Útgjöld til almannatrygginga jukust um 23% milli ára
Útgjöld vegna bóta almannatrygginga jukust um 12,6 milljarða króna árið 2011 miðað við árið á undan, eða um 23% og námu heildaútgjöldin um 67,2 milljörðum. Þetta er niðurstaða bráðabirgðauppgjörs velferðarráðuneytisins um útgjöld almannatrygginga á þessu ári.
Skýringar á auknum útgjöldum eru þríþættar. Í fyrsta lagi ákváðu stjórnvöld að hækka bætur lífeyrisþega í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í vor og námu útgjöld vegna þess rúmum sex milljörðum króna. Í því fólst hækkun bóta um 8,1% og 50.000 króna eingreiðsla til lífeyrisþega í júní síðastliðnum, auk sérstaks álags sem bættist á orlofs- og desemberuppbót lífeyrisþega. Auk þessa voru víxlverkanir bóta almannatrygginga og örorkubóta lífeyrissjóðanna afnumdar með lögum sem leiddi til nokkurs útgjaldaauka í almannatryggingakerfinu.
Í öðru lagi skýrast aukin útgjöld almannatrygginga af því að fjármagnstekjur lífeyrisþega og tekjur þeirra úr lífeyrissjóðum hafa lækkað og þar með hefur réttur þeirra til bóta almannatrygginga aukist.
Í þriðja lagi fjölgaði ellilífeyrisþegum um 4,6% frá árinu 2010 til 2011. Annars vegar skýrist fjölgunin af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar en hins vegar af því að fleiri eiga nú rétt til almannatrygginga en áður vegna fyrrnefndrar tekjuskerðingar. Ellilífeyrisþegum sem eiga rétt á tekjutryggingu almannatrygginga hefur fjölgað um rúm 10% á umræddu tímabili vegna minni tekna.