Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Allir eiga rétt á að skrá sig á heilsugæslustöð

Allir eiga að geta skráð sig á heilsugæslustöðvar og ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að loka fyrir skráningar á stöðvarnar. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur áréttað þetta í bréfi sem hann hefur sent yfirlæknum og framkvæmdastjórum heilsugæslustöðva sem tilheyra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Rétturinn til að ská sig á heilsugæslustöðvar byggist á heilbrigðisþjónustulögunum nr. 40/2007 sem tóku gildi 1. september sl. og reglugerð nr. 787/2007 um heilsugæslustöðvar sem sett var á grundvelli laganna. Í reglugerðinni er sérstaklega fjallað um rétt einstaklinganna að því er varðar aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar. Í 3. grein reglugerðarinnar segir: “Hver einstaklingur skal eiga rétt á skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð, að jafnaði þá stöð sem er næst heimili hans. Einstaklingur skal að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og skal heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir leitast við að tryggja það. Ef ekki reynist unnt að skrá einstakling sem skjólstæðing tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð skal þess þó gætt að hann njóti sambærilegrar þjónustu á stöðinni og aðrir.

Heimilt er að skjóta ákvörðun forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar um að synja einstaklingi um skráningu á heilsugæslustöð til ráðherra með kæru. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Heilbrigðisstofnanir skulu, a.m.k. einu sinni á ári, senda landlækni upplýsingar um hvaða einstaklingar eru skráðir á heilsugæslustöðvar sem þær reka. Landlæknir getur gefið heilbrigðisstofnunum fyrirmæli um hvernig staðið skuli að miðlun þessara upplýsinga til embættisins. Landlæknir skal hafa eftirlit með því að skrár heilsugæslustöðva séu uppfærðar reglulega. Landlæknir veitir ráðherra upplýsingar um fjölda skráðra einstaklinga á hverja heilsugæslustöð í landinu.

Heilbrigðisstofnanir í hverju heilbrigðisumdæmi skulu í samræmi við ákvæði reglugerðar um heilbrigðisumdæmi hafa með sér samráð um skipulag heilsugæslunnar í umdæminu og aðgengi að henni. Komi upp ágreiningur milli heilbrigðisstofnana um skipulag heilsugæslu í heilbrigðisumdæmi sker ráðherra úr.

Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta