samstarfi Íslands og Alþjóðabankans. Þar má nefna þátttöku í stofnviðburði nýs mannréttindasjóðs Alþjóðabankans, Human Rights and Development Trust Fund. Ísland er einn stofnaðila þessa nýja sjóðs, sem hefur það hlutverk að auka veg mannréttinda í verkefnum Alþjóðabankans og þekkingu innan bankans á málaflokknum.
Þá tekur utanríkisráðherra þátt í fundi smáríkja þar sem rætt verður um bláa hagkerfið svonefnda en Ísland er þátttakandi í nýstofnuðum ProBlue-sjóði Alþjóðabankans sem tekur á málefnum hafsins á heildrænan hátt. Ísland leggur sjóðnum til fjármagn í verkefni sem snúa að fiskimálum og plastmengun í hafi.
Í sumar tekur Ísland sæti í stjórn Alþjóðabankans til næstu tveggja ára en Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin skiptast á að gegna stjórnarsetu í bankanum. Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra leiðir starfið fyrir Íslands hönd.